Drög að breytingu á reglugerð um för yfir landamæri til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að breytingu á reglugerð um för yfir landamæri, nr. 1212/2007. Snýst breytingin um samræmingu á reglum um tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum Schengen-svæðisins við sérstakar aðstæður og ítarlegri málsmeðferðarreglur þar að lútandi.
Breytingarnar miða að því að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins nr. 1051/2013. Þær snúa m.a. að heimild ráðsins, að fenginni tillögu frá framkvæmdastjórn ESB, til að gefa út tilmæli um að tímabundið verði tekið upp eftirlit á innri landamærum Schengen-ríkis í allt að 6 mánuði. Þeirri heimild er þó einungis hægt að beita sem síðasta úrræði og þá í kjölfar úttekta sem leitt hafa í ljós alvarlega veikleika á landamærastjórn ríkisins, sem það hefur ekki bætt úr þrátt fyrir ábendingar þar um og eru þannig viðvarandi, alvarlegar og ógna almannareglu og öryggi svæðisins í heild. Framangreindar reglur breyta ekki heimild einstakra ríkja til þess að ákveða að taka upp tímabundið eftirlit á landamærum svo sem verið hefur.