Frumvarp um íslensk landshöfuðlén lagt fram á Alþingi
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um íslensk landshöfuðlén. Markmið laganna er að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og styrkja tengsl þeirra við Ísland með því að kveða á um örugga, gagnsæja og skilvirka umsýslu þeirra. Gildissvið afmarkast við rekstur landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað ásamt nafnaþjónustu fyrir höfuðlén og skráningu léna undir þeim.
Sigurður Ingi sagði í framsöguræðu sinni á Alþingi að ærið tilefni væri að setja lagalega umgjörð um landshöfuðlén. Engin löggjöf væri í gildi á Íslandi um landshöfuðlénið .is eða önnur með beina skírskotun til Íslands. „Flest ríki sem við berum okkur saman við hafa sett lög um lénamál og því má segja að Ísland hafi dregist aftur úr öðrum þjóðum varðandi lagasetningar á sviði lénaumsýslu. Við samningu frumvarpsins var einkum litið til öryggissjónarmiða og var það haft að markmiði að setja lágmarks reglur til að stuðla að auknu öryggi,“ sagði ráðherra.
Skráningarstofur tilkynningarskyldar
Í frumvarpinu er fjallað um skráningarstofur og hlutverk þeirra en lagt er til að starfsemi skráningarstofa verði tilkynningarskyld en ekki leyfisskyld eins og fyrri frumvörp hafa gert ráð fyrir. Hlutverk skráningarstofa miðast við það hlutverk sem fyrirtækið Internet á Íslandi hf., ISNIC, hefur í dag.
Einnig er fjallað um skráningu léna, lokun, læsingu og afskráningu þeirra. Ekki eru lagðar til breytingar á reglum um skráningu léna frá því sem nú er. Skráningin verður rafræn að mestu leyti og munu skráningarstofur sjálfar setja reglur um skráningu léna. Ráðherra mun geta sett reglur um viðmið sem hafa skuli í heiðri við setningu reglna en mun ekki setja efnisreglur um skráningu enda gilda nokkuð fastmótaðar alþjóðlegar reglur um skráningu léna.
Í ræðu sinni benti ráðherra á að mikilvægt væri að rétthafi léna mun ekki öðlast beinan eignarétt á léni heldur aðeins óbeinan eignarétt, sem kallað er einkaafnotarétt af léni.
Forkaupsréttur ríkis að hlutum í ISNIC
Í sérstöku bráðabirgðaákvæði er lagt til að ríkissjóður fái forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf. ISNIC. Ráðherra segir ákvæðið fyrst og fremst eiga að tryggja að félagið verði ekki selt úr íslenskri lögsögu. Forkaupsréttarákvæðið heimilar ríkissjóði að ganga inn í tilboð sem gert hefur verið í félagið en verður þó ekki skylt að nýta heimild sína.