Vegna frétta af málefnum hælisleitenda
Vegna frétta undanfarið af málefnum hælisleitenda vill innanríkisráðuneytið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
Í lögum um útlendinga endurspeglast þær skyldur sem hvíla á íslenskum stjórnvöldum samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að, þ.m.t. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna frá 1951. Samkvæmt þeim er stjórnvöldum skylt að kanna hvort einstaklingur eigi rétt á vernd hér á landi, sæki hann um slíka vernd. Öllum hælisleitendum er tryggð lögfræðileg aðstoð á vegum Rauða kross Íslands á grundvelli samnings við innanríkisráðuneytið.
Innanríkisráðherra fer með almennt yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverk gagnvart stofnunum sem koma að framkvæmd málefna útlendinga. Liður í því er að fylgjast með því að reglur, framkvæmd og meðferð mála þessara stofnana sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og íslensk lög. Í málum sem varða hagsmuni barna er sérstaklega brýnt að yfirfara hvort framkvæmd og verklag standist kröfur sem leiða af áðurnefndum skuldbindingum.
Þá telur ráðuneytið mikilvægt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri er snúa almennt að málefnum barna og fjölskyldna sem sækja um vernd hér á landi.
Ákvæði 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu verndar fjölskylduna sem heild og á að tryggja rétt hennar til að vera saman. Mannréttindasáttmáli Evrópu tryggir ekki rétt erlends ríkisborgara til að koma til eða dvelja í tilteknu ríki enda hvílir engin almenn skylda á aðildarríki að virða val fjölskyldu um að setjast að í ákveðnu ríki. Almennt er ekki unnt að líta svo á að sú staðreynd ein og sér að lífsgæði í einu ríki séu lakari en í öðru geti leitt til þess að skylt sé að veita viðkomandi rétt til dvalar. Í framkvæmd hefur Mannréttindadómstóll Evrópu lagt áherslu á að meta þurfi atvik í hverju máli fyrir sig og skipta hagsmunir barnsins miklu máli í því mati, sbr. einnig 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Sú staða kann að koma upp að hagsmunir eins fjölskyldumeðlims, t.d. barns, séu slíkir af því að fá að dveljast áfram í móttökuríki, að brottvísun eða frávísun teljist ekki heimil, t.d. ef hætta er á því að þessi tiltekni einstaklingur muni verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í því ríki sem á að senda hann til eða muni þar búa við aðstæður sem eru taldar fela í sér slíka meðferð. Kemur þá til skoðunar hvort veita skuli allri fjölskyldunni heimild til dvalar á grundvelli fjölskyldusameiningar skv. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Verður alltaf að skoða atvik í hverju máli fyrir sig til að leggja mat á þetta og er það mat í höndum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála.
Við matið ber meðal annars að skoða hvort flutningur úr landi feli í sér að fjölskylda aðskiljist, hvort óyfirstíganlegar hindranir standi því í vegi að fjölskylda geti lifað fjölskyldulífi annars staðar (t.d. í upprunaríki), hversu sterk tengsl fjölskyldu eru annars vegar við móttökuríkið og hins vegar við upprunaríkið og hversu erfitt yrði fyrir fjölskyldu að setjast að annars staðar. Þá er mikilvægt að skoða hagsmuni barna m.t.t. aldurs, velferðar og mögulegra erfiðleika sem þau, foreldrar eða aðrir fjölskyldumeðlimir geta orðið fyrir ef til flutnings úr landi kemur.
Ráðuneytið hefur þegar hafið skoðun á því hvort þörf sé á að bæta verklag þegar börn eiga í hlut svo tryggt sé að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að alþjóðlegar skuldbindingar séu uppfylltar.