Greiða að hámarki tuttugu af hundraði kostnaðarins
Þeir sem gista á sjúkrahóteli greiða að hámarki tuttugu af hundraði kostnaðarins við gistingu og fæði vegna dvalarinnar.
Frumvarp þessa efnis hefur verið samþykkt á Alþingi en upphæð gjaldsins fyrir dvöl á sjúkrahóteli er endanlega ákveðið í reglugerð sem heilbrigðisráðherra setur. Um greiðslur fyrir lyf og fyrir heilbrigðisþjónustu sem sjúklingar sækja utan sjúkrahótelsins gilda almennar reglur um greiðsluþátttöku sjúklinga.
Sjúkrahótel hefur verið rekið allt frá árinu 1974 og stóð Rauði kross Íslands fyrir rekstrinum til ársins 2005. Frá þeim tíma hefur sjúkrahótelið verið rekið að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík samkvæmt samningi Landspítala og Fosshótela ehf. Fosshótel sér sjúklingum sem þar dveljast fyrir gistingu og fullu fæði. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahótelinu í tengslum við dvölina er á vegum Landspítala og er hún sjúklingum að kostnaðarlausu.
Rekstur sjúkrahótelsins er að mestu kostaður af föstu framlagi í fjárlögum en að hluta til með innheimtu gjalds að fjárhæð 800 krónur á sólarhring fyrir sjúkratryggða sjúklinga og 5.000 krónur fyrir ósjúkratryggða sjúklinga. Þá hefur hótelið innheimt 2.500 krónur af aðstandendum sem dvalist hafa á sjúkrahótelinu. Gjaldið hefur verið óbreytt frá 1. janúar 2005 þegar fyrrgreindur samningur tók gildi. Lögin sem afgreidd voru frá Alþingi á dögunum eru sett í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis sem fjallaði um kvörtun sjúklings vegna gjaldtökunnar. Umboðsmaður Alþingis komst í stuttu máli að þeirri niðurstöðu að „Til að gjaldtaka fyrir þá þjónustu sem hér um ræðir teljist heimil [...] verður Alþingi með settum lögum að taka skýra afstöðu til gjaldtöku fyrir gistingu á sjúkrahóteli, og þá þannig að ráðið verði af lagaheimildinni með túlkun hvaða kostnaðarliðir verði lagðir til grundvallar við útreikning gjalda vegna þess þáttar í dvöl sjúklings á sjúkrahótelinu sem um ræðir.“