Hoppa yfir valmynd
28. október 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Endurskoðuð aðalnámskrá birt – aukinn stuðningur við menntakerfið

Endurskoðuð aðalnámskrá grunnskóla hefur tekið gildi. Með breytingunum er verið að bregðast við ákalli skólasamfélagsins um endurskoðun hæfniviðmiða í þeim tilgangi að gera aðalnámskrána aðgengilegri og auðvelda kennurum að nýta hana í daglegu skólastarfi.

Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs í grunnskóla, setur viðmið um nám og kennslu barna í skyldunámi og er leiðarvísir grunnskólakennara og skólastjórnenda um inntak og skipulag menntunar.

„Aðalnámskrá leggur grunninn að framtíðarfærni barna okkar og þekkingu samfélagsins alls,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Með breytingunum nú erum við að gera aðalnámskrá grunnskóla aðgengilegri og skýrari kennurum, skólum, nemendum, foreldrum og forráðamönnum og styðja við skilvirkara námsmat. Ætlunin er að mæta betur þörfum þessara hópa og breyttum aðstæðum og áherslum í samræmi við markmið menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.“

Endurskoðuð greinasvið aðalnámskrár grunnskóla, kaflar 17–26, hafa nú verið birt í Stjórnartíðindum. Endurskoðunin var unnin á árunum 2022–2024 á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, áður Menntamálastofnun, með þátttöku um 40 kennara og skólafólks. Hún byggir á úttekt mennta- og barnamálaráðuneytisins frá árinu 2020 en einnig víðtæku samtali við skólasamfélagið, ábendingum frá sveitarfélögum og fræðimönnum og samfélags- og tæknibreytingum síðustu ára. Endurskoðunin miðar að því að einfalda og skýra hæfniviðmið námskrárinnar, auk þess að auka samræmi milli ólíkra greinasviða.

Nokkrar nýjungar líta dagsins ljós í þessari endurskoðun og sem dæmi má nefna að hæfniviðmið um forritun og fjármálalæsi eru nú hluti af aðalnámskrá auk kafla um borgaravitund. Þetta eru mikilvægar nýjungar sem endurspegla breytt samfélag og nýjar áherslur.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu mun sinna því mikilvæga hlutverki að kynna og styðja við innleiðingu á endurskoðaðri aðalnámskrá, og mun stofnunin vinna markvisst að því verkefni í góðu samstarfi við skóla um allt land. „Endurskoðun aðalnámskrár er mikilvægur hluti í þeirri vegferð að styðja betur við íslenskt menntakerfi,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og bætir við að endurskoðunin hafi verið unnin í víðtæku samráði við aðila úr skólasamfélaginu. „Við höfum lagt okkur fram við að hlusta á skólasamfélagið svo námskráin þjóni því sem best. Núverandi endurskoðun ber þess vitni og einnig má nefna að fyrir tveimur árum var bætt inn í aðalnámskrá kafla um íslensku sem annað tungumál, eitthvað sem þá þegar var orðið löngu tímabært.“

Endurskoðuð aðalnámskrá öðlast þegar gildi og reiknað er með að grunnskólar hafi innleitt hana í nám og kennslu við upphaf næsta skólaárs. Þórdís Jóna segir lykilatriði að innleiðingin gangi vel fyrir sig: „Til að endurskoðunin þjóni markmiðum sínum þá þarf að aðstoða skóla við það mikilvæga verkefni að innleiða hana. Við tökum það hlutverk okkar mjög alvarlega og ætlum okkur sannarlega að vera það bakland fyrir skólana sem þeir þarfnast og eiga skilið í því verkefni sem öðrum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta