Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 480/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 480/2017

Miðvikudaginn 14. mars 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. desember 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. september 2017 um greiðslu barnalífeyris.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. september 2017, sótti kærandi um barnalífeyri með B og C. Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. september 2017, var umsókninni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. desember 2017. Með bréfi, dags. 3. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. janúar 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfur um að fá greiddan barnalífeyri með B frá X og að nýtt mat fari fram hjá Tryggingastofnun ríkisins á umsókn hans um barnalífeyri með C.

Í kæru segir að það standist ekki jafnræðisreglu að mismuna íslenskum ríkisborgurum með þeim hætti sem Tryggingastofnun geri.

Í bréfi Tryggingastofnunar segi að kærandi hafi sótt um greiðslur frá 1. janúar 2017 sem sé alls ekki rétt. Hann hafi sótt um frá X eða frá því að hann varð 67 ára. Þessi mistök séu því miður í takt við önnur vinnubrögð stofnunarinnar.

Þegar kærandi hafi verið að gera áætlanir fram í tímann og leitað svara hjá Tryggingastofnun hafi upplýsingar stofnunarinnar síðustu árin alls ekki verið boðlegar. Fyrst hafi hann fengið upplýsingar um að allir fengju ellilífeyri við 67 aldur. Svo hafi hann fengið upplýsingar um að væru lífeyrissjóðsgreiðslur hærri fjárhæð en ellilífeyrir á hverjum tíma fengi hann aðeins 30.000 kr. sem væri lágmarksgreiðsla sem allir fengju. Þegar kærandi varð 67 ára hafi hann fengið þær upplýsingarnar að hann ætti ekki rétt á ellilífeyri þar sem lífeyrissjóðsgreiðslur hans væru hærri en ellilífeyrisgreiðslan. Í september 2017 hafi hann fengið þær upplýsingar að hann ætti að minnsta kosti rétt á barnalífeyri með báðum […] frá 67 ára aldri hans þar til þeir næðu 18 ára aldri en að stofnunin greiddi þó aðeins barnalífeyri tvö ár aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi svo synjað honum um greiðslu barnalífeyris.

Það megi vera að reglum sé stöðugt breytt. En hann hafi ekki fengið að vita af því. Með þessum reglum um ellilífeyri sé þegnum ekki bara mismunað heldur sé Tryggingastofnun einnig að grafa undan lífeyrissjóðakerfi landsins. Allflest sjálfstætt starfandi fólk sé hætt að greiða í lífeyrissjóði, það varðveiti sjálft allar sínar tekjur eða arð og þiggi svo ellilífeyri frá Tryggingastofnun við 67 ára aldur. Kærandi þekki fjölda fólks sem sé í þessari stöðu nú þegar.

Kærandi óski eftir að fá greiddan barnalífeyri vegna B frá X. Einnig óski hann eftir heildarmati á því hvaða styrkjum, bótum eða ellilífeyri hann hafi misst af á hverjum tíma vegna rangra upplýsinga frá Tryggingastofnun. Ef til vill hafi hann átt rétt á einhverjum hluta ellilífeyris frá 67 ára aldri eins og reglur hafi verið á þeim tíma.

Þá segir í kæru að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna C á þeim grundvelli að Tryggingastofnun teldi sér ekki heimilt að greiða honum, sem stjúpforeldri barnsins, barnalífeyri vegna hans örorku. Kærandi hafi aldrei farið í örorkumat og hafi því ekki þegið örorkustyrk, enda ekki talið sig vera öryrkja hingað til. Óskað sé eftir að nýtt mat á umsókn hans um barnalífeyri fari fram þar sem málið hafi verið afgreitt á þeirri forsendu að hann sé öryrki. Í svarbréfi Tryggingastofnunar segi að greiddur sé barnalífeyrir ef foreldri sé lífeyrisþegi og hann sé það.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun Tryggingastofnunar á greiðslu barnalífeyris til kæranda. Með tveimur bréfum stofnunarinnar, dags. 29. september 2017, hafi kæranda verið synjað um greiðslu barnalífeyris með börnunum B og C.

Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að Tryggingastofnun geti ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sæti gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað að minnsta kosti þrjá mánuði. Í reglum Tryggingaráðs frá árinu 1999 komi fram í 2. gr. að heimild til greiðslu barnalífeyris með barni ellilífeyrisþega sé bundin því skilyrði að viðkomandi njóti ellilífeyrisins.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri ásamt barnalífeyri með börnunum B og C með umsókn, dags. 25. september 2017. Kærandi hafi fengið metnar ellilífeyrisgreiðslur frá og með X 2017. Kærandi fái þó engar greiðslur þar sem hann sé það tekjuhár.

Þar sem kærandi fái ekki greiddan ellilífeyri á grundvelli tekna, hafi honum verið synjað um greiðslu barnalífeyris með B en líkt og fram hafi komið sé skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris með barni ellilífeyrisþega að viðkomandi njóti ellilífeyris, þ.e. fái greiddan ellilífeyri, sbr. reglur Tryggingaráðs frá árinu 1999.

Kæranda hafi einnig verið synjað um barnalífeyri með C en hann sé ekki sonur kæranda. Kærandi eigi ekki rétt á barnalífeyri með C, stjúpsyni sínum, þar sem einungis sé greiddur barnalífeyrir með börnum ellilífeyrisþega en ekki stjúpbörnum, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar. Fyrir mistök hafi kæranda verið sent rangt synjunarbréf þar sem kæranda hafi verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að greiða barnalífeyri út á örorku kæranda. Það breyti þó ekki niðurstöðu stofnunarinnar þar sem C sé stjúpsonur kæranda. Samkvæmt því sem rakið hafi verið hér að framan eigi kærandi ekki rétt á greiðslu barnalífeyris með stjúpsyni sínum út á sinn ellilífeyri.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris með C og B.

Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir meðal annars að Tryggingastofnun ríkisins geti ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun synjaði að greiða kæranda barnalífeyri með B, syni hans, á þeim grundvelli að kærandi væri ekki lífeyrisþegi í skilningi 3. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar þar sem hann fengi ekki greiddan ellilífeyri vegna tekna. Þá synjaði Tryggingastofnun kæranda um greiðslu barnalífeyris með C á þeim grundvelli að C væri stjúpsonur hans. Í síðarnefnda synjunarbréfinu var ranglega tilgreint að kærandi væri öryrki.

Óumdeilt er að kærandi fær ekki greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins vegna tekna og að C er stjúpsonur hans.

Þar sem kærandi fær ekki greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að hann sé ekki ellilífeyrisþegi í skilningi 3. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar. Þá er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að C sé ekki barn kæranda í skilningi ákvæðisins. Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði ákvæðisins um greiðslu barnalífeyris. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að heimvísa málinu vegna rangra upplýsinga í öðru synjunarbréfinu, enda voru rangfærslurnar leiðréttar í greinargerð stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar.

Í kæru er óskað eftir heildarmati á því hvaða styrkjum, bótum eða ellilífeyri kærandi hafi hugsanlega misst af vegna rangra upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvarðanir er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds. Með hliðsjón af framangreindu hefur úrskurðarnefndin ekki heimild til að framkvæma slíkt heildarmat sem ekki byggist á kæranlegri stjórnvaldsákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu barnalífeyris annars vegar með C og hins vegar með B, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta