Þjóðin notar minnst þjóða sykursýkislyf, mest af þunglyndislyfjum
Þunglyndislyf nota Íslendingar meira en aðrar þjóðir innan OECD, en sykurýskislyfjanotkun er hér hvað minnst borið saman við aðrar þjóðir OECD. Þetta kemur fram í riti OECD, efnahags-og framfarastofnunarinnar í París, “Health at a Glance 2009, OECD indicators”sem birt hefur verið. Þar kemur fram að lífslíkur á Íslandi árið 2007 voru 81,2 ár, þær fimmtu hæstu innan OECD. Lífslíkur íslenskra kvenna voru 82,9 ár og karla 79,4 ár. Ungbarnadauði var næstlægstur á Íslandi af löndum OECD svaraði til tveggja látinna á fyrsta ári af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Meðaltalið í OECD var 3,9. Viðast hvar í OECD ríkjunum hefur dregið úr áfengisneyslu frá árinu 1980, en á Íslandi hefur áfengisneysla aukist um 74%. Áfengisneyslan hér var 7,5 alkóhóllítrar á mann 15 ára og eldri árið 2007. Meðaltalið í OECD var 9,7 lítrar.
Í fréttatilkynningu sem Hagstofan gaf út í tilefni OECD ritsins kemur fram að mannaafli er hér með besta móti í heilbrigðisþjónustunni. „Á Íslandi voru 3,7 læknar á 1.000 íbúa árið 2007 en meðaltal OECD var 3,1. Sambærilegt hlutfall var 3,9 í Noregi, 3,6 í Svíþjóð, 3,2 í Danmörku og 3,0 í Finnlandi. Konum hefur farið fjölgandi í læknastétt hér á landi sem víðar. Voru konur 29% lækna árið 2007 en hins vegar 40% lækna að meðaltali í ríkjum OECD. Hæst var hlutfallið 57% í Slóvakíu og 56% í Finnlandi en lægst í Japan, 17%. Samanlagður fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða var 14 á 1.000 íbúa á Íslandi árið 2007 eða svipað og í Danmörku en var að meðaltali 9,6 á 1.000 íbúa í ríkjum OECD.“
Í ritinu koma einnig fram athyglisverðar upplýsingar um útgjöld til heilbrigðismála: „Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 8,9% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2007, en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja. Í Bandaríkjunum var hlutfallið til dæmis 16,0% árið 2007 en 5,7% í Tyrklandi á því ári. Hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,3% af VLF árið 2007, samanborið við 9,1% árið 2006. Danir vörðu 9,8% af VLF til heilbrigðismála árið 2007, Svíar 9,1% og Norðmenn 8,9%, en Frakkar aftur á móti 11,0% og Svisslendingar 10,8%. Á þennan mælikvarða voru Íslendingar í 12. sæti OECD ríkjanna.
Meðalheilbrigðisútgjöld OECD ríkja á mann voru 2.984 bandaríkjadalir (USD) árið 2007 miðað við jafnvirðisgildi dollars (PPP). Í Bandaríkjunum mældust útgjöldin hins vegar hæst eða 7.290 USD á mann, en aftur lægst í Tyrklandi eða 618 USD. Á Íslandi námu útgjöldin 3.319 USD á mann 2007, í Noregi 4.763 USD, í Danmörku 3.512 USD og í Svíþjóð 3.323 USD. Á þennan mælikvarða var Ísland í 14. sæti næst á eftir Þýskalandi, Danmörku, Írlandi, Svíþjóð og Austurríki. Opinber útgjöld til heilbrigðismála á mann á Íslandi voru á sama tíma 2.739 USD miðað við jafnvirðisgildi og var Ísland í 10. sæti hvað þessi útgjöld varðar af aðildarríkjum OECD. Opinber útgjöld á mann voru hæst í Noregi 4.005 USD, þar á eftir í Lúxemborg (m.v. árið 2006) 3.782 USD og síðan komu Bandaríkin með 3.307 USD á mann. Lægst voru opinber heilbrigðisútgjöld mæld á þennan veg í Mexíkó eða 372 USD á mann.“
Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands
Nánari upplýsingar á vef OECD