Mál nr. 126/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 126/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að í bréfi, dags. 6. ágúst 2013, kemur fram að Vinnumálastofnun fjallaði um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta á fundi sínum 31. júlí 2013. Í ákvörðun Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi haft tekjur í apríl 2013 og hafi þar með ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Hún hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem verði innheimtar skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. nóvember 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 24. janúar 2013. Umsókn kæranda var samþykkt og reiknaðist hún með 50% bótarétt. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra komu fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur vegna vinnu kæranda fyrir Reykjavíkurborg. Kæranda var tilkynnt þetta með bréfi, dags. 5. júlí 2013, og var þar óskað eftir skriflegum skýringum á ótilkynntum tekjum. Kærandi mætti í viðtal við ráðgjafa Vinnumálastofnunar 22. júlí 2013 þar sem hún greindi frá því að hún hefði ávallt tilkynnt um tekjur sínar frá Reykjavíkurborg á „mínum síðum“ á heimasíðu stofnunarinnar. Kom þá í ljós að kærandi hafði aðeins skráð inn tilkynningar um tekjur en ekki smellt á takkann „senda tilkynningu um tekjur“. Þann sama dag barst Vinnumálastofnun tilkynning um hlutastarf kæranda hjá Reykjavíkurborg í 33% starfshlutfalli. Með tilkynningunni fylgdi sú orðsending að kærandi hafi staðið í þeirri trú að hún hefði samviskusamlega sagt frá öllum sínum tekjum mánaðarlega. Síðar hafi komið í ljós að hún hafi ekki ýtt á takkann „senda tilkynningu um tekjur“.
Á fundi Vinnumálastofnunar 2. ágúst 2013 var ákveðið að kærandi skyldi ekki sæta viðurlögum vegna ótilkynntrar vinnu. Var henni því leyft að njóta vafans um hvort hún hefði tilkynnt um starfið á mínum síðum. Einnig hafi legið fyrir að kærandi hafi við staðfestingu á atvinnuleit 21. mars 2013 tilkynnt að hún hefði fengið vinnu hjá Reykjavíkurborg í 33% starfshlutfalli en það hafi farist fyrir hjá Vinnumálastofnun að skrá starfshlutfallið í greiðslukerfi stofnunarinnar og óska eftir tilkynningu um tekjur. Vegna þess að ekki var tekið tillit til hlutastarfs kæranda og tekna hennar á tímabilinu 7. mars til 30. júní 2013 hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 285.007 kr. sem henni bæri að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði þá þegar greitt 13.326 kr. með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kærandi telur að útreikningur Vinnumálastofnunar sé rangur. Vinnumálastofnun gefi til kynna að bætur sem þegnar hafi verið á sama tímabili og kærandi fékk greidd laun hjá vinnuveitanda hafi átt að vera ca 60.000 kr. á fjögurra mánaða tímabili. Kærandi lagði fram skjal með útreikningum sínum og er það merkt sem málsskjal nr. 1.1.
Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 17. og 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem leiddi til skuldamyndunar. Fram kemur að kærandi hafi hafið störf hjá Reykjavíkurborg 7. mars 2013 í hlutastarfi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sökum þess að það fórst fyrir hjá kæranda að senda tilkynningu um hlutastarf sitt og tekjur með fullnægjandi hætti hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 7. mars til 30. júní 2013, samtals að fjárhæð 285.007 kr. sem kæranda beri að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi greitt 13.326 kr. með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun bendir á að í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að þegar launamaður missi starf sitt en ráði sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda teljist hann hlutfallslega tryggður. Skuli tryggingarhlutfall atvinnuleitanda þá nema mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegni áfram. Af þessu lagaákvæði leiði að skerða hafi átt tryggingarhlutfall kæranda um 33% á því tímabili sem hún hafi gegnt hlutastarfinu hjá Reykjavíkurborg.
Meginregluna um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé að finna í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta.
Í samræmi við framangreind ákvæði séu atvinnuleysistryggingar einstaklinga í hlutastörfum skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Atvinnuleitandi með 100% bótarétt í 40% hlutastarfi fái því aðeins greidd 60% af þeim bótum sem hann eigi rétt til, sbr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Skerðing vegna tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirra fjárhæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda.
Í máli þessu hafi verið staðið að skerðingu með ofangreindum hætti. Meðal gagna í máli kæranda sé greiðsluseðill frá Vinnumálastofnun, dags. 2. ágúst 2013, þar sem finna megi frekari útlistun á útreikningi á skerðingu kæranda. Verði ekki séð að ranglega hafi verið staðið að greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu og beri kæranda að endurgreiða stofnuninni of greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. febrúar 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að endurkröfu Vinnumálastofnunar á ofgreiddum atvinnuleysisbótum er kærandi þáði á tímabilinu 7. mars til 30. júní 2013. Kærandi þáði atvinnuleysisbætur og var með 50% bótarétt þegar hún hóf störf hjá Reykjavíkurborg 7. mars 2013 í hlutastarfi. Hún taldi sig tilkynna hlutastarfið en gerði það ekki með fullnægjandi hætti eins og rakið hefur verið. Þetta leiddi til þess að hún fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir fyrrgreint tímabil. Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skerðingu atvinnuleysisbóta og er 1. mgr. 36. gr. laganna svohljóðandi:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Kærandi mótmælir því ekki að hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur en telur að fjárhæðin sem hún skuldar Vinnumálastofnun sé ranglega útreiknuð. Samkvæmt tilvitnaðri 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru atvinnuleysisbætur einstaklinga í hlutastörfum skertar þannig að fyrst er starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Skerðing vegna tekna er síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki er dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann á rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nær umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndar skerðingu atvinnuleitanda. Samkvæmt framanskráðu nam heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun 2. ágúst 2013 285.007 kr. Á greiðsluseðli frá Vinnumálastofnun, dags. 2. ágúst 2013, sem er meðal gagna þessa máls, má sjá hvernig skerðing kæranda er reiknuð út samkvæmt framangreindri lagagrein. Kæranda ber, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið að endurgreiða Vinnumálastofnun 285.007 kr. og er hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 31. júlí 2013, þess efnis að henni beri að endurgreiða Vinnumálastofnun eftirstöðvar ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð samtals 285.007 kr., er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson