Umhverfis- og auðlindaráðherra á norrænum fundum í Osló: Loftslagsmál í brennidepli
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sat í dag fund norrænna umhverfis- og loftslagsráðherra í Osló. Meðal annars var rætt um loftslagsmál, sjálfbærar borgir og norrænt samstarf á loftslagsráðstefnunni COP24 sem fram fer í Katowice í Póllandi í desember. Jafnframt ræddu ráðherrarnir um leiðir til að ýta undir grænar fjárfestingar og efla samstarf um græn opinber innkaup.
Guðmundur Ingi lagði á fundinum meðal annars áherslu á mikilvægi þess að þróa norrænt samstarf um aðlögun að loftslagsbreytingum og benti jafnframt á nýja skýrslu World Wildlife Fund um hnignum í stofnum villtra dýra í heiminum sem út kom fyrr í vikunni.
Ráðherra kynnti síðan áherslur í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Ungt fólk á Norðurlöndum, náttúruvernd og sjálfbær ferðamennska í norðri og hafið eru í brennidepli. Í kynningunni sagði ráðherra meðal annars frá áformum Íslands um að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um þjóðgarða á norðurslóðum árið 2020. Í umræðum um hafið ræddi hann um mikilvægi þess að styrkja enn frekar norræna samvinnu í baráttunni gegn plastmengun í hafi, sem og samspilið milli hafsins og loftslagsbreytinga.
Norrænu umhverfisráðherrarnir sátu síðan fund með nefnd Norðurlandaráðs um sjálfbæra þróun. Í umræðum á fundinum bar hæst nýlega loftslagsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, og mikilvægi þess að bregðast hratt við niðurstöðum hennar.