Hoppa yfir valmynd
12. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra heimsótti stofnun Vigdísar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði með Jóni Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands, Ásdísi Rósu Magnúsdóttur, forstöðumanns stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Ann-Sofie Nielsen Gremaud stjórnarformann Vigdísarstofnunar og fleira starfsfólki HÍ og stofnunarinnar í dag.Ráðherra fékk góða kynningu á því merka starfi sem sinnt er hjá stofnuninni, helstu verkefnum og húsnæðinu Veröld Vigdísar. Ráðherra fékk einnig kynningu á fyrirhugaðri sýningu í Loftskeytamiðstöðinni um ævi og störf frú Vigdísar Finnbogadóttur sem verður opnuð á vormánuðum.

„Ég tel að sýningin um Vigdísi geti orðið vinsæll viðkomustaður bæði Íslendinga og ferðamanna. Saga Vigdísar hefur alltaf heillað heimsbyggðina og ég tel fullvíst að það sé hægt að skapa umgjörð utan um sýninguna sem verði í anda bústaðs George Washington í Bandaríkjunum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. „Ég hlakka til að fylgjast með verkefninu vaxa og verða að raunveruleika.“

Fjórtan tungumál og það fimmtánda bætist fljótt við

Hjá Stofnun Vigdísar, sem er rannsóknarstofnun á hugvísindasviði Háskóla Íslands, eru 14 tungumál kennd og vonir standa til að hægt verði að bjóða upp á pólskunám á næstu misserum. Mikil gróska er þar að auki í húsnæðinu, en þar er meðal annars sýning ætluð ungu fólki sem heitir „Mál í mótun“ og er tungumálasýning. Hún fjallar um heim tungumálanna og þróun þeirra.

„Við Vigdís deilum þeirri sýn að tungumál opni heima. Við erum líka sammála um að við sem þjóð stöndum á tímamótum varðandi íslenskuna og að við viljum styðja hana með ráðum og dáðum. Við þurfum að leggja mikið meira á okkur sem þjóð til að taka vel á móti fólki sem vill búa hér, starfa og tala íslensku. En þá þurfum við að gera íslenskuna mun aðgengilegri, auka framboð og aðgengi að námi í henni,“ segir ráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta