Banaslysum í umferðinni fer fækkandi
Í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa (RNU) fyrir árið 2009 kemur fram að nokkru færri banaslys urðu árin 2004 til 2009 eða 20 á móti 26 á árunum 1998 til 2003. Ölvunarakstur var orsök þriggja banaslysa árið 2009, hraðakstur tvisvar og veikindi aðalorsök í tveimur slysum.
Á síðasta ári létust 17 manns í 15 slysum í umferðinni. Í ársskýrslunni er fjallað um hvert og eitt banaslys, orsakir og tillögur í öryggisátt sem nefndin telur brýnt að farið verði eftir. Segir í inngangi skýrslunnar að þó að erfitt geti verið að koma í veg fyrir öll umferðarslys séu ýmis úrræði tiltæk til að fækka þeim sem látast í slysum. Bílbeltanotkun sé sem fyrr efst á blaði en nefndin telur að fjórir af þeim ellefu ökumönnum og farþegum sem fórust á síðasta ári hefðu lifað af slys ef beltin hefðu verið notuð.
Þá er í skýrslunni fjallað nokkuð um svonefnda áfengislása en það er búnaður sem tengdur er ræsibúnaði bílsins. Þarf ökumaður að blása í mæli áður en vél er ræst og ef hann er í ökuhæfu ástandi fer bíllinn í gang en annars ekki. Telur rannsóknarnefndin að draga megi meira úr slysum sem stafa af akstri undir áhrifum með því að koma slíkum búnaði fyrir í bílum þeirra sem uppvísir eru ítrekað að slíkum brotum og hafa misst ökuréttindi. Telur nefndin að ganga þurfi lengra og beita sértækari úrræðum en verið hefur til að draga úr þessum afbrotum.
Fjallað er um notkun reiðhjólahjálma í skýrslunni og telur nefndin mikilvægt að auka notkun þeirra. Mælist hún til þess að allir hjólreiðamenn noti hjálma enda hafi rannsóknir sýnt að skyldunotkun hjálma auki notkun þeirra. Segir nefndin að þrátt fyrir að banaslys hjólreiðamanna séu fátíð verði nokkur alvarleg slys á ári hverju og að með notkun hjálms megi draga mjög úr líkum á höfuðmeiðslum.