Útgjöld til hugbúnaðargerðar og húgbúnaðarkaupa
Heildarútgjöld til heilbrigðismála á árinu 2006 voru um 130 milljarðar, og útgjöld tengd hugbúnaðargerð og hugbúnaðarkaupum námu þá um 0,5% af heildarútgjöldum ráðuneytisins.
Á árinu 2007 voru heildarútgjöld til heilbrigðismála um 145 milljarðar, og útgjöld tengd hugbúnaðargerð og hugbúnaðarkaupum námu þá um 0,5% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Á árinu 2008 voru heildarútgjöld til heilbrigðismála um 112 milljarðar, og útgjöld tengd hugbúnaðargerð og hugbúnaðarkaupum námu þá um 0,7% af heildarútgjöldum ráðuneytisins.
Heilbrigðisráðuneytið og allar stofnanir þess nota um 28% af heildarkostnaði ráðuneytanna (27% árið 2006, 29% árið 2007 og 28% árið 2008) vegna hugbúnaðargerðar og hugbúnaðarkaupa. Samtals notuðu stofnanir heilbrigðisráðuneytisins á þremur árum um 2,1 milljarð króna til málaflokksins. Upphæðin skýrist af því að hér er um að ræða allan kostnað allra stofnana, sem heyra undir ráðuneytið. Hér er því verið að tala um kostnað við alla rafræna þjónustu allra stofnana landsins sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið, útgjöld allra sjúkrahúsa landsins, allra heilsugæslustöðva og Landlæknisembættisins. Kostnaðurinn felur til dæmis í sér öll kaup á tölvubúnaði, viðhald, viðgerðir og þróun hugbúnaðar ásamt rekstrar-,leyfis- og þjónustugjöldum bæði vegna sjúkraskrárkerfa (þar með talið rannsóknakerfa og myndgreiningar), ásamt netþjónustu og rafrænum sendingum. Þetta skýrir þær tölur um útgjöld heilbrigðisráðuneytinsins vegna málaflokksins sem fram koma í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, frá Hreyfingunni, en hún spurðist fyrir um notkun á frjálsum og opnum hugbúnaði hjá ráðuneytum og stofnunum sem undir þau heyra.
Heilbrigðisráðuneytið leitar sífellt leiða til hagræðingar á þessu sviði í ljósi umræðu um opinn hugbúnað (Open Source). Má benda á að nú þegar hafa slíkar lausnir verið teknar til prófunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og allflestar heilbrigðisstofnanir landsins eru að nota opinn hugbúnað að einhverju leyti. Allar heilbrigðistofnanirnar eru smám saman að færa sig í áttina að því að nota opinn hugbúnað. Það er ljóst að opinn hugbúnaður er að ryðja sér til rúms og að heilbrigðisstofnanir munu í auknum mæli taka upp opinn hugbúnað að því marki sem unnt er. Slíkri notkun eru nokkur takmörk sett sem skýrist fyrst og fremst af öryggissjónarmiðum.