Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 469/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 469/2017

Miðvikudaginn 14. mars 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. desember 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. desember 2017 um synjun á umsókn kæranda um heimilisuppbót.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænum umsóknum, mótteknum 4. og 6. desember 2017. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 6. desember 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún væri gift.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. desember 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. desember 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlega kröfu í málinu en ráða má af þeirri ákvörðun sem fylgdi með kærunni að hún krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um heimilisuppbót verði endurskoðuð.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi sé örorkulífeyrisþegi sem hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins með rafrænum umsóknum 4. og 6. desember 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. desember 2017, hafi umsókn hennar verið synjað, þar sem hún hafi ekki uppfyllt það skilyrði laga og reglugerðar um félagslega aðstoð að vera einhleyp. Nánar tiltekið hafi umsókninni verið synjað þar sem samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sé skráð hjúskaparstaða kæranda „Hjón ekki í samvistum“ og þ.a.l. sé kærandi ekki einhleyp eins og sé eitt skilyrði þess að eiga rétt á heimilisuppbót. Jafnframt hafi kærandi tekið fram í athugasemdum við umsókn sína um heimilisuppbót frá 6. desember 2017 að hún væri gift síðan X og ætti […].

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setja, sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem kærandi sé ekki einhleyp.

Í málinu liggi fyrir að kærandi sé gift en ekki í samvistum við maka sinn. Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. að um giftan einstakling sé að ræða þá séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til giftra einstaklinga. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót vegna hjúskaparstöðu hennar.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um heimilisuppbót á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleyp. Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er að um sé að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né í hjónabandi. Samkvæmt gögnum málsins er hjúskaparstaða kæranda í þjóðskrá skráð sem „Hjón ekki í samvistum“. Þá kemur fram í umsókn kæranda um heimilisuppbót að hún sé gift.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi sé ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð og hún uppfylli því ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt ákvæðinu. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um heimilisuppbót, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta