Hoppa yfir valmynd
5. október 2017 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hæfnissetur ferðaþjónustunnar stóreflt

Sveinn Aðalsteinsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og María Guðmundsdóttir alsæl með áfangann - mynd

Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, undirritaði í dag þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) um að hýsa verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur til rúmlega 50 m.kr. á ári til verkefnisins næstu þrjú árin frá og með 2018. Markmið verkefnisins er að auka gæði og hæfni í ferðaþjónustu, einkum framlínustarfsmanna og millistjórnenda. Í því samhengi verður sérstaklega horft að fræðslu sem aðlöguð er starfsmönnum fyrirtækja í ferðaþjónustu og fer fræðslan fram inni í fyrirtækjunum eins og kostur er.

Verkefnið hófst með sérstöku framlagi ráðuneytisins í janúar sl. og hefur verið unnið ötullega að verkefninu síðan af hálfu starfsmanna Hæfnisetursins. Fundað hefur verið með fræðsluaðilum, fyrirtækjum og stofnunum og tilraunaverkefni er farið af stað með þátttöku fræðsluaðila sem sjá um framkvæmd fræðslunnar. Verkefnið er unnið á grundvelli skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála sem stjórnvöld og Samtök ferðaþjónustunnar ýttu úr vör um hæfni í ferðaþjónustu en skýrslan kom út á síðasta ári. Markmiðið er að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu sem og starfsánægju og fagmennsku starfsmanna í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það verður gert m.a. með hæfnigreiningum starfa, þróun raunfærnimats og námskeiða, þrepaskiptu starfsnámi, rafrænni fræðslu ásamt fræðslu innan fyrirtækja. Hæfnisetrið býður þessi verkfæri til afnota fyrir fræðsluaðila og fyrirtæki og er markmiðið að ná til sem flestra starfsmanna í ferðaþjónustu. Jafnframt verður lögð áhersla á að mæla árangur fræðslu í t.d. starfsmannaveltu, framlegð o.fl. rekstrarþáttum fyrirtækja.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála: „Gæði eru lykilatriði í ferðaþjónustunni og ég er sannfærð um að Hæfnissetrið mun leggja þungt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum. Þetta er því gleðidagur fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein okkar.“

María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stýrihóps Hæfnisetursins: „Ör vöxtur í ferðaþjónustu kallar á markvissar og um leið hraðar úrbætur í fræðslumálum. Það er því sérlega ánægjulegt að með samningi þessum sé starfsemi  Hæfnisetursins fest í sessi til næstu þriggja ára.“

  • Vefur Hæfnisseturs ferðajónustunnar er haefni.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta