Mál nr. 2/2008: Úrskurður frá 19. júní 2008
Ár 2008, fimmtudaginn 19. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 2/2008
Jón Guðlaugsson
gegn
Farmanna- og fiskimannasambandinu
vegna Félags skipstjórnarmanna
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Mál þetta var dómtekið 28. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Ástráður Haraldsson.
Stefnandi er Jón Guðlaugsson, kt. 220845-4789, Lækjarkinn 28, Hafnarfirði.
Stefndi er Farmanna- og fiskimannasambandið, kt. 520169-2509, Grensásvegi 13, Reykjavík vegna Félags skipstjórnarmanna, kt. 680104-2550, Borgartúni 18, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Að niðurstöðu kjörstjórnar stefnda verði hnekkt þannig að hann fái full félagsréttindi til kosninga og kjörgengis við stjórnarkjör 2008.
Auk þess er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda
Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Krafist er málskostnaðar að mati dómsins.
Með úrskurði Félagsdóms uppkveðnum 16. apríl 2008 var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 29. apríl 2008 var sá úrskurður staðfestur. Aðalmeðferð málsins fór fram 28. maí 2008.
Málsatvik
Þann 23. janúar 2008 óskaði stefnandi eftir því að gerast félagi í Félagi skipstjórnarmanna. Beiðni stefnanda var afgreidd þann 25. janúar, þ.e. tveimur dögum síðar, þar sem honum var tilkynnt að hann hefðii verið skráður félagsmaður Félags skipstjórnarmanna samkvæmt umsókninni. Þann 28. janúar sl óskaði stefnandi svo eftir að nafn hans birtist á kjörskrá stefnda fyrir 30. janúar sl. þar sem hann varð var við að hann var ekki á kjörskrá félagsins þrátt fyrir að hann hefði verið skráður í félagið.
Ástæða beiðni stefnanda var sú að fyrir dyrum félagsins standa kosningar til stjórnarkjörs félagsins. Í 17. gr. laga stefnda segir að framboði sé hagað þannig að uppstillinganefnd skuli skila tillögum sínum að lista yfir frambjóðendur eigi síðar en 10. janúar til kjörstjórnar það ár sem kosning fer fram. Listinn skuli liggja frammi á skrifstofu félagsins ásamt kjörskrá og vera félögum til sýnis til 30. janúar. Síðan segir í 3. mgr. 17. gr. laganna: „50 félagar sameiginlega eða fleiri geta borið fram lista við stjórnarkjör. Listar skulu skipaðir á sama hátt og segir í 2. tölulið um lista uppstillinganefndar og vera undirritaðir af þeim 50 félögum sem listann bera fram. Framboðslistar skv. þessum tölulið skulu berast kjörstjórn, sem gefur þeim listabókstaf. Sömu ákvæði gilda um þessa lista og um lista uppstillinganefndar eftir því sem við á. Frestur til að bera fram lista rennur út 30. janúar.“ Í 18. gr. laganna segir að stjórnarkjöri ljúki 30. apríl. Í 19. gr. laganna kemur fram hvernig kosning fer fram og er því þar lýst að um póstkosningu sé að ræða, þ.e. kjósandi kýs og sendir kjörseðilinn til skrifstofu stefnda. Engar dagsetningar koma fram í 19. gr. laganna og engar leiðbeiningar að hafa um hvenær stjórnarkjör skuli hefjast.
Það var ekki fyrr en þann 11. febrúar að svar barst stefnanda frá kjörstjórn stefnda þar sem hafnað er beiðni stefnanda. Þar kom fram að kjörstjórn félagsins kvaðst ekki geta orðið við ósk hans um kosningarétt og kjörgengi og byggði niðurstöðu sína á 2. mgr. 6. gr. laga félagsins þar sem segir: „ Skipstjórnarmaður sem ekki hefur sótt um félagsaðild, en hefur greitt félagsgjald, vinnuréttindagjald, til félags skipstjórnarmanna undangengna 6 mánuði, skal teljast fullgildur félagi með full réttindi og skyldur.“ Kjörstjórn kveðst hafa kannað greiðslur vegna stefnanda til félagsins sl. ár svo og lögskráningargögn fyrir sama tímabil og telji ljóst að hann uppfylli ekki framangreint skilyrði félagsaðildar. Þá vísar kjörstjórnin enn fremur til þess að ekki megi bæta við neinum nýjum félagsmönnum inn á kjörskrá eftir 10. janúar.
Í áliti lögmanna Félags skipstjórnarmanna, sem lá fyrir áður en ákvörðun kjörstjórnar lá fyrir, eða þann 5. febrúar 2008, segir að stefnandi sé félagsmaður í Félagi skipstjórnarmanna en hafi hvorki kosningarétt né kjörgengi vegna væntanlegs kjörs til stjórnar félagsins. Er niðurstaðan byggð á 5. málslið 2. töluliðar 1. mgr. 17. gr. laga félagsins. Samkvæmt ákvæðinu skuli kjörskrá vera tilbúin eigi síðar en 10. janúar og eftir þann dag megi ekki bæta neinum nýjum félagsmönnum við á kjörskrá vegna yfirvofandi kosninga til stjórnar félagsins.
Stefnandi, ásamt hópi félagsmanna, lagði fram lista til stjórnarkjörs eins og heimilt er í 17. gr. félagslaganna. Sá listi var lagður fram þann 30. janúar 2008. Um leið og kjörstjórn hafnaði beiðni stefnanda um að vera skráður á kjörskrá kvað hún upp úrskurð um að framboðslisti sá, sem stefnandi tilheyri, fullnægi ekki ákvæðum 16. og. 17. gr. laga stefnda um fullskipaðan lista kjörgengra félagsmanna og teldist listinn því ólögmætur.
Um leið og beiðni stefnanda var tekin fyrir hjá kjörstjórn var einnig tekið fyrir erindi Hauks Laxdals Baldvinssonar, kt. 240248-4769, um félagsaðild en Haukur Laxdal hafði óskað eftir félagsaðild á sama tíma og stefnandi. Á fundi kjörnefndar var erindi Hauks samþykkt og var hann því metinn fullgildur á kjörskrá.
Með ákvörðun sinni um að stefnandi skuli ekki njóta kosningaréttar eða kjörgengis hefur kjörstjórn svipt stefnanda félagslegum réttindum sínum og komið í veg fyrir mótframboð við lista uppstillinganefndar og því hefur ákvörðunin afar mikil áhrif. Þá sé stefnanda mikilsvert að fá úr kröfum sínum skorið fljótt og áður en kosningu lýkur vegna stjórnarkjörs, þ.e. fyrir 30. apríl 2008.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi höfðar mál þetta á hendur stefnda fyrir Félagsdómi með vísan til 2. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 1. tl. 44. gr. sömu laga. Með því að neita stefnanda um full félagsréttindi hafi stefndi brotið gegn ákvæðum 2. gr. framangreindra laga og því falli úrlausnarefni máls þessa undir Félagsdóm. Í fjölmörgum dómum Félagsdóms hafi verið fjallað um rétt einstaklinga til fullra félagsréttinda í stéttarfélagi.
Í dómi Félagsdóms í máli nr. 1/1968 ( VI. bindi bls. 69) var einstaklingur stefnandi máls en stefndi var Alþýðusamband Íslands vegna Landssambands vörubifreiðastjóra vegna Vörubílstjórafélagsins Þjóts. Dómkröfur stefnanda voru þær að Vörubílstjórafélagið Þjótur yrði skyldað til að veita stefnanda full og óskert félagsréttindi. Í niðurstöðu Félagsdóms hafi ekki verið gerð athugasemd við aðild. Einnig er vísað til dóms Félagsdóms í máli nr. 6/1948 ( III. bindi bls. 15) og máli nr. 10/1948 ( III. bindi bls. 33).
Samkvæmt 18. gr. laga félags skipstjórnarmanna úrskurðar kjörstjórn um réttmæti kjörskrár. Á grundvelli þess lagaákvæðis hafi kjörstjórn kveðið upp úrskurð sinn þann 11. febrúar, að stefnandi hefði ekki rétt til að njóta kjörgengis eða kosningaréttar í kosningum félagsins nú. Hvergi í lögunum sé kveðið á um kæruferli og því telur stefnandi þá einu leið færa að leita til Félagsdóms til að fá niðurstöðu kjörstjórnar breytt.
Í 8. gr. laga Félags skipstjórnarmanna komi fram sú meginregla að allir félagsmenn eigi sama rétt og beri sömu skyldur. Með jafnræðisreglunni sé átt við að félagsmenn skuli allir vera jafnir og þeim ekki mismunað en hún sé samofin hugsjón verkalýðshreyfingarinnar. Reglur sem mismuni félagsmönnum verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Einungis svokallaðir aukaaðilar hafi ekki atkvæðisrétt þegar kosningar snúist um verkföll eða uppsögn eða samþykkt kjarasamninga. Að öðru leyti sé hvergi að finna takmörkun á réttindum félagsmanna í lögum félagsins.
Félag skipstjórnarmanna hafði samþykkt stefnanda sem félagsmann þann 25. janúar sl. Engin ákvæði í lögum félagsins hafi heimilað takmörkun félagsréttinda stefnanda. Kjörstjórn hafði ekki heimild til að hafna því að nafn stefnanda færi á kjörskrá en óumdeilt sé að kjörgengi og kosningaréttur fari saman. Stefnandi byggir þá fullyrðingu sína á því að ef kjörstjórn taki slíka íþyngjandi ákvörðun í úrskurði sínum verði að vera fyrir því skýr lagaheimild. Svo sé ekki.
Kjörstjórn byggir úrskurð sinn á því að í 5. málslið 2. töluliðar 1. mgr. 17. gr. laga Félags skipstjórnarmanna komi fram að eftir 10. janúar það ár, þegar stjórnarkjör fari fram, sé óheimilt að bæta við nýjum félagsmönnum á kjörskrá. Hvergi komi fram annars staðar í ákvæðinu eða lögunum að slíkt sé óheimilt og því er forsenda ákvörðunar kjörstjórnarinnar ekki í samræmi við ákvæði laga félagsins og byggð á órökstuddri niðurstöðu.
Auk síðastgreinds vísar stefnandi til þess að þar sem ekki séu skýr ákvæði í lögum félagsins verði að horfa til almennra lögskýringarreglna við skýringar á því hvernig með skuli fara. Annars vegar sé vísað til laga nr. 24/2000 um kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Í 1. gr. laganna segir að kosningarétt eigi hver íslenskur ríkisborgari sem náð hafi 18 ára aldri þegar kosning fari fram og lögheimili eigi hér á landi. Kjörgengur sé sá sem eigi kosningarétt. Reglan sé því afar skýr og óumdeild.
Í Félagi skipstjórnarmanna sé um póstkosningu að ræða sem taki yfir langt tímabil. Á vettvangi Alþýðusambands Íslands hafi póstkosningar tíðkast um áratugaskeið. Vegna þess sé í gildi reglugerð um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu sem önnur félög og félagasamtök hafi stuðst við þegar á hafi reynt. Í 8. gr. reglnanna sé kveðið á um auglýsingar atkvæðagreiðslu og segir að þegar framboðsfrestur sé útrunninn, og tillögum eða listum hafi verið skilað eða kjarasamningur sé tilbúinn til afgreiðslu, skuli kjörstjórn auglýsa allsherjaratkvæðagreiðsluna með minnst 7 sólarhringa fyrirvara með uppfestum auglýsingum, auglýsingu í dagblöðum og/eða útvarpi eða á annan þann hátt að tryggt sé að félagsmenn fái nægilega snemma vitneskju um hana. Þá segir í 3. mgr. 13. gr. að eftir að atkvæðagreiðsla hafi verið auglýst megi ekki veita nýjum félagsmönnum viðtöku í félagið, en þeir sem skulda geta öðlast atkvæðisrétt ef þeir greiða skuld sína áður en atkvæðagreiðsla hefst. Þá sé aukafélögum heimilt að gerast fullgildir félagar á sama tímabili, enda uppfylli þeir að öðru leyti inntökuskilyrði viðkomandi félags. Það sé því ekki fyrr en eftir að framboðsfresti sé lokið að óheimilt sé að veita nýjum félagsmönnum inngöngu í félagið.
Framboðsfrestur hafi ekki verið liðinn hjá Félagi skipstjórnarmanna en hann var 30. janúar sl. eins og áður greinir. Hvergi segir í lögum félagsins að óheimilt sé að taka inn nýja félaga eftir 10. janúar sl. eins og kjörstjórn haldi fram í úrskurði sínum. Tilgangur þess að leggja fram kjörskrá tímanlega fyrir kosningar sé að gefa félagsmönnum kost á að kynna sér félagsleg réttindi sín til þess að þeir geti gert athugasemdir og eftir atvikum kært sig á kjörskrá.
Þá byggir stefnandi á því að með því að samþykkja Hauk Laxdal sem fullgildan félagsmann með kosningarétt og kjörgengi, en hann hafði ekki verið félagsmaður, hafi kjörstjórn mismunað félagsmönnum. Engin gild rök hafi komið fram fyrir því að samþykkja hann fullgildan félagsmann en ekki stefnanda.
Málatilbúnaður stefnanda byggist á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og lögum Félags skipstjórnarmanna. Vegna málskostnaðar sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.
Málsástæður stefnda og lagarök
Krafa stefnda, um sýknu af dómkröfum stefnanda, er reist á eftirfarandi:
Samkvæmt 17. gr. laga stefnda skuli uppstillinganefnd skila tillögum sínum að lista yfir frambjóðendur til stjórnarkjörs eigi síðar en 10. janúar til kjörstjórnar það ár sem kosning fer fram. Listinn skal svo liggja frammi á skrifstofu félagsins ásamt kjörskrá og vera félögum til sýnis til 30. janúar, en þá renni út frestur til að skila framboðslista til stjórnarkjörs.
Með úrskurði kjörstjórnar stefnda 11. febrúar 2008 var hafnað beiðni stefnanda um að hann yrði skráður á kjörskrá vegna fyrirhugaðra kosninga til stjórnar stefnda. Kjörstjórn stefnda úrskurði um réttmæti kjörskrár, sbr. afdráttarlaust ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga stefnda. Úrskurður kjörstjórnar sé endanlegur, enda er ekki kveðið á um kæruheimild á úrskurðum kjörstjórnarinnar í lögum stefnda. Ljóst sé að það sé að gefnu tilefni, því ef hægt væri að kæra úrskurði kjörstjórnar gæti það valdið miklum vandkvæðum og töfum á framkvæmd stjórnarkosninganna og jafnvel stefnt þeim í tvísýnu þar sem þeim skuli, samkvæmt fortakslausum ákvæðum laga stefnda, vera lokið 30. apríl.
Stefndi áréttar hér mótmæli sín á því að kjörstjórn stefnda hafi brotið gegn 2. gr. laga nr. 80/1938, með því að verða ekki við beiðni stefnanda um að verða skráður á kjörskrá. Jafnvel þótt mjög rúmri lögskýringu yrði beitt sé ekki hægt að fella það tilvik sem hér um ræðir undir ákvæðið, enda ljóst að stefnanda hafi ekki verið meinuð aðild að stefnda. Með aðild sinni að stefnda hafi stefnandi hins vegar gengist undir lög þess og sé því bundinn af þeim rétt eins og aðrir félagsmenn, þar á meðal úrskurðum kjörstjórnar stefnda um réttmæti kjörskrár.
Samkvæmt 5. ml. 2. tl. 1. mgr. 17. gr. laga stefnda skulu tillögur uppstillinganefndar og kjörskrá vera tilbúnar ekki seinna en 10. janúar, en fram til 30. janúar sé félagsmönnum heimilt að setja fram athugasemdir við kjörskrána og geta þeir þá jafnframt notað hana til að setja saman gagnframboð til stjórnarkjörs. Lög félagsins heimili það ekki að nýjum félagsmönnum verði bætt á kjörskrána eftir 10. janúar.
Tvær beiðnir komu fram um breytingu á kjörskrá eftir að hún var lögð fram. Annars vegar beiðni stefnanda 28. janúar 2008, um að hann yrði tekinn inn á kjörskrá, hins vegar beiðni Hauks Laxdals Baldvinssonar, dags. 29. janúar 2008, um það sama. Kjörstjórn hafi bætti Hauki inn á kjörskrána með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga félagsins, þar sem vinnuveitandi Hauks hafði ranglega greitt af honum félags- og sjóðagjöld til sjómannadeildar Afls stéttarfélags í stað stefnda, en þeim gjöldum var síðan skilað til stefnda.
Engin gjöld höfðu hins vegar verið greidd af stefnanda í langan tíma og gat hann því ekki talist hafa verið fullgildur félagsmaður eins og Haukur, þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga stefnda. Allt tal stefnanda, um að kjörstjórn stefnda hafi ekki gætt jafnræðis við úrvinnslu á beiðnum þeirra um að þeim yrði bætt inn á kjörskrá, þegar hún bætti Hauki við kjörskrána en ekki stefnanda, fái því ekki staðist. Ljóst sé að hefði stefnandi verið í nákvæmlega sömu stöðu og Haukur og gjöld verið greidd af honum, þá hefði honum auðvitað einnig verið bætt inn á kjörskrá. Hafi kjörstjórn stefnda á engan hátt brotið gegn jafnræðisreglu, sbr. 8. gr. laga stefnda, gagnvart stefnanda, enda hefðu allir félagsmenn stefnda, í sömu stöðu og stefnandi, fengið sömu afgreiðslu.
Því sé hafnað að tilvísanir stefnanda til laga nr. 24/2000, um kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, og reglugerðar ASÍ, um leynilega atkvæðagreiðslu, geti haft nokkra þýðingu í máli þessu. Kosningar til Alþingis séu í eðli sínu og framkvæmd ekki sambærilegar kosningum til stjórnar stefnda og eigi lög nr. 24/2000 samkvæmt efni sínu ekki við um stjórnarkosningar stefnda. Þá sé stefndi ekki aðili að ASÍ og því geti reglur sambandsins engin áhrif haft á stjórnarkosningu í félaginu.
Niðurstaða
Dómkrafa stefnanda samkvæmt stefnu er orðuð með svofelldum hætti: „Að niðurstöðu kjörstjórnar stefnda verði hnekkt þannig að hann fái full félagsréttindi til kosninga og kjörgengis við stjórnarkjör 2008.“ Dómkrafan er reist á þeirri málsástæðu að ákvörðun kjörstjórnar stefnda frá 11. febrúar 2008 hafi falið í sér neitun um full félagsréttindi stefnanda þannig að brotið hafi verið gegn 2. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Samkvæmt 16. gr. félagslaga stefnda frá 25. maí 2007 skal stjórn stéttarfélagsins kosin með listakosningu í allsherjar póstatkvæðagreiðslu. Í 17. gr. félagslaganna eru ákvæði um tilhögun á framboði til stjórnarkjörs. Í 18. gr. félagslaganna er fjallað um kjörstjórn, en hún skal m.a. sjá um framkvæmd stjórnarkjörs. Skal kjörstjórn láta útbúa kjörseðla og önnur kjörgögn og sjá um að kjörseðill, ásamt upplýsingum um hvernig kosning fer fram, sé sendur hverjum atkvæðisbærum félagsmanni. Þá er m.a. mælt svo fyrir að kjörstjórn úrskurði um réttmæti kjörskrár, telji atkvæði að lokinni kosningu og úrskurði um vafaatkvæði. Í niðurlagsákvæði 18. gr. félagslaganna er mælt svo fyrir að stjórnarkjöri ljúki 30. apríl. Í 19., 20. og 21. gr. félagslaganna eru síðan nánari ákvæði um framkvæmd kosninga.
Eins og fram er komið var stefnandi tilgreindur á lista til stjórnarkjörs í stefnda sem fram var borinn hinn 30. janúar 2008. Á listanum var Haukur Laxdal Baldvinsson einnig tilgreindur, en stefnandi og Haukur Laxdal höfðu óskað eftir því að vera færðir á kjörskrá stefnda við umrædda kosningu, sbr. beiðnir þeirra þar um, dags. 28. og 29. janúar 2008, jafnframt höfðu þeir óskað eftir því að sækja um félagsaðild að stefnda, sbr. umsókn stefnanda þar að lútandi, dags. 23. janúar 2008, og Hauks Laxdal, dags. 29. janúar 2008. Fallist var á félagsaðild beggja þessara manna. Hins vegar var beiðni stefnanda, um að vera færður á kjörskrá við umrædda kosningu, hafnað, en beiðni Hauks Laxdal Baldvinssonar tekin til greina, sbr. ákvarðanir kjörstjórnar hinn 11. febrúar 2008 sem stefnanda og Hauki Laxdal var tilkynnt um með bréfum, dags. sama dag, sbr. og skilabréf kjörstjórnar sem liggur fyrir í málinu. Í skilabréfinu er enn fremur greint frá afstöðu og afgreiðslu kjörstjórnar vegna framborinna lista. Var listi uppstillingarnefndar samþykktur. Hins vegar var listi greinds mótframboðs, er kom fram hinn 30. janúar 2008, ekki samþykktur. Sagði svo um það í ákvörðun kjörstjórnar, sbr. fyrrgreint skilabréf: „Kosningaréttur og kjörgengi fara saman. Listi mótframboðs fullnægir því ekki ákvæðum 16. og 17. gr. laga FS um fullskipaðan lista kjörgengra félagsmanna og telst því ólögmætur.“ Í samræmi við þetta fór kosning ekki fram og urðu þeir, sem skipuðu lista uppstillingarnefndar, sjálfkjörnir, sbr. 2. mgr. 19. gr. félagslaga stefnda. Er þetta staðfest með framlögðu bréfi kjörstjórnar til aðalfundar stefnda, dags. 23. maí 2008.
Ljóst er af málsatvikum og málatilbúnaði stefnanda að dómkröfunni er sér í lagi beint að þeirri ákvörðun kjörstjórnar stefnda að hafna lista greinds mótframboðs við stjórnarkjör í stefnda. Það stjórnarkjör er nú um garð gengið með því að listi uppstillingarnefndar var sjálfkjörinn. Við aðalmeðferð málsins kom fram af hálfu stefnda í málflutningi að stefnandi gæti ekki haft lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, eins og það lægi nú fyrir, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda væri um lögspurningu að tefla. Bæri því að vísa málinu frá dómi ex officio.
Þar sem dómkrafa stefnanda lýtur að félagsréttindum hans vegna stjórnarkjörs í félaginu, sem þegar hefur farið fram samkvæmt framansögðu, hefur stefnandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn dómkröfunnar, eins og hún er sett fram. Ber því að vísa máli þessu sjálfkrafa frá Félagsdómi með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Rétt þykir að málsaðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá Félagsdómi.
Málskostnaður fellur niður.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Ástráður Haraldsson