Samgönguáætlun 2013 til 2016 samþykkt í ríkisstjórn
Samgönguráð lagði nýverið fyrir innanríkisráðherra drög að fjögurra ára samgönguáætlun fyrir tímabilið 2013 til 2016. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti áætlunina fyrir ríkisstjórn í morgun og var hún samþykkt. Í kjölfarið verður hún lögð fyrir Alþingi sem tillaga til þingsályktunar. Tólf ára stefnumótandi samgönguáætlun skal endurskoða á fjögurra ára fresti og er endurskoðun hennar hafin. Tekur hún til áranna 2015-2026 og er miðað við að samgönguráð geti lagt hana fyrir ráðherra næsta haust.
Meðal stærstu framlaga til vegaverkefna má nefna þriggja milljarða króna framlag til Norðfjarðarganga, um 800 milljóna króna framlag til breikkunar á Hellisheiðarvegi, framkvæmdir við Arnarnesveg fyrir um 500 milljónir króna og vinnu við Vestfjarðaveg, Dettifossveg og við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum en þessi þrjú verkefni fá um 400 milljónir króna hvert. Þá er Sundabraut komin á samgönguáætlun á ný en stefnt er að því að hefja samstarf einkaaðila og ríkisins vegna fjármögnunar hennar á tímabilinu. Einnig gerir áætlunin ráð fyrir framkvæmdum við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða vegna uppbyggingar á Bakka fyrir um 850 milljónir króna.
Aukin áhersla á öryggi og viðhald
Til viðhaldsverkefna á að verja á næsta ári rúmum 5,4 milljörðum króna sem er 10% hækkun frá þessu ári. Áætlunin gerir ráð fyrir að til vegamála verði heildarframlög á næsta ári alls um 23,7 milljarðar króna en í ár nemur framlagið alls um 20,8 milljörðum. Til hafnaframkvæmda verði varið á næsta ári kringum einum milljarði króna og til flugmála um 1,7 milljörðum króna en af þeirri upphæð eru um 370 milljónir í stofnkostnað og viðhald.
Dýrafjarðargöng boðin út 2016
Af öðrum verkefnum má nefna að miðað er við að Dýrafjarðargöng verði boðin út árið 2016 og gert er ráð fyrir að rannsóknir vegna Fjarðarheiðarganga hefjist í ár. Einnig verður sett umtalsvert fé til lagningar slitlags á tengivegi víðs vegar um landið og til hjóla- og göngustíga, umferðaröryggisaðgerða og ýmissa lagfæringa til að greiða fyrir almennri umferð og umferð almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu.
Sundabraut aftur inn á áætlun
Sundabraut kemur nú aftur inn á samgönguáætlun en hugað er að mögulegri fjármögnun þeirrar framkvæmdar með þátttöku einkaaðila. Áfram er fjármagni veitt til endurbóta og rekstrar á Landeyjahöfn og reiknað er með að ríkishluti framkvæmda við hafnarmannvirki verði almennt í takti við fyrri áætlanir.
- Tillaga til þingsályktunar um Samgönguáætlun 2013-2016 er nú í meðförum Alþingis, sjá:
http://www.althingi.is/altext/143/s/0855.html
http://www.althingi.is/altext/143/s/pdf/0855.pdf