Menntaþing 2024
Mennta- og barnamálaráðuneytið boðar til Menntaþings mánudaginn 30. september kl. 9:00–16:00 á Hilton Reykjavík Nordica og í streymi. Á þinginu verður rætt um stöðu menntakerfisins, yfirstandandi breytingar og næstu skref í menntaumbótum með kynningu á fyrirhugaðri 2. aðgerðaáætlun í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Niðurstöður samtalsins verða nýttar við endanlega mótun áætlunarinnar.
Að Menntaþinginu standa Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Heimili og skóli, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, auk ráðuneytisins.
Nýjustu upplýsingar benda til þess að náms- og félagslegri stöðu íslenskra barna hafi hrakað síðustu ár. Þetta sýna niðurstöður PISA sem og aðrar rannsóknir.
Vegna þess og ýmissa samfélagslegra breytinga og áskorana, hafa íslensk stjórnvöld ráðist í viðamiklar breytingar á menntakerfinu á undanförnum árum. Þær snúa m.a. að auknum stuðningi við kennara og skóla, aukinni skólaþróun, endurskoðun útgáfu námsgagna, bættri yfirsýn og tölfræði yfir nemendur og móttöku barna af erlendum uppruna með nýja stofnun á sviði menntamála, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, í broddi fylkingar.
Verkefnið er hins vegar viðamikið og flókið og hvergi nærri lokið. Afar mikilvægt er að bregðast af krafti við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í íslensku skólakerfi sem og nýta þau tækifæri, mannauð og nýsköpun sem þar er að finna. Menntun er málefni alls samfélagsins enda ein mikilvægasta stoð farsældar einstaklinga. Það er fagnaðarefni að finna fyrir áhuga íslensks samfélags er þetta varðar.
Markmiðið með fundinum er að eiga markvissa gagnvirka umræðu um stöðu skólakerfisins hér á landi. Þegar eru yfirstandandi aðgerðir fyrstu aðgerðaráætlunar menntastefnu. Þá eru fyrirhugaðar yfirgripsmiklar aðgerðir með skólasamfélaginu og öðrum hlutaðeigandi sem mikilvægt er að ræða og hvað fleira þurfi að koma til svo mæta megi sem best þörfum nemenda og kennara sem og samfélagsins til framtíðar.
Drög að 2. aðgerðaráætlun fyrir árin 2024–2027 í innleiðingu menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030, sem mennta- og barnamálaráðuneytið hefur unnið að undanfarin misseri í samstarfi við hagaðila, verða kynnt á þinginu. Markmið aðgerða er að mæta sérstaklega þeim áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir og sjást m.a. í niðurstöðum PISA, auk annarra rannsókna. Niðurstöður samtalsins verðar teknar með í vinnuna við endanlega útfærslu á fyrirhuguðum aðgerðum.
Þingið verður í þremur hlutum:
- Hver er staðan?
- Hvað er verið að gera?
- Hver eru næstu skref?
Nánari dagskrá verður kynnt síðar. Fyrir fundinn munu skráðir þátttakendur fá upplýsingar um stöðu menntakerfisins, m.a. helstu áskoranir, tölfræði og yfirlit yfir stöðu umbóta, sem þeir geta kynnt sér.
Menntaþing er opið öllum áhugasömum og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Skráningarfrestur er til og með 25. september.
Verkefnið er brýnt, á valdi margra aðila og ekki leyst nema með samstöðu samfélagsins alls, kennara og starfsfólks skóla, foreldra, nemenda og annarra. Mennta- og barnamálaráðuneytið kallar því eftir þátttöku sem flestra í umræðu, mótun og útfærslu aðgerða.