Drög að breyttri reglugerð um skírteini til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, nr. 400/2008. Þeir sem þess óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] til 16. janúar 2012.
Með reglugerð um breytingu á reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, nr. 400/2008 er brugðist við athugasemdum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar vegna úttektar hér á landi í október 2010 og gerðar breytingar á ákvæðum reglugerðarinnar um skilyrði fyrir fluglækna og bætt við ákvæðum um viðurkenningu á fyrirtækjum eða einstaklingum sem annast mat á tungumálakunnáttu fyrir hönd Flugmálastjórnar.
Í skýrslu sem gefin var út í kjölfar úttektar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar er gerð athugasemd við það að hvergi í lögum né reglugerðum sé að finna skilyrði fyrir skipun fluglækna né mælt fyrir um kröfur til fluglækna sem gefa út 3. flokks heilbrigðisvottorð. Til að bæta úr þessu er lögð til breyting á grein 1.2.4.4.1 reglugerðarinnar.
Í skýrslunni voru einnig gerðar athugasemdir við það að hvergi í lögum og reglum væri að finna lágmarkskröfur eða skilyrði um viðurkenningu á fyrirtækjum eða einstaklingum sem annast mat á tungumálakunnáttu fyrir hönd Flugmálastjórnar. Til að bæta úr þessu er lagt til að nýjum kafla verði bætt við reglugerðina þar sem tilgreindar eru kröfur til þeirra aðila sem annast mat á tungumálakunnáttu fyrir hönd Flugmálastjórnar Íslands. Efni hins nýja kafla er að stórum hluta byggt á leiðbeiningarefni Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA). Hinn nýi kafli verður númer VIII og breytast númer kafla og greina sem á eftir koma til samræmis við það.