Lög um breytingar á frestum sem gilda í aðdraganda kosninga
Alþingi samþykkti í dag frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Með frumvarpinu er bætt inn í lögin ákvæði til bráðabirgða um breytingar á ýmsum frestum sem gilda í aðdraganda kosninga, með hliðsjón af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að kosið verði til Alþingis 25. apríl nk.
Við kosningarnar í vor gildir því eftirfarandi:
- viðmiðunardagur staðfestrar kjörskrár er styttur úr fimm vikum fyrir kjördag í fjórar vikur og er því 28. mars;
- kjörskrá skal leggja fram almenningi til sýnis átta dögum fyrir kjördag í stað tíu daga, eða hinn 17. apríl;
- landskjörstjórn skal birta auglýsingu um mörk kjördæmanna í Reykjavík eigi síðar en þremur vikum fyrir kjördag í stað fjögurra vikna, eða 4. apríl.
- frestur til að tilkynna framboð er til kl. 12 á hádegi 14. apríl, 11 dögum fyrir kjördag í stað 15 daga;
- auglýsingar á framboðum skulu birtast eigi síðar en 20. apríl, fimm dögum fyrir kjördag í stað tíu daga.
Þá eru gerðar nokkrar aðrar minni háttar breytingar á kosningalögunum sem miða að því að skýra ýmis atriði eða lagfæra. Einnig er uppfærður listi yfir sveitarfélög landsins í samræmi við breytingar sem orðið hafa vegna sameiningar sveitarfélaga eða breytinga á heitum þeirra.
Sjá einnig kosningavef ráðuneytisins, www.kosning.is.