Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um greiðsluuppgjör

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 11. júlí 2012
Tilv.: FJR12050037/16.2.3


Efni: Úrskurður tollstjóra, dags. 27. febrúar 2012.

Ráðuneytið vísar til kæru [X], kt. […], dags. 12. maí 2012, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun tollstjóra, dags. 27. febrúar 2012, um að fella niður heimild kæranda til greiðsluuppgjörs, sbr. 5. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Málavextir og málsástæður:
Málavextir eru þeir að kærandi sótti um heimild til greiðsluuppgjörs opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, þann 23. mars 2011 og var umsóknin samþykkt af tollstjóra samdægurs. Með ábyrgðarbréfi, dags. 24. janúar 2012, skoraði tollstjóri á kæranda að leiða skuldbreytingarferlið til lykta innan tveggja vikna. Jafnframt var kæranda greint frá því að skuldbreyting hans yrði felld niður án frekari fyrirvara yrði ekkert aðhafst í málinu. Í framhaldi var kæranda greint frá því með bréfi tollstjóra, dags. 27. febrúar 2012, að þar sem ekki hafi verið brugðist við fyrrnefndri áskorun þá hefði heimild hans til greiðsluuppgjörs verið felld niður.

Með bréfi, dags. 12. maí 2012, var ákvörðun tollstjóra um að fella niður heimild til greiðsluuppgjör kæranda kærð til ráðuneytisins. Af kærunni má greina að útbúið hafi verið skuldabréf í samræmi við skulbreytingarferlið sem komst ekki áleiðis til tollstjóra sökum anna hjá forsvarsmanni kæranda. Var síðan farið fram á að kærandi fengi tækifæri til að standa skil á skuld sinni til ríkissjóðs í samræmi við upphaflegan ákvörðun tollstjóra, dags. 23. mars 2011, um heimild kæranda til greiðsluuppgjörs.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn tollstjóra með bréfi, dags. 16. maí 2012, um ákvörðun hans að fella niður heimild kæranda til greiðsluuppgjörs samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Í umsögn tollstjóra kom fram að lög nr. 24/2010 gerðu ráð fyrir tvískiptu ferli. Í fyrsta lagi hafi verið gert ráð fyrir að veittur væri greiðslufrestur til 1. júlí 2011 og á þeim gjöldum sem undir greiðsluuppgjör féllu. Í öðru lagi var gjöldunum sem féllu undir greiðsluuppgjör skuldbreytt með útgáfu skuldabréfs eftir 1. júlí 2011 uppfyllti umsækjandi skilyrði 5. gr. laga nr. 24/2010. Jafnframt var rakið í umsögninni að tollstjóri hafi ekki getað útbúið skuldabréf kæranda í samræmi við nefnda 5. gr. fyrr en í desember 2011 þar sem ekki hafi verið búið að leiðrétta skattáætlanir kæranda þrátt fyrir að honum hafi verið skylt að fá skattáætlanir leiðréttar fyrir 1. júlí 2011, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2010. Þá sagði ennfremur að lög nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, fælu í sér heimild til skuldbreytingar vanskila á opinberum gjöldum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum kæmi fram að umsækjanda bæri að láta stimpla skuldabréfið og skila til tollstjóra til að gjöldum væri skuldbreytt í samræmi við 5. gr. fyrrgreindra laga. Óumdeilt væri að kærandi hafi ekki orðið við því innan þeirra tímamarka er honum var gefið og yrði hann því að sæta afleiðingum þeirrar vanrækslu. Heimild kæranda til greiðsluuppgjörs hafi verið felld úr gildi rúmum tveimur mánuðum eftir að skuldabréfið hafi verið útbúið og mánuði eftir að kærandi sótti bréfið til tollstjóra og hafi kærandi þannig haft næg tækifæri til að leiða skuldbreytingarferlið til lykta. Þá kom einnig fram í umsögn tollstjóra að öllum greiðsluuppgjörsmálum hafi verið lokað í mars 2012 og til að gæta jafnræðis taldi tollstjóri mikilvægt að ákvörðun um niðurfellingu heimildar til greiðsluuppgjörs yrði staðfest af ráðuneytinu.

Forsendur og niðurstaða
Með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, var lagt til að þeir lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri, sem væru í vanskilum með tiltekin opinber gjöld sem hafi gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010, gætu sótt um frest á greiðslu vanskila til 1. júlí 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í frumvarpinu kom fram að innheimtumönnum ríkissjóðs var veitt heimild til að beita ívilnandi innheimtuúrræðum gagnvart rekstraraðilum sem ekki höfðu staðið skil á sköttum sem þeim bar að greiða, hvort heldur sem var að ræða vörsluskatta eða skatta vegna viðkomandi atvinnureksturs. Þá kom einnig fram að fyrst og fremst væri um að ræða rekstraraðila sem ættu í tímabundnum greiðsluvandræðum og væri gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum án frekari viðurlaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stæðist viðkomandi aðili umrædd skilyrði þá ættu vanskilin að vera sett á skuldabréf til fimm ára með verðbótum en án vaxta. Tilgangurinn væri þannig að hjálpa lífvænlegum fyrirtækjum yfir versta hjallann eftir efnahagshrunið haustið 2008 og þar með reynt að tryggja þeim ákveðið rekstraröryggi næstu mánuði.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2010 kemur fram að hafi umsækjandi greiðsluuppgjörs ekki fengið álagningar byggðar á áætlunum leiðréttar fyrir 1. júlí 2011 þá sé ekki heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfs samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga og dráttarvextir leggist þar af leiðandi á vanskil líkt og heimild til greiðsluuppgjörs hefði ekki verið veitt. Þá segir í athugasemdum með 5. gr. að hafa verði í huga að um víðtæka ívilnun sé að ræða og miklir hagsmunir í húfi bæði fyrir umsækjanda og ríkissjóð. Því sé eðlilegt að gera strangar kröfur til umsækjenda um að þeir sýndu í verki ábyrgð í atvinnurekstri og uppfylli lagaboð um skýrsluskil.

Óumdeilt er að kærandi varð ekki við áskorun tollstjóra um að leiða skuldbreytingarferlið til lykta innan tveggja vikna frá því að skrifleg áskorun barst honum með ábyrgðarbréfi, dags. 24. janúar 2012, þó svo að með bréfinu hafi fylgt leiðbeiningar um stimplun og frágang og áréttað var að skila þyrfti bréfinu til tollstjóra innan tveggja vikna. Þá er óumdeilt að kæranda bar skylda sem útgefanda skuldabréfsins að skila bréfinu fullbúnu til tollstjóra, sbr. meðal annars athugasemdir með 5. gr. laga nr. 24/2010. Þá verður sérstaklega að hafa í huga að um ívilnandi úrræði var að ræða og því ríkari skylda lögð á umsækjendur til frestunar greiðsluuppgjörs en ella. Ljóst er að kærandi varð ekki við þessari skyldu og telur ráðuneytið því að staðfesta beri ákvörðun tollstjóra, dags. 27. febrúar 2012.


Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 27. febrúar 2012, um að fella niður heimild kæranda til greiðsluuppgjörs, sbr. 5. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta