Umsóknarferlivegna verkefnisins Ísland ljóstengt 2017 hafið
Fjarskiptasjóður auglýsir nú umsóknarferli vegna verkefnisins Ísland ljóstengt sem er landsátak stjórnvalda í uppbyggingu ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða í dreifbýli. Verkefnið hófst formlega síðastliðið vor með 450 milljón króna styrkveitingu fjarskiptasjóðs til 14 sveitarfélaga sem hlutskörpust urðu í samkeppni um þann styrk. Önnur fjármögnun kemur frá þeim sem tengjast, sveitarfélögunum sjálfum og fjarskiptafyrirtækjum eftir atvikum.
Mikil áhersla er lögð á hagkvæma samlegð með öðrum mögulegum veituframkvæmdum og nýtingu fyrirliggjandi innviða. Ríkisstyrkt uppbygging sveitarfélaga 2016 náði til um 1.000 heimila og fyrirtækja víða um land. Markmiðið er að 99,9% lögheimila og fyrirtækja eigi kost á a.m.k. 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020. Eftir er að leggja ljósleiðara til um 3.000 bygginga til að ná því markmiði. Ljósleiðaravæðing utan þéttbýlis stuðlar jafnframt að uppfærslu stofnkerfa fjarskipta á landsvísu og er forsenda meiri áreiðanleika, útbreiðslu og gagnaflutningshraða allra farneta utan þéttbýlis.
Úthlutunarfyrirkomulag er með svipuðu sniði og áður. Sveitarfélögum býðst að sækja um styrk úr 450 milljóna króna heildarpotti fjarskiptasjóðs vegna Ísland ljóstengt. Skilmálar og umsóknarfyrirkomulag hafa tekið breytingum með hliðsjón af fenginni reynslu og framvindu verkefnisins. Stefnt er að undirritun styrktarsamninga vegna Ísland ljóstengt 2017 í febrúar næstkomandi.