Opið samráð um evrópsku samgönguáætlunina með hliðsjón af loftslagsmálum
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um endurskoðun á samgönguáætlun Evrópusambandsins (e. Trans-European Transportation Network) með sérstakri hliðsjón af loftslagsmálum. Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum um áætlunina er til og með 5. maí.
Markmið endurskoðunarinnar er að tryggja að samgönguáætlunin geti lagt grunn að því að samgönguinnviðir uppfylli markmið og stefnu Evrópusambandsins í loftslagsmálum (e. European Green Deal). Þar er stefnt að því að ná hlutleysi í losun gróðurhúsalofttegunda og að draga úr losun frá samgöngum um 90% fyrir árið 2050.
Stefnt er að því að draga úr umhverfisfótspori samgangna með því að byggja á sjónarmiðum sjálfbærni og snjöllum samgöngum (e. Smart Mobility). Með endurskoðuninni á einnig ætlunin að laga innviði og samgöngustefnuna að fjarskiptatengdum lausnum.