Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 60/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 60/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120038

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi, aðallega á grundvelli sérstakra tengsla skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, en til vara á grundvelli sérstakra ástæðna skv. sama ákvæði. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi lagði upphaflega fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 23. nóvember 2021. Hinn 23. júní 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. mars 2022, um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur af stoðdeild ríkislögreglustjóra til Grikklands 10. október 2022. Hinn 13. október 2022 kom kærandi aftur til landsins og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd að nýju. Við meðferð fyrri umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 10. janúar 2022, kom fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd 29. nóvember 2019 og að hann væri með dvalarleyfi þar í landi með gildistíma til 1. desember 2022. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 24. október 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 22. nóvember 2022 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 24. nóvember 2022 og kærði kærandi ákvörðunina 9. desember 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 23. desember 2022 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn 12. janúar 2023.

Samkvæmt gögnum málsins hafa meint systir kæranda (hér eftir A) og barn hennar (hér eftir B), hlotið viðbótarvernd hér á landi samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og fengið útgefið dvalarleyfi samkvæmt 73. gr. laga um útlendinga til fjögurra ára.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað málsatvik varðar. Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. að Útlendingastofnun hafi ekki kannað afstöðu barnsins B til stöðu kæranda né tekið afstöðu til réttinda barnsins. Útlendingastofnun beri lagaleg skylda til að byggja ákvörðun í málinu m.a. á réttindum B, enda sé ljóst að ákvörðunin hafi mikil og bein áhrif á hana. Í því samhengi vísar kærandi til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, auk 3. mgr. 1. gr. barnalaga, sbr. 12. gr. samningsins.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingur hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd. Lög og reglugerð um útlendinga séu annars óskýr um það hvernig hugtakið sérstök tengsl skuli túlkað. Kærandi telur skýrt að sérstök tengsl geti verið til staðar jafnvel þó að ekki sé um fjölskyldutengsl að ræða, enda komi fram í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga að sérstök tengsl geti átt við þegar um sé að ræða ættingja. Kærandi vísar þó til þess að líkt og hann byggi á í greinargerð til Útlendingastofnunar, séu sannarlega um fjölskyldutengsl að ræða. Líti kærunefnd hins vegar á að svo sé ekki, telji kærandi óumdeilanlegt að fyrir hendi séu mikil, rík og sérstök tengsl kæranda við A og B og vísar til þess að sérstök tengsl geti átt við í öðrum tilfellum, þar sem tengsl séu ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Í 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, komi jafnframt fram að Útlendingastofnun sé heimilt að líta til tengsla á grundvelli fyrri dvalar hafi umsækjandi áður verið með útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur. Ljóst sé, verði ekki talið að um fjölskyldutengsl sé að ræða, að fyrri dvöl samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga sem og reglugerð um útlendinga, séu sett fram í dæmaskyni, þ.e. dæmi um tengsl sem horfa megi til. Lykilatriðið, sem horfa beri til, séu sjálf tengslin. Mælikvarðinn snúist um hvort tengslin séu ríkari en við viðtökuland og fjölskyldutengsl og fyrri dvöl séu sett fram í dæmaskyni. Ekkert bendi til þess að um sé að ræða tæmandi talningu atriða sem metin séu til tengsla.

Kærandi gerir athugasemd við að í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þess að þar sem Útlendingastofnun telji ekki hafa verið sýnt fram á skyldleika, sé þegar af þeirri ástæðu ljóst að sérstök tengsl eigi ekki við í málinu. Með vísan til lögskýringarsjónarmiða sé óhætt að fullyrða að túlkun Útlendingastofnunar á hugtakinu sérstök tengsl sé í engum takti við það sem afmarka megi af eðlilegum lestri laganna með hliðsjón af athugasemdum í frumvarpi og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga.

Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað tengsl hans við A og B varði, þau hafi trúarlega, lagalega og félagslega þýðingu fyrir kæranda. Kærandi hafi lagt fram frumrit skjals frá dómi í Palestínu sem sýni fram á lagaleg og trúarleg systkinatengsl milli kæranda og A og þ.a.l. einnig við B. Þegar ákvörðun Útlendingastofnunar barst í máli kæranda, hafi komið í ljós að stofnunin hafi látið arabískumælandi starfsmann stofnunarinnar lesa skjalið yfir. Umræddur starfsmaður hafi staðfest að skjalið staðfesti ekki blóðtengsl kæranda við A og B og þar af leiðandi hafi ekki verið talin ástæða til að þýða skjalið eða kanna áreiðanleika þess. Kærandi gerir athugasemd við vinnulag Útlendingastofnunar að þessu leyti og telur það með ólíkindum að stofnunin horfi framhjá þýðingu skjalsins á grundvelli skorts á blóðtengslum, þegar ekkert í lögum um útlendinga eða reglugerð um útlendinga geri blóðtengsl að skilyrði þess að sérstök tengsl eigi við í máli. Útlendingastofnun vísi jafnframt til skjalsins í hinni kærðu ákvörðun, þrátt fyrir að hafa tilkynnt talsmanni kæranda að ekki hafi verið ástæða til að láta þýða skjalið eða kanna áreiðanleika þess. Umfjöllun Útlendingastofnunar um þetta atriði byggi ekki á lagaskilyrðum, heldur sé um að ræða þrönga túlkun sem byggi einungis á tilvísun til orðabókar á hugtakinu systkini. Ljóst sé að önnur fjölskyldumynstur njóti réttarverndar hér á landi sem myndu falla utan þröngrar lögskýringar Útlendingastofnunar og megi í því sambandi nefna fjölskyldur sem tengist á grundvelli stjúp- eða fósturtengsla eða tengsl sem stofnist fyrir tilstilli ættleiðingar. Þar sem lög um útlendinga geri blóðskyldleika ekki að skilyrði sé eðlilegt að skyldleiki í víðtækari skilningi verði talin til ættartengsla sem geti talist til sérstakra tengsla. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til viðmiða sem flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telji rétt að horfa til við fjölskyldusameiningu. Borðleggjandi sé að þau viðmið komi til skýringar á óskýru ákvæði laga um útlendinga um sérstök tengsl. Telja megi fjölskyldutengsl kæranda við A og B vera einhverskonar ígildi fóstur- stjúp- eða ættleiðingartengsla. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafni því alfarið að horfa til þess að um sé að ræða tengsl sem hafi sannarlega lagaleg áhrif á réttarstöðu þeirra í heimaríki. Útlendingastofnun byggi ekki á reglum eða viðmiðum í þessu sambandi heldur byggi á að þessi lagalegu tengsl þeirra verði ekki að einu lögð til grundvallar hér á landi.

Kærandi gerir jafnframt athugasemd við að hin kærða ákvörðun sé m.a. byggð á því að umsóknir A og B séu enn til meðferðar hjá stofnuninni og þ.a.l. hafi þær ekki verið taldar vera með fasta búsetu hér á landi. Stofnunin byggi á þessu sjónarmiði þrátt fyrir að A og B hafi verið birt ákvörðun sama dag og hin kærða ákvörðun. Hin kærða ákvörðun byggi því á röngum forsendum. Þá sé enginn vafi um þá staðreynd að ríkisborgarar Palestínu sem fái efnismeðferð hér á landi, hljóti allir viðbótarvernd hér á landi. Framangreind athugasemd beinist að vinnubrögðum Útlendingastofnunar en hafi þó ekki efnislega þýðingu fyrir stöðu málsins, enda hafi þær hlotið viðbótarvernd hér á landi.

Kærandi gerir athugasemd við að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki einu orði eytt í raunveruleg tengsl kæranda við A og B. Stofnuninni hafi með framangreindum vinnubrögðum horft framhjá mikilvægum málsástæðum kæranda í málinu. Kærandi vísar til viðtals sem talsmaður kæranda hafi tekið við kæranda, A og B, þar sem m.a. komi fram ítarlegar lýsingar á trúarlegum, lagalegum og félagslegum tengslum þeirra, m.a. um að kærandi og A líti á sig eins og systkini. Þau hafi átt í miklum samskiptum, flúið saman frá heimaríki og verið saman alveg frá því. Þá hafi kærandi haft mikil tengsl við B allt frá fæðingu. Kærandi gegni daglegu hlutverki gagnvart B. Kærandi vísar jafnframt til skjals frá deildarstjóra í grunnskóla B, sem staðfesti sannleiksgildi um hlutverk kæranda í lífi B. Kærandi vísar til þess að nægjanleg sönnun sé komin fram um tengsl kæranda við A og B, til að byggt verði einungis á þeim tengslum, óháð því hvort fallist verið á að þau teljist til ættingja og að skilyrði um sérstök tengsl sé sannarlega uppfyllt. Kærandi ítrekar að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki minnst á réttindi barnsins B og hugsanleg áhrif neikvæðrar ákvörðunar á réttindi hennar. Þá sé enga umfjöllun að finna um réttmæti þess að aðskilja fjölskylduna eða hvort skilyrði 8. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga gæti átt við í málinu.

Í greinargerð vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í endurupptökumáli kæranda, nr. 452/2022 frá 3. nóvember 2022, þar sem vísað hafi verið til þess að mál A og B væru enn óljós. A og B hafi nú fengið vernd hér á landi og því sé það skilyrði kærunefndar uppfyllt. Þá hafi komið fram í úrskurði kærunefndar að engin gögn hafi verið lögð fram um skyldleika þeirra á milli. Kærandi hafi nú lagt fram gögn frá dómstóli í Palestínu sem mæli fyrir um skyldleika þeirra og uppfylli því skilyrði kærunefndar hvað það varði. Þá hafi verið nefnt í úrskurðinum að engin gögn hafi verið lögð fram um að kærandi hafi gengið B í föðurstað. Kærandi vísar til umfjöllunar í greinargerð og gagna málsins sem séu til þess fallin að sýna fram á að kærandi hafi gengið B í föðurstað. Þá vísar kærandi til þess að fram hafi komið í úrskurði kærunefndar að beiðni kæranda um endurupptöku hafi ekki verið andstæð hagsmunum B. Kærandi vísar til þess sem rakið hafi verið um tengsl kæranda og B, sem hafi ekki legið fyrir þegar úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp, og framlagðra gagna um að fyrri frávísun kæranda hafi sannarlega haft afar mikil og neikvæð áhrif á B. Kærunefnd geti ekki dulist að staðfesting á ákvörðun Útlendingastofnunar sé augljóslega andstæð hagsmunum barnsins. Kærandi vísar jafnframt til þess að gögn málsins sýni fram á að B sé til jafns í umsjá kæranda og A. Af framangreindu sé ljóst að þau sjónarmið sem kærunefnd útlendingamála hafi vísað til í úrskurði sínum varðandi endurupptökubeiðni kæranda, leiði öll til þess að sérstök tengsl verði talin vera fyrir hendi í máli kæranda.

Þá byggir kærandi á því að hann uppfylli skilyrði til þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sem og á grundvelli reglunnar um bann við endursendingum eða non-refoulment, skv. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi vísar kærandi til fyrri greinargerða sinna til Útlendingastofnunar og kærunefndar, þar sem m.a. hafi verið fjallað um aðgerðir lögreglu þegar kærandi hafi verið handtekinn í tengslum við frávísun hans frá Íslandi. Meðferð lögreglu hafi falið í sér alvarlegt brot, bæði ofbeldisbrot og annars konar.

Að lokum krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun, á þeim grundvelli að hún hafi verið illa ígrunduð og óforsvaranlega unnin. Kærandi vísar til þeirra fjölmörgu athugasemda sem hann hafi gert við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar og telur að hún feli í sér brot gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Auk þess hafi ekki verið gætt að andmælarétti í tengslum við framlagt skjal. Ákvörðun Útlendingastofnunar byggi á ómálefnalegum vinnubrögðum þar sem m.a. hafi verið komist að ákvörðun í málinu áður en niðurstaða lá fyrir í máli A og B, sem feli í sér brot á réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá fái krafa stofnunarinnar um að sýnt sé fram á blóðtengsl enga stoð í lögum eða öðrum réttarheimildum.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæður karlmaður á [...] sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi að öðru sinni. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur til Grikklands í október 2022, eftir að hann fékk synjun um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi komið aftur til landsins þremur dögum síðar, dags. 13. október 2022, og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd að nýju. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi komið til Grikklands um miðnætti og hafi dvalið í almenningsgarði. Kærandi hafi hitt konu sem hafi leyft kæranda að dvelja eina nótt hjá sér, fara í sturtu og hafi aðstoðað hann við að kaupa fatnað og flugmiða til Íslands. Hún hafi borgað fyrir hálft fargjald flugmiðans. Kærandi hafi ekki fengið aðstoð frá yfirvöldum þegar hann hafi komið til Grikklands. Kærandi hafi þó ekki óskað eftir aðstoð þá daga sem hann hafi dvalið í Grikklandi eftir að hann var fluttur. Kærandi greindi frá því að móðir A hafi gefið kæranda brjóst í æsku og að hann líti á hana sem systur sína. Þau geti ekki gengið í hjónaband vegna trúar þeirra. Þá greindi kærandi frá því að hann annist B og líti á hana sem dóttur sína. Kærandi hafi lagt fram skjal sem sýni fram á tengsl hans við A. Í viðtali hjá Útlendingastofnun vegna fyrri umsóknar hans greindi kærandi frá því að hann hafi almannatrygginga- og skattnúmer í Grikklandi. Hann hafi hins vegar ekki fengið atvinnu eða húsnæði þar í landi og framfærsla hafi verið takmörkuð. Þá hafi kærandi orðið fyrir fordómum og ofbeldi, m.a. þegar hann hafi verið stunginn með hníf í augað. Kærandi hafi farið í aðgerð á auga en fengið takmarkaða heilbrigðisþjónustu eftir það.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Kærandi byggir mál sitt m.a. á að taka skuli umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem hann hafi sérstök tengsl við landið. Sem fyrr segir hefur kærandi greint frá því að hann eigi systur og systurdóttur sem hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 24. október 2022, greindi kærandi frá því að móðir hans hafi verið veik þegar hann hafi verið ungur og móðir A hafi gefið honum brjóst. Kærandi hafi lagt fram vottorð frá dómstóli í heimaríki sínu, sem staðfesti að móðir A hafi gefið honum brjóst í æsku og að kærandi og A séu af þeim sökum systkini af trúarlegum ástæðum. Skyldleiki þeirra hafi jafnframt lagaleg áhrif í heimaríki þeirra og þau megi t.a.m. ekki ganga í hjónaband. Kærandi hefur lagt fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings, m.a. skjáskot af samskiptum kæranda við A og B, afrit skjals frá heimaríki kæranda sem sýni fram á skyldleika kæranda við A og B, myndir af kæranda, A og B, viðtal talsmanns kæranda við A og B og bréf frá deildarstjóra í grunnskóla B.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins hefur kærunefnd litið til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og lagt til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdir í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjenda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða. Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að það mælir fyrir um tengsl við landið en ekki aðeins tengsl við einstaklinga sem hér kunna að dvelja á einhverjum tíma. Kærunefnd telur ljóst að byggist málsástæða um sérstök tengsl við landið á tengslum við tiltekinn eða tiltekna einstaklinga þurfa þeir einstaklingar almennt að hafa heimild til dvalar hér á landi og að sú heimild þurfi að hafa tiltekinn varanleika. Af þessu leiðir að tengsl við einstakling sem byggir rétt sinn til dvalar á Íslandi á vegabréfsáritun eða tímabundnu dvalarleyfi myndu almennt ekki teljast þess eðlis að þau leiði til þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur að leggja skuli til grundvallar að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Kærunefnd telur að af framangreindu sé ljóst að meta þurfi einstaklingsbundnar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd m.t.t. fyrirliggjandi gagna við mat á því hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.

Enga tæmandi talningu er að finna í lögum eða lögskýringargögnum á því hvaða fjölskyldutengsl falli undir hugtakið sérstök tengsl samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur talið rétt að líta að einhverju leyti til 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þar sem segir að til nánustu aðstandanda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára aldri. Þó önnur fjölskyldutengsl geti fallið undir 2. mgr. 36. gr. laga um sérstök tengsl, telur kærunefnd að gera þurfi ríkari kröfur til þess að sýnt sé fram á að þau tengsl séu sérstök og rík.

Líkt og fram hefur komið byggir kærandi á því að móðir A sé svokölluð mjólkurmóðir hans og að kærandi og A séu systkini í trúar- og lagalegum skilningi í heimaríki þeirra. Kærunefnd telur að jafnvel þó tengsl kæranda og A falli ekki undir 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, beri að meta málið heildstætt og leggja mat á þau gögn sem liggja fyrir. Kærandi hefur borið því við að samgangur hafi verið á milli fjölskyldna hans og A í heimaríki þeirra. Þá hafi þau dvalið saman allt frá því þau flúðu heimaríki sitt árið 2018. Á meðal gagna málsins er viðtal, sem kærandi kveður að talsmaður hans hafi tekið við hann, A og B um tengsl þeirra. Þar kemur m.a. fram að kærandi og A líti á hvort annað sem systkini og hafi verið saman alveg frá því þau flúðu heimaríki sitt. Þá hafi A greint frá því að kærandi sjái um heimilishald þeirra, m.a. um innkaup, fari með B til læknis og skutli henni í og úr skóla. Hann hafi sinnt því hlutverki frá því þau yfirgáfu heimaríki. Þá kemur fram að B líti á kæranda sem föður sinn. Meðal gagna málsins er jafnframt bréf frá deildarstjóra í grunnskóla B. Þar kemur m.a. fram að B hafi hafið nám í skólanum 7. september 2022. Á fundi sem haldinn hafi verið í upphafi námsins hafi A greint frá því að skólinn gæti haft samband við kæranda, rétt eins og hana ef eitthvað kæmi upp í skólanum hjá B. Móðir B hafi upphaflega sótt hana í skólann en fljótlega hafi kærandi séð um það og það hafi alltaf verið fagnaðarfundir þegar þau hittust. Kennurum B hafi fljótt verið ljóst að kærandi væri mikilvægur einstaklingur í lífi B. Þegar B hafi verið beðin um að teikna fjölskyldumynd hafi hún teiknað mynd af kæranda, A og B. Þá kemur fram að B hafi ekki mætt í skólann í nokkra daga eftir að kærandi hafi verið fluttur úr landi. Þegar hún hafi snúið aftur í skólann hafi hún verið döpur og hrædd. Þegar kærandi hafi komið aftur til landsins hafi B farið að líkjast sjálfri sér á ný. Þá kemur fram að kærandi sjái um að sækja B, m.a. í þau skipti sem hún hefur orðið veik. Í lögregluskýrslu, dags. 10. október 2022, sem kærandi hefur lagt fram og varðar handtöku hans vegna flutnings frá landinu kemur m.a. fram að B hafi verið í fangi kæranda og grátið. Þá liggja fyrir skjáskot af samskiptum kæranda við A og B og myndir af þeim við ýmis tilefni. Kærandi hefur jafnframt lagt fram fræðigrein um mjólkurskyldleika í íslamstrú.

Í úrskurðarframkvæmd kærunefndar útlendingamála hefur m.a. verið litið til þess, við mat á sérstökum tengslum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hvort um sé að ræða einstaklinga sem séu hvor öðrum háðir. Þá hefur verið litið til þess að túlka verði ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl þannig að það nái til atvika þar sem að yrði talið ósanngjarnt gagnvart kæranda eða ættingjum hans að endursenda hann til annars ríkis. Kærunefnd telur að gögn málsins gefi til kynna að tengsl kæranda við A og B séu sterk, þau séu hvort öðru háð og að kærandi gegni m.a. umönnunarhlutverki gagnvart B. Í úrskurðum kærunefndar útlendingamála í málum kæranda, A og B, nr. 199/2022 og 200/2022 frá 23. júní 2022, var það m.a. forsenda fyrir niðurstöðu kærunefndar um að synja þeim um efnismeðferð hér á landi að þau nytu stuðnings hvers annars í viðtökuríki. Kærunefnd telur, með hliðsjón af heildarmati í máli kæranda, einkum sterkra tengsla hans við barnið B, þess að þau hafi dvalið saman a.m.k. frá árinu 2018 og annarra ganga málsins, að tengsl kæranda við A og B séu sérstök í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðarframkvæmd kærunefndar hefur verið litið svo á að einstaklingar með alþjóðlega vernd í ríki innan EES-svæðisins geti nýtt rétt sinn til komu og tímabundinnar dvalar hér á landi á grundvelli 20. gr. laga um útlendinga og ræktað tengsl við skyldmenni sín hér landi. Aukin áhersla hefur verið lögð á tengsl í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í þeim tilvikum. Í ljósi gagna málsins, m.a. um að kærandi deili heimili með A og B og þau séu þátttakendur í daglegu lífi hvers annars, telur kærunefnd, eins og hér háttar sérstaklega á að það væri ósanngjarnt gagnvart kæranda, A og B, ef kærandi væri endursendur til viðtökuríkis. Þá er sérstaklega litið til hagsmuna barnsins skv. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. laga um útlendinga. Kærunefnd telur í ljósi heildarmats á aðstæðum kæranda, eins og hér stendur sérstaklega á, að kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda og athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Gunnar Páll Baldvinsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta