Fjöldi sveitarfélaga
Sveitarfélög eru nú 74 en voru 76 þegar síðast var kosið til sveitarstjórna, árið 2010. Lengst af tuttugustu öldinni voru sveitarfélögin vel yfir 200 – að öllum líkindum flest árið 1950, eða 229 - og urðu litlar breytingar á fjölda þeirra allt fram á seinni hluta níunda áratugarins.
Fækkun sveitarfélaga mátti fyrst um sinn rekja til þess að sveitarstjórnarlögum var breytt árið 1986. Með þeim var félagsmálaráðherra, sem þá var ráðherra sveitarstjórnarmála, heimilað að sameina þau sveitarfélög sem höfðu færri en 50 íbúa þrjú ár í röð. Árið 1986 voru sveitarfélögin 223 talsins en þeim fækkaði um 19 fram um 1990.
Upp úr 1990 hófst síðan nær samfellt skeið sameininga. Sveitarfélög voru 204 árið 1990 en árið 1998 hafði þeim fækkað í 124, eða um 40%. Þessi þróun hélt áfram á næstu árum. Þannig voru sveitarfélögin orðin 79 árið 2006 og hafði fækkað um 36% frá árinu 2000 en þá höfðu þau verið 124, rétt eins og árið 1998. Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá þróun mála 1930–2013 og hins vegar fjölda sveitarfélaga frá ári til árs á tímabilinu 1990–2013.