Drög að húsnæðisstefnu (hvítbók um húsnæðismál) birt í samráðsgátt
Hvítbók um húsnæðismál er hluti af stefnumótunarferli stjórnvalda en með henni eru sett fram drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun sem byggja m.a. á stöðumati grænbókar um húsnæðismál sem kom út í apríl sl. Markmið með gerð hvítbókarinnar er að hvetja til umræðu um þau drög að húsnæðisstefnu sem þar eru sett fram ásamt framtíðarsýn, markmiðum og aðgerðum.
Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagsmunaaðila á þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð í hvítbókinni. Því eru öll þau sem lesa og kynna sér hvítbók hvött til að koma sínum skoðunum og sjónarmiðum á framfæri. Jafnframt gefst tækifæri til að taka þátt í umræðum um húsnæðisstefnu á Húsnæðisþingi sem haldið verður 30. ágúst nk.
Hvítbókin verður í opnu samráðsferli í samráðsgátt stjórnvalda frá 19. júlí til 4. september 2023. Að því loknu verður farið yfir athugasemdir umsagnaraðila. Í framhaldinu verður tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu lögð fram á Alþingi á komandi haustþingi.