Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2010 Innviðaráðuneytið

Landeyjahöfn tekin í notkun

Landeyjahöfn var tekin í notkun í gær þegar Herjólfur sigldi fyrstu ferðina frá Heimaey til Landeyjahafnar með gesti og fjölda Eyjamanna í blíðskaparveðri. Þá var nokkur mannfjöldi saman kominn við höfnina til fagna komu skipsins sem var fánum skreytt. Herjólfur hóf síðan siglingar samkvæmt áætlun í morgun.

Landeyjahöfn var vígð 20. júlí 2010.
Landeyjahöfn var vígð 20. júlí 2010.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, klippti á borða með aðstoð þeirra   Hermanns Guðjónssonar siglingamálastjóra, Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Vestmannaeyja, Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sveitarstjóra Rangárþings eystra, og skipstjóranna Steinars Magnússonar og Ívars Gunnlaugssonar. Þriðji skipstjórinn, Guðlaugur Ólafsson, var í hópi félaga sinna í Lúðrasveit Vestmannaeyja sem lék bæði við brottför frá Eyjum og við komuna í Landeyjahöfn.

Landeyjahöfn var vígð 20. júlí 2010.

 

Séra Halldór Gunnarsson í Holti flutti blessunar- og bænarorð og séra Kristján Björnsson í Vestmannaeyjum las ritningartexta en í framhaldinu hófst athöfn í þjónustuhúsinu þar sem flutt voru ávörp og kaffiveitingar boðnar.

Landeyjahöfn var vígð 20. júlí 2010.

Kristján L. Möller klippir á borða í landgangi Herjólfs. Steinar Magnússon skipstjóri er lengst til vinstri, þá Elliði Vignisson, Kristján, Hermann Guðjónsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Mega vera stoltir

Í upphafi afhenti Hermann Guðjónsson Kristjáni L. Möller höfnina formlega með nokkrum orðum og ráðherra flutti síðan ræðu. Í upphafi sagði hann Landeyjahöfn ekki aðeins mannvirki heldur líka þrekvirki og sagði að allir sem lagt hefðu hönd á plóginn mættu vera stoltir af verkinu. Ráðherra fór yfir forsögu og aðdraganda hafnargerðarinnar og sagði meðal annars:

,,Við erum hreykin af þessu mannvirki og öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn;  sérfræðingunum sem sýndu fram á  með rannsóknum sínum og vísindum að þetta væri gerlegt, sjómönnunum sem lögðu á ráðin með sérfræðingunum og þeim baráttumönnum og stjórnmálamönnum á Alþingi og í sveitarstjórnum sem höfðu framsýni til að taka af skarið og leggja á þetta djúp. Hönnuðir, reiknimeistarar og verktakar eiga einnig mikið hrós skilið.  Allir hafa þeir nýtt til hins ítrasta útsjónarsemi og verkkunnáttu sem þetta mikla verkefni krafðist.”

Þá tilkynnti ráðherra að hann hefði ákveðið að skipa nýjan stýrihóp til að hefja undirbúning að smíði nýrrar ferju og er gert ráð fyrir að hópurinn taki til starfa fyrir haustið.

Landeyjahöfn var vígð 20. júlí 2010.

 

Undir lok ræðunnar afhenti ráðherra Siglingastofnun Íslands þakklætisvott fyrir vel unnið verk sem þeir verkfræðingar Gísli Viggósson og Sigurður Áss Grétarsson og Hermann Guðjónsson tóku á móti. Einnig afhenti hann aðalverktakanum Dofra Eysteinssyni, framkvæmdastjóra Suðurverks, áletraðan skjöld svo og Elliða Vignissyni bæjarstjóra sem tók við honum fyrir hönd Eyjamanna.

Næstir töluðu þeir Gísli Viggósson og Sigurður Áss Grétarsson og gerðu grein fyrir rannsóknum og undirbúningi verksins, Elliði Vignisson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Dofri Eysteinsson, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og þingmennirnir Oddný G. Harðardóttir og Róbert Marshall. Einnig fluttu þeir ávörp Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, og Árni Johnsen alþingismaður.

Mörg hundruð manns í Landeyjahöfn

Nokkuð á sjötta hundrað manns var í Landeyjahöfn í gær og þágu gestir veitingar bæði um borð og í þjónustuhúsinu sem nú er svo gott sem tilbúið. Eimskip sem annast ferjureksturinn sér einnig um rekstur þjónustuhússins og aðra þjónustu í höfninni vegna afgreiðslu skipsins.

Landeyjahöfn var vígð 20. júlí 2010.

Hér má sjá þá Sturlu Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, og Ísólf Gylfa Pálmason, sveitarstjóra Rangárþings eystra á bryggjunni þar sem þeir fögnuðu komu Herjólfs.

Skipstjórar Herjólfs eru þrír: Steinar Magnússon, Ívar Gunnlaugsson og Guðlaugur Ólafsson. Þeir voru ánægðir með fyrstu ferðina og ánægjulegan dag sem hófst á því að farin var síðasta áætlunarferðin til Þorlákshafnar. Þaðan var látið úr höfn laust eftir klukkan 12 og siglt til Eyja og með í för voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, siglingamálastjóri, vegamálastjóri, nokkrir starfsmenn þessara aðila og nokkrir þingmanna Suðurlands auk annarra farþega. Klukkan 16 var síðan siglt af stað í hina fyrstu formlegu ferð í Landeyjahöfn.

Herjólfur kveður Þorlákshöfn

Eins og fyrr segir hóf Herjólfur áætlunarsiglingar í morgun og sögðu skipstjórar bílaþilfar hafa verið fullt og talsvert af farþegum. Framundan er annahelgi hjá Herjólfi þegar Vestmannaeyingar halda þjóðhátíð sína um verslunarmannahelgina. Herjólfur siglir þá allt  uppí átta ferðir suma dagana en venjubundin áætlun gerir ráð fyrir fjórum til fimm ferðum á dag.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta