Nýtt húsnæði menntavísindasviðs HÍ stórbætir aðstöðu kennaranáms á Íslandi
Framkvæmdir og endurbætur á Hótel Sögu, sem senn mun hýsa menntavísindasvið Háskóla Íslands, ganga vel. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fundaði nýlega með Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ og heimsóttu þau gömlu Bændahöllina sem lengst af hýsti Hótel Sögu. Auk menntavísindasviðs verða í húsinu rúmlega 110 litlar stúdentaíbúðir á vegum Félagsstofnunar stúdenta.
Kaupsamningur um kaup Ríkisins og Félagsstofnunar stúdent á Bændahöllinni var undirritaður í lok síðasta árs. Markmið Ríkisins með kaupum á húsnæðinu og meðfylgjandi fjárfestingu í húsnæði Háskóla Íslands er að skapa nemendum og starfsfólki skólans framúrskarandi náms- og starfsumhverfi. Nýtt húsnæði menntavísindasviðs stórbætir aðstöðu kennaranáms og eykur getu háskólans til að útskrifa kennara og fagfólk í hæsta gæðaflokki til starfa í skólakerfinu og menntageiranum á Íslandi.
Mikil tilhlökkun ríkir fyrir því að fá menntavísindasvið loks á miðháskólasvæðið enda hafa húsnæðismál þess verið ófullnægjandi til lengri tíma. Með flutningi allrar kennslu í menntavísindum á háskólasvæðið verður samþætting menntavísinda við önnur fræðasvið háskólans tryggð og bera flutningarnir með sér aukin tækifæri til þróunar sérgreinakennslu. Að þessu hefur verið stefnt frá sameiningu Kennaraháskóla Íslands og HÍ árið 2008 og því um löngu tímabæra framþróun að ræða.