Tekjur sveitarfélaga að aukast og gert ráð fyrir hagnaði í ár
Innanríkisráðuneytið hefur tekið saman ýmsar upplýsingar um þróun fjármála sveitarfélaga síðustu árin í kjölfar þess að ráðuneytinu hafa borist fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir yfirstandandi ár. Þar kemur meðal annars fram að heildartekjur sveitarfélaga hafa aukist jafnt og þétt frá árinu 2010, framlegð frá rekstri hefur aukist og að áætlanir ársins geri ráð fyrir nokkrum hagnaði.
Í meðfylgjandi yfirliti er að finna upplýsingar um heildartekjur, framlegð, rekstur, veltufé frá rekstri, fjárfestingar og heildarskuldir og skuldbindingar og eru upplýsingarnar einnig settar fram í súluritum og línuritum.
Fjárhagsáætlanir 2014 gera ráð fyrir að heildarskuldir og skuldbindingar A-hluta sveitarfélaga verði um 268,2 milljarðar króna og um 557,3 milljarðar í A og B-hluta. Við samanburð á fjárhæðum er nauðsynlegt að hafa í huga hver þróunin vísitölu neysluverðs og gengi íslensku krónunnar hefur verið. Litið til þróunar skuldahlutfalls kemur fram að frá árinu 2010 hefur skuldahlutfallið farið lækkandi. Fjárhagsáætlanir ársins 2014 gera ráð fyrir að skuldahlutfallið verði um 118% í A-hluta og um 183% í A og B-hluta.
Með gildistöku sveitarstjórnarlaga árið 2012 var ákvæði um 150% skuldaviðmið fyrir A og B-hluta í reikningsskilunum. Árið 2012 var fyrsta rekstrarárið vegna hins nýja skuldaviðmiðs og nam viðmiðið það ár um 204%. Fjárhagsáætlanir áranna 2013 og 2014 gera ráð fyrir lækkun hlutfallsins og að það nemi um 174% árið 2014. Er þessi þróun í réttu samhengi við þróun skuldahlutfalls síðustu árin.