Um tilflutning verkefna milli sjúkrahúsa á SV-horninu
Hugmyndir um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu voru kynntar heilbrigðisnefnd Alþingis á laugardaginn var.
Verkið var unnið af hópi manna á vegum og undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins. Margt í niðurstöðum vinnuhópsins bendir til talsverðrar fjárhagslegrar hagkvæmni með tilflutningi verkefna milli sjúkrahúsanna á Suðvesturhorninu. Hefur í þessu sambandi verið talað um hálfs annars milljarðs króna fjárhagslegan sparnað á ári hverju. Starfshópurinn gerir engar tillögur í sjálfu sér enda er skýrslan aðeins greining á kostnaði og ábata sem ná mætti með tilfærslu verkefna miðað við tilteknar gefnar forsendur. Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, fagnar framkomnum upplýsingum vinnuhópsins og segir að þær nýtist þeim sem ákvarðanir taki. Hún segir að nú verði farið yfir tillögur starfshópsins með viðkomandi stofnunum. Ráðherra leggur jafnframt áherslu á að í þessu sambandi þurfi að horfa til fleiri þátta en þess fjárhagslega, það þurfi að horfa til sjúklinganna, þæginda og velferðar þeirra.
Sjá nánar skýrslu vinnuhópsins:Endurskipulagning sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu (1.8 MB - pdf skjal)