Hoppa yfir valmynd
15. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2015 endurupptekið

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í enduruppteknu máli nr. 8/2015

 

I. Málsatvik

Kærunefnd húsamála komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 8/2015 að A, hér eftir nefnd gagnaðili, bæri að endurgreiða B, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, fyrirframgreidda leigu að fjárhæð 50.000 kr. Álit kærunefndar byggði á því að samkvæmt leigusamningi aðila, dags. 10. ágúst 2011, hefði álitsbeiðandi í upphafi leigutíma greitt 50.000 kr. í tryggingarfé, sbr. 4. tölul. 10. gr. samningsins, auk fyrirframgreiddrar leigu fyrir síðasta leigumánuð, sbr. 5. tölul. 10. gr. samningsins. Eins og málið lá fyrir kærunefnd hafði álitsbeiðandi þegar fengið endurgreitt tryggingarféð en krafa hans laut að endurgreiðslu á fyrirframgreiddri leigu fyrir síðasta leigumánuð. Þá hafði gagnaðili gert kröfu í málinu um að viðurkennt yrði að álitsbeiðanda bæri annað hvort að endurgreiða honum tryggingarfé eða síðasta leigumánuð. Niðurstaða nefndarinnar var sú að gögn málsins þóttu sýna fram á að álitsbeiðandi hefði greitt leigu fyrirfram fyrir síðasta leigumánuð og gagnaðila bæri að endurgreiða álitsbeiðanda þá leigu enda ekki talið að hann hefði orðið af leigutekjum vegna uppsagnar álitsbeiðanda á leigusamningi.

Gagnaðili óskaði eftir endurupptöku málsins með bréfi, dags. 7. júlí 2015, með vísan til þess að rangt væri að álitsbeiðandi hefði í upphafi leigutíma bæði greitt tryggingarfé og fyrirframgreidda leigu fyrir síðasta leigumánuð. Með beiðninni fylgdi yfirlit yfir greiðslur álitsbeiðanda til gagnaðila á tímabilinu frá 1. september 2010 til 28. nóvember 2014 en um er að ræða gögn sem ekki lágu til grundvallar við úrlausn málsins. Í sama bréfi gerði gagnaðili nýjar kröfur í málinu. Kærunefnd féllst á að endurupptaka málið með bréfi, dags. 27. ágúst 2015, með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem segir að aðili máls eigi rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Nefndin féllst hins vegar ekki á að unnt væri að taka nýjar kröfur gagnaðila til efnislegrar úrlausnar í máli þessu þar sem þær væru of seint fram komnar auk þess sem skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt. Óskað var eftir afstöðu álitsbeiðanda vegna endurupptöku málsins sem féllst á að framangreind staðhæfing gagnaðila væri rétt með bréfi, dags. 4. september 2015, en misskilningur hafi valdið því að hann hafi talið sig hafa greitt fyrirfram leigu fyrir síðasta leigumánuð.

 

II. Forsendur

Með hliðsjón af nýjum gögnum málsins, þ.e. yfirliti yfir greiðslur álitsbeiðanda til gagnaðila, og þeirri staðreynd að óumdeilt er nú á milli aðila að álitsbeiðandi hafi ekki greitt fyrirfram leigu fyrir síðasta leigumánuð þrátt fyrir ákvæði í leigusamningi þar um telur kærunefnd að fella beri úr gildi niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 8/2015 þess efnis að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda fyrirframgreidda leigu.

Gagnaðili gerir þá kröfu í máli nr. 8/2015 að viðurkennt yrði að álitsbeiðanda bæri að endurgreiða honum tryggingarfé eða greiða húsaleigu vegna vangoldinnar leigu fyrir janúar 2015. Í áliti kærunefndar taldi nefndin að ekki hefði verið sýnt fram á að gagnaðili hefði orðið af leigutekjum vegna janúar 2015. Kærunefnd telur ekki tilefni til í endurupptökumáli þessu að víkja frá þeirri forsendu enda varðar endurskoðun málsins aðeins þann hluta sem sneri að því hvort álitsbeiðandi hefði í raun bæði greitt tryggingarfé og leigu fyrirfram fyrir síðasta leigumánuð auk þess sem ekkert nýtt hefur komið fram sem breytir áliti kærunefndar þar um.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur kærunefnd að álitsbeiðanda beri ekki að greiða húsaleigu fyrir janúar 2015.

 

III. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri ekki að endurgreiða álitsbeiðanda fyrirframgreidda húsaleigu.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri ekki að greiða húsaleigu fyrir janúar 2015.

 

Reykjavík, 15. september 2015

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 Fyrra álit var gefið 22. júní 2015

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta