Hoppa yfir valmynd
3. desember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Vilja auka samstarf Grænlendinga og Íslendinga

Ráðherrarnir
Fundur ráðherranna og embættismanna ráðuneytanna var í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu

Heilbrigðisráðherrar Íslands og Grænlands lýstu báðar miklum áhuga á að efla samstarf þjóðanna á sviði heilbrigðisþjónustu á fundi sínum í dag.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, tók á móti starfssystur sinni, Agathe Fontain, heilbrigðisráðherra Grænlands, í heilbrigðisráðuneytinu í morgun. Með grænlenska ráðherranum í för er ráðuneytisstjóri grænlenska heilbrigðisráðuneytisins og embættismenn. Markmið heimsóknarinnar er að fara yfir gildandi samning þjóðanna um samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu og kanna hvort forsendur og vilji er til þess að auka samstarfið og gera það markvissara. Kynnti grænlenski ráðherra Álfheiði Ingadóttur ma. umræður sem sprottið hafa í Grænlandi um að semja við Íslendinga um tilteknar læknisaðgerðir til að ná niður biðlistum þar í landi.

Grænlenska sendinefndin hittir fulltrúa Landspítala á fundi í dag þar sem farið verður yfir möguleikana á nánara samstarfi í heilbrigðisþjónustunni og á morgun halda Grænlendingarnir til Akureyrar þar sem sams konar viðræður verða við forsvarsmenn sjúkrahússins. Þar verður fulltrúum grænlensku Landstjórnarinnar kynnt fyrirkomulag sjúkraflutninga á Íslandi og rædd samskiptin við Grænland ma. á því sviði. „Ég lít á það sjálfsagt mál að láta fara fram alvöru úttekt á því hvaða möguleikar eru á samstarfi þjóðanna á vettvangi heilbrigðisþjónustunnar. Grænland er ásamt Færeyjum næstu nágrannar okkar og fullkomlega eðlilegt að þjóðirnar kanni samstarfsmöguleikana sem gætu verið á heilbrigðissviði“ segir Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra. Agathe Fontain, starfssystir Álfheiðar, tók í sama streng.

Frá fundi ráðherranna og embættismanna

Frá fundi heilbrigðisráðherranna


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta