Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 452/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 452/2017

Miðvikudaginn 14. mars 2018

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnunar ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. nóvember 2017, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um annars vegar endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins X og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

A fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu X. A lést X og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hennar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum á árinu X hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfinu var dánarbúið krafið um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Með tölvupósti 23. júní 2017 var niðurstöðunni andmælt og var andmælunum svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. september 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. desember 2017. Með bréfi, dags. 12 desember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst frá stofnuninni með bréfi, dags. 12. desember 2017, og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir því að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um annars vegar endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta kæranda vegna ársins X og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta verði endurskoðaðar.

Í kæru segir að nauðsynlegt sé að gera nokkrar almennar athugasemdir við framsetningu stofnunarinnar í bréfum, án þess að þar sé um kæruatriði að ræða. Bréfin séu yfirleitt skrifuð í valdsmannslegum og ópersónulegum stíl. Þau séu illa rökstudd, ekki með beinum tilvísunum í lagaákvæði, sem stofnunin láti þó skína í að hún fari eftir, og óundirrituð.

Hingað til kveðst B hafa staðið möglunarlaust skil á staðgreiðslu skatta, enda um fátt annað að ræða fyrir opinberan starfsmann sem ekki standi að ráði í eigin rekstri. Honum hafi verið sagt að Tryggingastofnun geri greiðsluáætlun í upphafi skattárs og innheimti síðan eftir þeirri áætlun. Þessi aðferð stofnunarinnar sé hins vegar afar vafasöm vegna þess að í hana vanti áætlun um áhættu. Hverjum manni ætti að vera ljóst að slík greiðsluáætlun án áætlaðrar áhættu sé marklítil, sérstaklega þegar greiðandi eldist og lífslíkur fari minnkandi. Það sé því í meira lagi óeðlilegt þegar stofnunin reyni eftir á að velta ábyrgð sinni af illa heppnaðri áætlanagerð yfir á tryggingaþega. Þar sé vissulega á ferðinni ólögmæt afturvirkni. Lög séu mannasetningar og telji hinir ónafngreindu starfsmenn stofnunarinnar að greiðsluáætlanir sínar standist lög beri þeim að útskýra þá túlkun með beinni tilvísun í viðkomandi lagaákvæði. Stofnunin sem kenni sig við tryggingar ætti að sjá sóma sinn í að tryggja sig eða tryggingaþega fyrir áföllum sem stafi af vitlausri áætlanagerð.

Ófyrirséðar kringumstæður hafi valdið því á síðastliðnu ári að B hafi talið sig þurfa að losa allmikið fé. Eiginkona hans hafi reynst vera með ólæknandi krabbamein í [...] og það hafi verið greint í X. Fram eftir X hafi hreyfigetu hennar hrakað smám saman. Það hafi verið mat sérfræðinga og hjúkrunarliðs að ekki væri hægt að annast hana í því X hæða raðhúsi á C sem þau hafi búið í. Áætlanir hafi gert ráð fyrir að hægt yrði að sjá um hana ef öll aðstaða væri á sömu hæð og búist við að hún gæti lifað í X ár ef þau flyttu í hentugra húsnæði. Þess skuli getið að hún hafi haft mikla ánægju af [...]. Því hafi verið ákveðið að selja húsnæðið og kaupa fyrirvaralítið einnar hæðar hús [...] og þar sem auðvelt aðgengi væri að rúmi, baði og [...]. Fljótlega hafi þau keypt hús í D og hafi þau flutt inn í X. Því næst hafi verið gengið frá sölu á raðhúsinu á C.

Eiginkonu hans hafi haldið áfram að hraka, hraðar en þau hafi átt von á. Hún hafi orðið að flytja á líknardeild Landspítalans og þar hafi hún andast X. Þá X hafi forsenda verið brostin fyrir því að búa á einni hæð [...] og hafi B því farið að leita að skynsamlegra húsnæði. Það hafi hann fundið við E. Þann X 2017 hafi hann flutt þangað og hafi flutningar haft í för með sér miklar sviptingar í fjármálum. Meðal annars hafi hann tekið tæplega X kr. lán frá Lífeyrissjóði [...]. Hann hafi einnig tæmt ýmsa bankareikninga og selt verðbréf þannig að hann stæði jafnréttur eftir húsakaupin sem hafi lokið X 2017. Hann viti ekki ennþá hvort hann hafi haft fjárhagslegan ávinning af þessum sölum og kaupum sem hafi staðið yfir í X ár. Honum þyki reyndar skondið hvað Tryggingastofnun sé fljót til að reyna að innheimta nú á grundvelli áætlaðra fjármagnstekna á árinu X, án þess að hafa gert áætlun fyrir árið 2017, nú þegar þessum húsaviðskiptum hafi lokið.

Þess skuli einnig getið að túlkun Tryggingastofnunar á ágæti aðferðar sinnar við að gera greiðsluáætlun fyrir tryggingaþega og leiðrétta síðan eftir á virðist ekki algerlega rökrétt og óbreytanleg. Svo vilji til að B hafi trúlega átt rétt á greiðslum frá stofnuninni frá árinu 2005 en hafi ekki hirt um að sækja þær. Hann hafi látið af störfum X 2008, en hafi ekki sótt um greiðslur fyrr en fjórum árum seinna og hafi þegið þær síðan frá árinu 2013 þangað til í fyrra þegar yfirvöldum hafi þóknast að hætta þeim. Ef Tryggingastofnun telji sig bera ábyrgð á að greiða lífeyri samkvæmt árlegum leiðréttum greiðsluáætlunum virðist honum því að stofnunin hafi vanrækt þessa skyldu við sig, að minnsta kosti á árunum 2008-2012.

Í stuttu máli fjalli kæran um óréttláta málsmeðferð sem standist ekki lög.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran sé vegna dánarbús A en að maki A, B, hafi kært fyrir hönd dánarbúsins.

Rétt sé að taka fram að ekki hafi nein krafa myndast á hendur B sjálfum við endurreikning og uppgjör tekjuársins X, heldur eingöngu gagnvart kæranda. Því verði ekki fjallað um endurreikning og uppgjör B í greinargerð stofnunarinnar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segi að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skuli eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. sé fjallað um fjármagnstekjur og þá segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu X hafi A verið með ellilífeyri og fengið tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til X kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu tekjuupplýsinga af skattframtali ársins 2017 vegna tekjuársins X hafi komið í ljós að tekjur A hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

A hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun X. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að árið X væri kærandi með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og í sameiginlegar tekjur þeirra hjóna, X kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist frá henni vegna þessara tekjuáætlunar og hafi verið greitt eftir tekjuáætluninni allt árið X.

Við bótauppgjör ársins X hafi komið í ljós að A hafi verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna verið X kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að A hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbótum.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins X hafi verið sú að A hafi fengið greitt á árinu X kr. en hefði átt að fá greitt X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Við yfirferð málsins vegna kærunnar hafi komið í ljós að fyrir mistök hafi gleymst að svara einni spurningu B í bréfi Tryggingastofnunar frá 8. september 2017. Í andmælum hans komi fram að hann vilji fá útskýrt af hverju það séu ólíkar tölur um greiðslur til A vegna ársins X á mismunandi stöðum í gögnunum. Þó að sú athugasemd sé ekki endurtekin í kæru þá þyki stofnuninni rétt að svara henni hér.

Framkvæmd Tryggingastofnunar við launamiða- og staðgreiðsluskil til ríkisskattstjóra vegna greiðslna ársins X hafi verið eftirfarandi:

A hafi fengið greitt allt árið X miðað við tekjuáætlun þá sem henni hafi verið kynnt með bréfi Tryggingastofnunar frá X. Greidd réttindi á árinu X hafi því verið X kr. Sú fjárhæð komi fram á launamiða undir „Greiðslur á árinu X“, enda sé það sú fjárhæð sem kærandi hafi átt rétt á miðað við gildandi tekjuáætlun ársins.

Tryggingastofnun hafi áætlað endurreiknuð réttindi í febrúar 2017 á grundvelli forskráðra tekna í skattframtali. Sá endurreikningur sé framkvæmdur í samvinnu við og að beiðni ríkisskattstjóra til að fækka þeim bréfum sem send séu vegna leiðréttinga á launamiðum þar sem í flestum tilvikum sé meira samræmi á milli forskráðra tekna og endanlegs skattframtals en tekjuáætlunar og endanlegs skattframtals. Niðurstaða þess endurreiknings hafi verið réttindi að fjárhæð X kr. og hafi sú fjárhæð verið forskráð í reit 40 í skattframtali.

Réttindi fyrir árið X hafi svo verið endurreiknuð að nýju á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali og hafi niðurstaða endanlegs endurreiknings verið sú sama, þ.e. réttindi að fjárhæð X kr.

Rétt sé að ítreka eins og hér hafi verið rakið að a-liður 2. mgr. 16. gr. almannatrygginga kveði alveg skýrt á um að sé um hjón að ræða skiptist tekjur samkvæmt 1. málsl. til helminga á milli hjóna við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.

Ítrekað hafi reynt á þetta fyrir úrskurðarnefnd og hafi þetta verið staðfest í afgreiðslu nefndarinnar. Megi benda á úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 17/2012, 286/2013 og 266/2014 sem nokkur dæmi af mörgum.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum dánarbús A vegna ársins X og innheimtu ofgreiddra bóta.

A fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu X. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins gerði upphafleg tekjuáætlun A fyrir árið X ráð fyrir X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í sameiginlegar tekjur vegna vaxta og verðbóta. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali A vegna tekjuársins X reyndust lífeyristekjur hennar vera X kr. og sameiginlegar tekjur vegna vaxta og verðbóta vera X kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins X leiddi í ljós að tekjutrygging og orlofs- og desemberuppbætur hefðu verið ofgreiddar um samtals X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu gerði A ráð fyrir lægri fjármagnstekjum á árinu 2016 en skattframtal 2017 vegna tekjuársins 2016 sýndi fram á. Í þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. laganna skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla fjármagnstekjur undir C-lið 7. gr. laganna. Þá segir í þágildandi 1. gr. reglugerðar nr. 1230/2015 um orlofs- og desemberuppbætur til lífeyrisþega árið 2016 að á fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og fjárhæð heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð skuli greiða uppbætur á árinu 2016.

Að framangreindu virtu liggur fyrir að fjármagnstekjur hafa áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þegar um hjón er að ræða skiptast fjármagnstekjurnar til helminga á milli hjóna við útreikning bótanna, sbr. a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að rekja til þess að umræddur tekjustofn var vanáætlaður í tekjuáætlun A. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar og fellst á að A hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð X kr. á árinu X.

Í kæru eru þeir atburðir raktir sem leiddu til þess að fjármagnstekjur kæranda urðu jafn háar og raun bar vitni. Þrátt fyrir að um ófyrirséða atburði hafi verið að ræða þá telur úrskurðarnefnd velferðarmála að slíkt geti ekki leitt til þess að vikið verði frá skýrum ákvæðum laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem meðal annars er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar til að endurreikna bótaréttindi með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda, sbr. 7. mgr. 16. gr. laganna, og innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna.

Í kæru kemur fram að B telji Tryggingastofnun hafa vanrækt að greiða honum lífeyri samkvæmt árlegum leiðréttum greiðsluáætlunum. Þar sem hin kærða ákvörðun varðar bótaréttindi kæranda en ekki B telur úrskurðarnefnd sér ekki fært að fjalla um þær málsástæður.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum dánarbús A vegna ársins X og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum dánarbús A, vegna ársins X og innheimtu ofgreiddra bóta, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta