Hoppa yfir valmynd
20. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný skammtímavistun fyrir fötluð börn og ungmenni á Suðurnesjum

Skammtímavistun fyrir fötluð börn og ungmenni að Heiðarholti 14 til 16 í Garði var formlega opnuð klukkan 16 í dag að viðstöddu fjölmenni. Þangað hefur verið flutt sú skammtímaþjónusta sem áður var í Lyngseli í Sandgerði og aukið við hana.

„Tilkoma þessa nýja húsnæðis og gjörbreytt aðstaða hentar mun betur fyrir þá þjónustu sem veitt er í skammtímavistun og eykur möguleika á að mæta mismunandi þjónustuþörf“, sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í ávarpi sínu við þetta tækifæri. „Það er mér mikið ánægjuefni að geta lýst því yfir að frá og með næstu mánaðamótum verður hér í boði skammtímaþjónusta allan sólarhringinn, allt árið.“

Framboð á þjónustu mun við þetta aukast úr 1000 dvalarsólarhringum á ári í um það bil 1650 sem er 65% aukning.

Skammtímaþjónusta af því tagi sem fram fer í Heiðarholti var fyrst kynnt til sögunnar hérlendis í lögum um aðstoð við þroskahefta sem tóku gildi í ársbyrjun 1980 og hefur verið fjölskyldum fatlaðra barna og ungmenna – og reyndar fullorðinna líka – afar mikilvæg stoð allar götur síðan.

Skammtímavistun í Heiðarholti 14-16 í GarðiMarkmið hennar er að með tímabundinni dvöl sé álagi létt af fjölskyldunum og börn og ungmenni sem í hlut eiga fái dægrastyttingu. Lögunum var meðal annars ætlað að styðja við þá stefnu að þeir sem búa við fötlun geti dvalið í foreldrahúsum á uppvaxtarárum sínum í stað þess að vera vistaðir á stofnun eins og reyndin var einatt fyrir setningu laganna.

Skammtímaþjónustan er því ein af þeim mikilvægu stoðum í þjónustu við fatlaða sem hafa gert það að verkum að líkja má breytingum á þessu sviði undangenginn aldarfjórðung við byltingu.

„En það voru ekki einungis ný lög sem komu þessari byltingu af stað“ sagði Magnús Stefánsson. „Hún er einnig verk margra framsýnna og fórnfúsra manna og kvenna sem börðust fyrir nýjum viðhorfum og bættri þjónustu og lögðu sitt af mörkum til þess að koma þeirri þjónustu á laggirnar. Í því sambandi er vert að nefna Þroskahjálp á Suðurnesjum sem snemma lét sig varða málefni þeirra sem búa við fötlun og fagnar raunar 30 ára afmæli á þessu ári.“

Aukning skammtímaþjónustu á Suðurnesjum er í samræmi við stefnu félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna sem unnið hefur verið að undanfarin misseri og er á lokastigi. Þar segir að skammtímaþjónusta skuli verða rýmri kostur en verið hefur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta