Hoppa yfir valmynd
7. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 439/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 439/2017

Miðvikudaginn 7. mars 2018

A og B

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 28. nóvember 2017, kæra A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. nóvember 2017, um synjun á umsókn þeirra um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærendur þáðu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns þeirra sem fæddist X 2017. Með læknisvottorðum, dags. 8. og 20. nóvember 2017 sóttu kærendur um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. nóvember 2017, var umsókn kærenda synjað á þeirri forsendu að hvorki væri um að ræða alvarlegan sjúkleika barns né alvarlega fötlun sem krefðist sérstakrar umönnunar umfram það sem eðlilegt væri við umönnun ungbarna.

Kærendur kærðu framangreinda ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 28. nóvember 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 8. desember 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2017, var greinargerðin send kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2018, var óskað eftir afstöðu Fæðingarorlofssjóðs til þeirrar málsástæðu kærenda að ákvörðun sjóðsins bryti gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar barst frá Fæðingarorlofssjóði með bréfi, mótteknu 9. febrúar 2018 og var það sent kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur greina frá því að sonur þeirra þjáist af dreyrasýki sem sé ólæknandi sjúkdómur. Hann sé einungis með 9% storku samanborið við 100-120% hjá venjulegum einstaklingum. Stærri blæðingar, sem geti auðveldlega komið til á þessu stigi lífs hans, geti verið mjög alvarlegar og jafnvel lífshættulegar. Þar sem Fæðingarorlofssjóður hafi neitað umsókn þeirra um lengra fæðingarorlof neyðist þau til að setja barnið til dagmömmu sem þurfi að hugsa um fjögur önnur börn, en það sé ekki barninu fyrir bestu og brjóti í bága við lög. Kærendur taka fram að barn þeirra sé þannig einstaklingur að hann sé mjög líklegur til að príla og reyna að standa upp en hann sé mun hugaðri en önnur börn á sama aldri. Þá sé sonur þeirra mjög hljóður og því auðvelt að missa athyglina af honum þegar önnur börn séu annars vegar.

Kærendur telja að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs brjóti gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem foreldrar annarra barna með dreyrarsýki hafi fengið lengingu á fæðingarorlofi. Ákvörðunin brjóti einnig gegn 3. og 18. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, meðalhófsreglu og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Barn kærenda sé að byrja að læra að ganga og detti því daglega og reki sig í. Komi til alvarlegrar blæðingar í kjölfar þess geti hún verið lífshættuleg. Hann megi því til dæmis ekki ferðast til landa þar sem storka sé ekki til staðar á öllum sjúkrahúsum. Hann þurfi því sérstaka og mikla umsjá á meðan hann læri að ganga á eigin fótum og varast hættur í umhverfi sínu sem geti veitt honum lífshættulega áverka. Dagmamma með fimm börn geti ekki veitt honum jafnmikla athygli og foreldri með eitt barn. Kærendur telja að ekki sé óhætt að senda barn þeirra til dagmömmu á meðan hann sé að læra að ganga og vara sig á hættum sem kunni að leiða til alvarlegra blæðinga. Það sé því mjög íþyngjandi fyrir þau að meðalhófs sé ekki gætt og að hann skuli ekki fá að njóta vafans. Komi upp alvarleg blæðing geti hún verið mjög hættuleg og hættan á því að það gerist sé aldrei meiri en á því tímaskeiði þegar barn sé að læra að ganga. Aldur barnsins og þroski geri hann ófæran um að forðast hættur og athygli dagmóður með fimm börn verði ekki borin saman við fulla athygli móður á þessum stað æviskeiðsins. Þegar hætta sé fyrir hendi eigi barnið að njóta vafans en ljóst sé að hann sé nú í meiri hættu að skaða sjálfan sig, enda óviti.

Kærendur taka fram að sonur þeirra sé líklegri en önnur börn til að verða fyrir skaða þar sem hann sé mjög hljóður, gráti aldrei og hjali lítið. Hann sé þó handóður, sólginn í að reyna að ganga, standa upp og sé fram úr hófi hugaður samanborið við önnur börn. Slíkur persónuleiki eigi ekki vel við sjúkdóm hans. Ekki sé tekið tillit til hans sérstöku einkenna í ákvörðun um synjun. Kærendur benda á að dæmi séu um lífshættulega áverka hjá skyldfólki barns þeirra vegna sama sjúkdóms. Kærendur vísa til lýsingar á sjúkdómi barns þeirra og telja að það eitt og sér sé næg ástæða til að hafa fyllstu aðgát og leyfa barninu að njóta vafans. Kærendur óski því eftir að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði endurskoðuð og að tekin verði ákvörðun sem gæti meðalhófs, jafnræðis og tryggi að enginn vafi leiki á því að sú umönnun sem hann fái sé sú besta.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til þess að í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sé að finna heimildarákvæði til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Óskað hafi verið umsagnar sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs við matið.

Í athugasemdum með 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 megi finna ákveðna leiðbeiningu við matið. Þar komi meðal annars fram að litið verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Áfram eigi að miða við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og sé þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát. Af ákvæðinu og athugasemdunum sé ljóst að annars vegar þurfi að vera til staðar alvarlegur sjúkleiki barns eða alvarleg fötlun og hins vegar þurfi ástand barnsins að vera þannig að það krefjist nánari umönnunar foreldris og þá umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Sé ástand barnsins ekki þannig sé ekki þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi. Þá sé einnig ljóst að hægt sé að framlengja fæðingarorlof til lengri eða skemmri tíma en þó að hámarki í sjö mánuði og fari þá eftir alvarleika sjúkdóms eða fötlunar barns og umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Þannig sé ekki útilokað, hafi foreldrum verið synjað um framlengingu fæðingarorlofs eða verið ákvarðaður skemmri tími en sjö mánuðir í lengingu, að til frekari framlengingar kunni að koma síðar, gerist þess þörf og berist um það framhaldsvottorð með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið. Í framkvæmdinni sé slíkt alls ekki óalgengt.

Tvö læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs hafi borist í málinu, dags. 8. og 20. nóvember 2017, en einnig liggi fyrir umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs. Í læknisvottorði C, dags. 8. nóvember 2017, sé greining á veikindum barns Hereditary factor viii deficiency D66 og Congenital subluxation of hip, bilateral Q65.4. Í vottorðinu segi: „Aukin umönnunarþörf vegna veikinda barns, sbr. að neðan.“ Þá sé lýsing á sjúkdómi barns svohljóðandi: „X mánaða drengur með dreyrasýki, factor VIII mæling c.a. 10%. Er í eftirliti hér á Barnaspítala Hringsins vegna þessa en þarf ekki reglubundna meðferð. Var einnig með dysplasiu á mjöðmum eftir fæðingu, hefur verið í eftirliti vegna þessa hjá D fram að þessu.“ Með bréfi, dags. 13. nóvember 2017, hafi verið óskað eftir nánari upplýsingum um umönnunarþörfina og í hversu langan tíma hún stæði að mati læknis, umfram það sem gengi með önnur börn á þessum aldri.

Nýtt læknisvottorð hafi borist frá sama lækni, dags. 20. nóvember 2017. Í því komi meðal annars fram að barnið sé með dreyrasýki, galla í storkukerfi sem auki hættu á alvarlegum blæðingum. Um það segi síðan orðrétt: „Þar sem sjúkdómurinn er flokkaður sem vægur í hans tilviki verður ekki um reglubundna eða fyrirbyggjandi lyfjagjöf að ræða en hann gæti þurft lyfjagjöf í æð til að stöðva blæðingar. Nokkrar blóðrannsóknir voru gerðar fyrstu dagana eftir fæðingu til að staðfesta sjúkdóminn. Hann hefur síðan komið í göngudeild tvisvar eftir það. Kemur á Barnaspítala Hringsins ef hann fær einkenni um djúpar eða innvortis blæðingar.“ Í vottorðinu sé einnig fjallað um liðhlaup í mjöðmum barnsins. Um það segi orðrétt: „ Drengurinn er einnig með meðfædda subluxatio (liðhlaup) í mjöðmum. Ástandið talið vægt og því ekki þörf á annarri meðferð en koddabuxumr. Hefur farið í myndatöku og ómskoðun vegna þessa og verið í eftirliti hjá D í 3 eða 4 skipti en mun hætta í reglubundnu eftirliti vegna þessa fljótlega.“ Loks segi í læknisvottorðinu: „Hvort tveggja ofangreint hefur tímabundið nokkuð aukið umönnunarþörf umfram það sem venjulegt er. Hér eftir er ekki um aukna umönnunarþörf að ræða nema að reyna þarf eins og hægt er að koma í veg fyrir byltur og aðra áverka.“

Í umsögn E sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. desember 2017, sem hafi komið að matinu segi meðal annars: „Dreyrasýki er meðfæddur galli í storkukerfi einstaklinga sem eykur hættu á blæðingum sem geta orðið alvarlegar og enginn vafi um að það getur verið mjög alvarlegur sjúkdómur. Hins vegar er alvarleiki slíkra sjúkdóma breytilegur og eins og kom fram í vottorði C var sjúkdómurinn í tilfelli F flokkaður sem vægur og þess vegna ekki um fyrirbyggjandi eða reglubundna lyfjagjöf að ræða þó hann gæti þurft lyfjagjöf í æð til að stöðva blæðingar. C segir einnig að um nokkuð aukna umönnunarþörf hafi verið að ræða fram að þessu, en ekki hér eftir annað en að reyna að koma í veg fyrir byltur og aðra áverka.“ Þá segi áfram í umsögn E: „Eðli sínu samkvæmt krefjast öll ungabörn mikillar umönnunar og reyna allir foreldrar að koma í veg fyrir byltur og áverka hjá ungum börnum sínum og telst það til eðlilegrar umönnunar. Með tilliti til hreyfanleika barna fyrstu mánuðina mat ég það svo að ólíklegt væri að sú aukna umönnunarþörf sem F þurfti fyrstu mánuðina ætti ekki að hafa gert það að verkum að fjölskyldan gæti ekki notið eðlilegs fæðingarorlofs fram að þessu. Þegar þetta seinna vottorð er gert er drengurinn X mánaða gamall og farinn að hreyfa sig meira um eins og eðlilegt er, en það er mat C að hér eftir sé ekki um að ræða aukna umönnunarþörf hvorki vegna dreyrasýkinnar né mjaðmaliðhlaupa.“ Loks segi E í umsögn sinni: „Það var því endanlegt mat mitt, þegar litið er til þeirra læknisvottorða sem fyrir liggja, að aukin umönnunarþörf fram að gerð vottorðanna hafi verið óveruleg og skv. umsögn C þá væri ekki aukin umönnunarþörf eftir þetta og þá væri ekki til staðar rök fyrir lengingu fæðingarorlofs í þessu máli.“

Með vísan til læknisvottorða C og umsagnar E telji Fæðingarorlofssjóður að þótt dreyrasýki geti talist alvarlegur sjúkdómur sé hann vægur í tilviki sonar kærenda. Þá hafi nánari umönnun foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna vegna þessa sjúkdóms verið óveruleg til 20. nóvember 2017 en eftir það tímamark sé ekki um aukna umönnunarþörf að ræða. Varðandi mjaðmaliðhlaup barnsins þá sé það ástand vægt og krefjist ekki nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Í samræmi við framangreint verði ekki séð að þörf sé á framlengingu á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Fæðingarorlofssjóður bendir á að verði breyting á ástandi barns kærenda þannig að það leiði til nánari umönnunar umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna sé unnt að senda læknisvottorð þar um með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið og muni sjóðurinn taka afstöðu til þess.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kærenda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Með 3. gr. laga nr. 143/2012 var ákvæði 17. gr. laga nr. 95/2000 breytt, en í athugasemdum með ákvæðinu segir að líta verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Áfram eigi að miða við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát.

Samkvæmt gögnum málsins fæddist sonur kærenda með dreyrasýki og liðhlaup í mjöðmum. Í læknisvottorði C, dags. 8. nóvember 2017, er sjúkdómum barnsins lýst á eftirfarandi hátt: „X mánaða drengur með dreyrasýki, factor VIII mæling ca. 10%. Er í eftirliti hér á Barnaspítala Hringsins vegna þessa en þarf ekki reglubundna meðferð. Var einnig með dysplasiu á mjöðmum eftir fæðingu, hefur verið í eftirliti vegna þessa hjá D fram að þessu.“ Í vottorði sama læknis, dags. 20. nóvember 2017, segir einnig svo:

„Það vísast í vottorð dags. 8. nóvember 2017. F er með dreyrasýki, galla í storkukerfi sem auki hættu á alvarlegum blæðingum. Þar sem sjúkdómurinn er flokkaður sem vægur í hans tilviki verður ekki um reglubundna eða fyrirbyggjandi lyfjagjöf að ræða en hann gæti þurft lyfjagjöf í æð til að stöðva blæðingar. Nokkrar blóðrannsóknir voru gerðar fyrstu dagana eftir fæðingu til að staðfesta sjúkdóminn. Hann hefur síðan komið í göngudeild tvisvar eftir það. Kemur á Barnaspítala Hringsins ef hann fær einkenni um djúpar eða innvortis blæðingar.“

Í vottorðinu er einnig fjallað um liðhlaup í mjöðmum barnsins en þar segir: „ Drengurinn er einnig með meðfædda subluxatio (liðhlaup) í mjöðmum. Ástandið talið vægt og því ekki þörf á annarri meðferð en koddabuxur. Hefur farið í myndatöku og ómskoðun vegna þessa og verið í eftirliti hjá D í 3 eða 4 skipti en mun hætta í reglubundnu eftirliti vegna þessa fljótlega.“ Þá segir einnig í læknisvottorðinu: „Hvort tveggja ofangreint hefur tímabundið nokkuð aukið umönnunarþörf umfram það sem venjulegt er. Hér eftir er ekki um aukna umönnunarþörf að ræða nema að reyna þarf eins og hægt er að koma í veg fyrir byltur og aðra áverka.“

Í umsögn E sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. desember 2017, kemur meðal annars fram að dreyrasýki sé meðfæddur galli í storkukerfi einstaklinga sem auki hættu á blæðingum sem geti orðið alvarlegar og enginn vafi um að það geti verið mjög alvarlegur sjúkdómur. Slíkir sjúkdómar séu hins vegar misalvarlegir. Líkt og fram komi í seinna vottorði C sé hann í tilfelli barns kærenda vægur og því ekki um fyrirbyggjandi eða reglubundna lyfjagjöf að ræða þótt hann gæti þurft lyfjagjöf í æð til að stöðva blæðingar. C segir einnig að um nokkuð aukna umönnunarþörf hafi verið að ræða fram að þessu, en ekki hér eftir annað en að reyna að koma í veg fyrir byltur og aðra áverka. Þá kemur fram í umsögninni að öll ungabörn krefjist mikillar umönnunar og allir foreldrar reyni að koma í veg fyrir byltur og áverka hjá ungum börnum sínum. Það teljist til eðlilegrar umönnunar. Með tilliti til hreyfanleika barna fyrstu mánuðina hafi hann metið það svo að ólíklegt væri að sú aukna umönnunarþörf sem barn kærenda hafi þurft fyrstu mánuðina gerði það að verkum að fjölskyldan hefði ekki notið eðlilegs fæðingarorlofs fram að þessu. Það hafi því verið endanlegt mat hans, þegar litið væri til fyrirliggjandi læknisvottorða, að aukin umönnunarþörf fram að gerð vottorðanna hafi verið óveruleg. Þá væri samkvæmt umsögn C ekki heldur þörf á meiri umönnun eftir þetta og því ekki til staðar rök fyrir lengingu fæðingarorlofs í málinu.

Með hliðsjón af gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, að samkvæmt læknisvottorðum og öðrum fyrirliggjandi gögnum séu sjúkdómar barns kærenda ekki á því stigi að þeir krefjist meiri umönnunar foreldris en venjulegt geti talist. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að ástand barns kærenda sé ekki með þeim hætti að þörf sé á lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að líkt og fram kemur í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs geta kærendur sótt á ný um framlengingu fæðingarorlofs, reynist barn þeirra þurfa á aukinni umönnun að halda sökum veikinda.

Kærendur byggja meðal annars á því að hin kærða ákvörðun brjóti gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem foreldrar annarra barna með dreyrasýki hafi fengið lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi. Úrskurðarnefndin tekur fram að þegar stjórnvald hefur lagt áherslu á tiltekin sjónarmið og byggt ákvörðun á þeim, leiðir jafnræðisreglan almennt til þess að leysa beri úr sambærilegu máli á sama hátt og með áherslu á sömu sjónarmið og gert var við úrlausn hinna eldri mála. Í svarbréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. febrúar 2018, er vísað til þess að ekki liggi fyrir að slíkar umsóknir hafi verið afgreiddar síðastliðin 11 ár. Að því virtu verður ekki séð að Fæðingarorlofssjóður hafi brotið jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við afgreiðslu umsóknar kærenda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. nóvember 2017, um synjun á umsókn A og B, um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta