Hoppa yfir valmynd
15. desember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Dregur úr sjúkraflutningum í Árnessýslu

Nokkuð hefur dregið úr sjúkraflutningum í Árnessýslu á árinu borið saman við liðið ár. Kemur þetta fram í frétt frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Í tilkynningunni, sem send var út vegna umræðna um sjúkraflutninga í Árnessýslu, vildu forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vekja athygli á nokkrum staðreyndum um sjúkraflutningana m.a. um af hverju næturvöktum yrði breytt: „Sú næturvakt, sem til stendur að breyta í bakvakt frá og með 1. mars nk., var sett á 1. júní 2008 og hefur því eingöngu verið til staðar í 1 ½ ár. Fram til þess tíma hafði verið mikil fjölgun sjúkraflutninga í nokkur ár og var því talið nauðsynlegt að setja þessa vakt á.

Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur hins vegar orðið mikil fækkun sjúkraflutninga miðað við sömu mánuði á árinu 2008. Um nætur hefur  sjúkraflutningum fækkað um rúmlega 20 % og hafa því verið færri en sömu mánuði á árunum 2007 og 2008.   Þessi breyting gaf því fullt tilefni til að færa skipulag sjúkraflutninga í sama horf og var fyrir 1. júní 2008, en þá var þessi þjónusta talin vera til fyrirmyndar og með því besta sem gerðist á landinu.

Við þær kröfur, sem nú eru gerðar varðandi hagræðingu og lækkun útgjalda í heilbrigðisþjónustunni verður að horfa til þjónustunnar í heild og meta hvaða þjónustu eru brýnast að verja.  Heilbrigðisstofnunin þarf að gera margvíslegar ráðstafanir til að lækka reksturskostnað á næsta ári.  Framangreind breyting á vaktafyrirkomulagi sjúkraflutninga er einungis ein af mörgum, sem þarf að gera á rekstri stofnunarinnar.“

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta