Nr. 602/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 19. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 602/2019
í stjórnsýslumálum nr. KNU19090021 og KNU19090022
Kæra […],
[…] og barns þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 10. september 2019 kærðu kona er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir K) og maður er kveðst heiti […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 20. ágúst 2019 um að synja kærendum og barni þeirra, […], fd. […], ríkisborgari Írak (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. október 2018. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 20. ágúst 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 10. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 24. september 2019 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd bárust viðbótargögn frá kærendum þann 26. september 2019. Kærendur komu til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála 28. nóvember 2019. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kærendum þann 3. desember s.á.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæpa í heimaríki.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu.
Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda er vísað til framburðar þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í viðtölunum hafi kærendur greint frá því að M hafi búið í […] og K í […] áður en þau hafi flúið heimaríki en bæði þorpin séu í Sulaymaniyah héraði. M hafi starfað fyrir Asayish fyrir PUK flokkinn en K hafi verið nemandi. Þá tilheyri þau þjóðarbroti Kúrda í heimaríki sínu. Um ástæður flótta kærenda hafi þau greint frá því að þau hafi neyðst til að flýja þar sem fjölskylda K hafi ekki samþykkt samband þeirra og þau hafi ákveðið að flýja þegar K hafi verið orðin þunguð. Kærendur hafi lýst viðbrögðum fjölskyldumeðlima K, m.a. því að bróðir K, sem starfi fyrir Peshmerga, hefði ráðist á M og veitt honum áverka sem hafi leitt til þess að hann hafi þurft að dvelja á sjúkrahúsi um tíma. Þá hafi faðir K ráðist að henni með líkamlegu ofbeldi og meinað henni að mæta í skólann vegna sambandsins. Kærendur hafi þrátt fyrir þetta hist á laun að næturlagi eitt sinn en sá fundur hafi orðið til þess að K varð þunguð. Þau hafi í kjölfarið ákveðið að flýja til […] til fjölskyldumeðlima M. Þar hafi þau dvalið í tíu daga. Á þeim tíma hafi trúarleiðtogi komið að dvalarstað þeirra og gefið þau saman á grundvelli trúarinnar. Kærendur hafi lýst því að fjölskyldumeðlimir M hefði ítrekað beðið um hönd K fyrir hans hönd en fjölskylda K hefði alltaf neitað enda hafi þau ekki viljað gifta hana utan ættarinnar sem sé valdamikil á svæðinu.
Kærendur hafi lýst því að þau óttist að vera tekin af lífi ef þau snúi aftur til heimaríkis. Þau geti ekki búið annars staðar og verið örugg enda myndi fjölskylda K hafa upp á þeim hvar sem þau væru. Þá óttist K að fjölskylda hennar myndi telja dóttur þeirra einskis virði og koma illa fram við hana.
Í greinargerð kærenda er fjallað um heiðursmorð á yfirráðasvæði Kúrda í Írak. Þar kemur fram að heiðurstengt ofbeldi sé algengt og hafi aukist á undanförnum árum. Heimildir beri með sér að ætla megi að tilvik séu á bilinu 300 til 600 á ári. Þá sé heiðursofbeldi gagnvart karlmönnum sérstaklega viðkvæmt mál og afar erfitt sé að finna heimildir um það. Kærendur vísa til skýrslu dönsku útlendingastofnunar frá nóvember 2018 um heiðurstengda glæpi í Kúrdistan. Í skýrslunni komi m.a. fram að heiðurstengdir glæpir hafi aukist töluvert á undanförnum misserum og séu ýmsar ástæður taldar liggja þar að baki, þ. á m. versnandi efnahagsástand í kjölfar átaka við ISIS. Auk þess sé talið að heiðurstengdir glæpir séu algengari en opinberar tölur segi til um enda sé töluverður misbrestur á að einstaklingar tilkynni slík brot af ótta við viðbrögð samfélagsins og fjölskyldunnar. Þá kveði írösk hegningarlög á um 10-20 ára fangelsisrefsingu en þrátt fyrir það þá hafi gerendur í heiðursmorðum verið dæmdir til mun vægari refsingar. Þá sé ljóst að heiðurslög ættbálka hafi mikið vægi í réttarkerfi Kúrdistan. Beri heimildir með sér að fjölskyldur kjósi gjarnan að jafna ágreining á ættbálkaþingum frekar en að fara með mál fyrir dómstóla vegna hættu á að kalla yfir ættina skömm ef samfélagið frétti af ágreiningnum. Þá beri heimildir með sér að lögregluyfirvöld rannsaki jafnvel ekki heiðurstengd mál þar sem þau séu álitin fjölskyldumál. Þá vísa kærendur til þess að þó svo að heimildir beri með sér að konur séu almennt líklegri til að verða fyrir heiðurstengdu ofbeldi, þá séu karlmenn það gjarnan líka. Þeir geti svo litla sem enga aðstoð fengið. Í fyrrgreindri skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar komi fram að karlmenn sem eigi í sambandi utan hjónabands séu almennt ekki álitnir sverta heiður fjölskyldu sinnar þrátt fyrir það séu menn undir þrýstingi að gifta sig í slíkum tilfellum og þá séu dæmi um að þeir séu myrtir.
Í greinargerð kærenda er fjallað um hagsmuni barns kærenda og vísað til réttar sem hún eigi að njóta samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu skuldbundin samkvæmt þjóðarétti að virða. Kærendur vísa til þess að dóttir þeirra sé rétt um 19 mánaða gömul og hafi verið á flótta utan heimalands allt sitt líf. Kærendur óttist mjög um líf fjölskyldunnar og mikilvægt sé að veita þeim vernd í öruggu umhverfi þar sem þau þurfi ekki að óttast frekari ofsóknir eða ofbeldi af hálfu fjölskyldu K.
Til stuðnings aðalkröfu sinni vísa kærendur til þess að þolendur eða hugsanlegir þolendur heiðursglæpa í Kúrdistan séu talin geta myndað tiltekinn þjóðfélagshóp í skilningi Flóttamannasamningsins, enda deili þeir sameiginlegum bakgrunni, sem ekki sé hægt að breyta, þ.e. að hafa stefnt heiðri fjölskyldu sinnar í hættu. Fjölskylda K hafi beitt kærendur ofbeldi og gefið það út að þau muni taka þau af lífi ef þau ná til þeirra. K tilheyri valdamiklum ættbálki á svæðinu, sem stjórni […], þorpinu sem þau búi í. M hafi nefnt að yfirvöld skipti sér ekki að einkamálefnum ættarinnar. Þau telji því útilokað að yfirvöld geti aðstoðað þau til langs tíma. Það að M hafi starfað fyrir Asayish breyti þar engu um. Þá verði að leggja til grundvallar að þeir sem kærendur óttist falli undir ákvæði a- og c- liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og að kærendur eigi ekki möguleika á vernd enda hafi yfirvöld hvorki getu né vilja til að veita þeim vernd sem þau þarfnast. Beri íslenskum stjórnvöldum samkvæmt því að veita kærendum vernd í samræmi við gerðar kröfur. Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins er gerð sú krafa til vara að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafi greint frá líkamlegu ofbeldi, svívirðingunum og hótunum sem þeim hafi borist frá fjölskyldu K. Með tilliti til landaupplýsinga sé ljóst að ekki sé unnt að gera ráð fyrir að þau muni njóta verndar yfirvalda í heimaríki gagnvart þeim. Þá hafi langvarandi stríðsástand ríkt í Írak allt frá því að Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust inn í landið í mars 2003. Opinberar tölur um mannfall og annað manntjón í Írak séu gríðarlega háar, yfirvofandi hætta á alvarlegum atvikum sé viðvarandi og möguleikar á vernd vægast sagt takmarkaðir. Kærendur telji sig ekki geta búið annars staðar í Írak og verið örugg enda gæti fjölskylda K haft uppi á þeim hvar sem er í landinu. Í greinargerð kærenda er fjallað um einstaklinga á flótta innanlands. Kærendur vísa til skýrslu Flóttamannastofnunar frá maí 2019 þar sem möguleiki á innri flutningi innan Kúrdistan séu mjög takmarkaður í ljósi þess hversu margir séu vegalausir á svæðinu. Með tilliti til ástandsins telji Flóttamannastofnun innri flutning í Kúrdistan almennt ekki tækan. Kærendur vísa til úrskurðar kærunefndar frá 22. nóvember 2018 í máli nr. 502/2018 þar sem fjallað hafi verið um innri flutning. Þar hafi meðal annars komið fram að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til Íraks, á grundvelli þess að viðkomandi eigi kost á innri flutningi í heimaríki, nema viðkomandi hafi sterk fjölskyldutengsl á nánar tilgreindu svæði og fjölskyldan sé í stakk búin til þess að styðja viðkomandi einstakling og hafi auk þess vilja til þess, sbr. skýrslu stofnunarinnar frá 12. apríl 2017.
Ljóst sé að kærendur óttist fjölskyldu K og M eigi ættingja í Erbil en kærendur telji ættingja hans ekki geta verndað þau gagnvart valdamiklum ættbálki ofsóknaraðila sinna. Þar með sé flutningur innan Írak hvorki raunhæfur né sanngjarn kostur fyrir kærendur.
Til þrautavara er gerð sú krafa að kærendum og barni þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða enda séu félagslegar aðstæður þeirra í heimaríki afar erfiðar. Kærendur telji að með því að senda kærendur til Írak sé brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Að auki myndi slík ákvörðun að mati kærenda brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Loks gera kærendur athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi er gerð athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um þá hættu sem M sé í vegna heiðursdeilu. Kærendur ítreka að karlmenn njóti takmarkaðrar verndar og auk þess hafi komið fram að upplýsingar um fjölda og nánari lýsing á heiðursmálum í Kúrdistan, séu af skornum skammti enda sé fólk ragt við að tilkynna slíkt til yfirvalda. Þá gera kærendur athugasemdir við trúverðugleikamat stofnunarinnar en í ákvörðuninni hafi þau talið ólíkindablæ vera á frásögn kærenda m.a. varðandi árás sem M varð fyrir af hendi bróður K og frásagnir af samskiptum kærenda. Að mati kærenda geri Útlendingastofnun óhóflegar kröfur um að kærendur leggi fram gögn til að sanna heiðursdeiluna.
Þá fjalli Útlendingastofnun í ákvörðun sinni um fyrri umsókn M um alþjóðlega vernd og gerir athugasemd við svör hans varðandi það atriði. M kveðst hafa skilið spurninguna um hvort hann hefði sótt áður um alþjóðlega vernd sem svo að verið væri að tala um hvort hann hefði sótt um vegna heiðursdeilu áður. Hvað sem því líði komi framburður hjá norskum stjórnvöldum fyrir níu árum ekki máli kærenda sem nú sé til meðferðar við á nokkurn hátt. Að mati kærenda skorti auk þess rökstuðning fyrir þeirri fullyrðingu að frásagnir varðandi heiðursglæpi séu ónákvæmar og tilviljanakenndar. Að lokum óska kærendur eftir að koma í viðtal hjá kærunefndinni í samræmi við 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur ekki lagt neitt fram sem væri til þess fallið að sanna á þeim deili. Leysti stofnunin því úr auðkenni kærenda á grundvelli mats á trúverðugleika. Í málinu hafi ekkert komið fram sem hafi gefið tilefni til að efast um að kærendur væru frá Kúrdistan í Írak auk þess sem þau tali og skilji sorani. Að teknu tilliti til þess, trúverðugleikamats, frásagnar kærenda var það mat Útlendingastofnunar að rétt væri að leggja til grundvallar að þau væru frá Sulaymaniyah í Kúrdistan. En þar sem kærendur hafi ekki lagt fram frumrit vegabréfs sé ekki hægt að staðfesta auðkenni þeirra. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kærenda og verður því lagt til grundvallar að þau séu írakskir ríkisborgari.
Réttarstaða barns kærenda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Anställning och avslutande av tjänst i peshmergan [Irak - KRI] (Migrationsverket, 30. júní 2017);
- Country Policy and Information Note Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
- Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, 19. nóvember 2018);
- Country Report on Human Rights Practices 2018 - Iraq (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (EASO, nóvember 2018);
- Kurdistan Region of Iraq (KRI): Women and Men in Honour-Related Conflicts (Danish Immigration Service, 9. nóvember 2018);
- Country Policy and Information Note, Iraq: Kurdish “honour” crimes (UK Home Office, ágúst 2017);
- Freedom in the World 2017 - Iraq (Freedom House, 2. júní 2017);
- International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
- Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information Report (EASO, 1. mars 2019);
- Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
- Irak: Basisinfo (Landinfo, 6. janúar 2016);
- Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
- 2018 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
- Kurdistan Region of Iraq (KRI) - Report on issuance of the new Iraqi ID card (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
- Northern Iraq - Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
- Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
- Thematic report: The Security Situation in Iraq-July 2016-November 2017 (version 4.0) (Migrationsverket, 18. desember 2017);
- The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitarian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016) og
- UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016).
Samkvæmt framangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.
Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.
Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd. Bera gögnin með sér að yfirvöld í Kúrdistan séu í stakk búin til að geta veitt fullnægjandi vernd en að aðgengi að réttarkerfinu geti þó verið háð ýmsum atriðum, svo sem trúarskoðunum, ættbálkastöðu og tengslaneti viðkomandi.
Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður- og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.
Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli Kúrda og stjórnvalda í Írak. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lúti sjálfsstjórn Kúrda. Þann 25. september 2017 hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa KRI að tilstuðlan forseta KRI þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis KRI. Íröksk stjórnvöld hafi mótmælt atkvæðagreiðslunni og hafi ekki viðurkennt niðurstöður kosninganna. Tæplega 93% kjósenda hafi kosið með sjálfstæði en fréttir hafi borist af því að minnihlutahópar á deilusvæðum hafi verið beittir miklum þrýstingi til að kjósa annaðhvort með eða á móti. Í kjölfar kosninganna hafi írakski stjórnarherinn tekið aftur stjórn yfir ytri landamærum Írak innan KRI og landsvæðum sem hafi verið undir stjórn kúrdískra yfirvalda frá árinu 2014, þ. á m. borgina Kirkuk. Þá hafi forseti KRI sagt af sér í nóvember 2017. Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í KRI en það séu PUK flokkurinn (e. The Patriotic Union of Kurdistan) og KDP flokkurinn (e. The Kurdistan Democratic Party). Í september 2013 hafi orðið talsverðar breytingar þegar PUK flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins Gorran (e. The Movement for Change). Í kosningum sem fram fóru þann 30. september 2018 hafi PUK flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og KDP flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í KRI. Samband PUK flokksins og KDP hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum.
Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu KRI. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Írakar tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði þolendur heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda enn fremur til þess að í Kúrdistan sé þekkt að konur séu neyddar í hjónabönd af ýmsum ástæðum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærendur byggja umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau hafi ástæðuríkan ótta við að verða þolendur heiðursglæpa af hálfu fjölskyldu K. Rekja megi ástæðu flótta kærenda til þess að samband þeirra hafi verið í óþökk fjölskyldu K og þegar K hafi orðið þunguð hafi þau ekki séð annan kost í stöðunni en að flýja heimaríki. Kærendur hafi ekki leitað til lögreglu þar sem ættbálkur K sé valdamikill og auk þess hafi lögreglan, að sögn kærenda, ekki afskipti af fjölskyldumálefnum sem þessum.
Kærendur hafa lýst ástæðum flótta síns í viðtölum hjá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Kærendur kváðu bræður K hafa ráðist á M og veitt honum áverka og K hafi verið beitt ofbeldi af föður sínum og meinað að fara í skólann. M hafi ítrekað reynt að sættast við fjölskyldu M og m.a. beðið um hönd hennar. Kærendur hafi flúið þegar þau hafi áttað sig á því að K væri þunguð. Þau hafi flúið til […] og gert lokatilraun til að ná sáttum áður en þau hafi lagt á flótta frá heimaríki. Í […] hafi þau gengið í hjúskap að trúarlegum sið en hjúskapurinn hafi ekki verið formlega skráður. Frásögn kærenda var í meginatriðum svipuð og almennt í samræmi við það sem fram kom í greinargerð og í viðtölum kærenda hjá Útlendingastofnun. Þá fær frásögn þeirra stuðning í skýrslum um heimaríki kærenda. Framangreind gögn um aðstæður í heimaríki kærenda bera með sér að heiðursglæpir séu vandamál í heimahéraði í Kúrdistan og hafi færst í aukana á undanförnum árum. Þó svo að kærendur hafi ekki lagt fram gögn sem hafi verulega þýðingu fyrir mál þeirra telur kærunefnd að frásögn þeirra sé trúverðug að því varðar meginatriði málsástæðna þeirra og í samræmi við upplýsingar frá heimaríki kærenda. Þrátt fyrir að frásögn þeirra sé ekki að öllu leyti sú sama telur kærunefnd að það ósamræmi varði ekki kjarna frásagnar kærenda og að skýringar þeirra á misræminu, sem komu fram í greinargerð og í viðtali hjá kærunefnd, vera fullnægjandi. Verður því byggt á því að kærendur hafi átt í sambandi án samþykkis fjölskyldu K og flúið heimaríki sitt af þeim sökum. Kærunefnd telur á grundvelli þeirrar frásagnar að kærendur hafi lagt nægan grunn að þeirri málsástæðu að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í formi heiðursglæpa af hálfu fjölskyldu K. Við það mat er litið til þeirra sönnunarkrafna sem gerðar eru við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og vísað er til að framan.
Kærendur greindu frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að aðstoða þá sem eigi á hættu á að verða þolendur heiðursglæpa. Sú frásögn er í samræmi við þau gögn sem kærunefnd hefur farið yfir um aðstæður í heimaríki kærenda. Að mati kærunefndar verður frásögn kærenda, af þeirri hættu sem þau kveða sig vera í af hálfu fjölskyldu K og að þeim sé ekki kleift að leita til yfirvalda í heimaríki eftir vernd, lögð til grundvallar.
Með hliðsjón af framburði kærenda telur kærunefnd að kærendur hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsótt vegna aðildar þeirra að tilteknum þjóðfélagshópi, þ.e. sem einstaklingar sem eigi á hættu að vera þolendur heiðursglæpa, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 3. mgr. og c-lið 4. mgr. 38. gr. sömu laga.
Með vísan til upplýsinga um heimaríki kærenda og þegar litið er til þeirra málsástæðna sem kærendur bera fyrir sig telur kærunefnd ekki ástæðu til að kanna möguleika þeirra á innri flutningi, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamenn hér á landi og eiga rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi skv. 40. gr. laganna, enda eru þau stödd hér á landi og falla ekki undir ákvæði 2. mgr. 40. gr. sömu laga.
Athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar
Kærunefnd telur að trúverðugleikamat Útlendingastofnunar sé haldið alvarlegum annmörkum.
Í gögnum málsins kemur fram að M hafi árið 2010 sótt um alþjóðlega vernd í Noregi og dvalið þar í eitt ár. Útlendingastofnun fjallar í ákvörðun sinni um fyrri umsókn M og gerir m.a. athugasemd við svör hans varðandi ýmis atriði. Hann hafi t. a. m. verið spurður hvort hanni hafi áður sótt um alþjóðlega vernd og svarað neitandi. Að mati stofnunarinnar var þetta talið rýra trúverðugleikamat frásagnar kærenda. Í greinargerð kærenda kvaðst hann hafa skilið spurninguna um hvort hann hafi áður sótt um alþjóðlega vernd sem svo að verið væri að tala um hvort hann hefði sótt um vegna heiðursdeilunnar áður. Af því tilefni óskaði kærunefnd eftir upptöku af viðtali við kærendur hjá Útlendingastofnun og þau gögn bárust nefndinni þann 9. desember sl. Eftir rannsókn kærunefndar á upptökunni og endurriti viðtals er það mat nefndarinnar að spurningin um hvort M hafi sótt um vernd áður hafi verið sett fram í samhengi við núverandi flótta. M hafi því útskýrt nægilega hvers vegna hann greindi ekki frá umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Noregi fyrir níu árum.
Á blaðsíðu 11 í úrskurði stofnunarinnar kemur fram það viðhorf stofnunarinnar að M hafi reynt að fela þá staðreynd að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í Noregi árið 2010. Þá segir í úrskurði stofnunarinnar:
Umsækjandi kvað í viðtali við stofnunina ekki hafa leitt hugann að því áður en heiðursdeilan kom upp að yfirgefa heimaríki sitt. Það að hann hafi gert það og reynt að fela þá staðreynd rýrir að mati Útlendingastofnunar trúverðugleika frásagnar hans í heild sinni og leiðir líkur að því að umsækjandi sé nú, líkt og áður að leita að betra lífi fyrir sig utan heimalands síns.
Hvað varðar þá fullyrðingu stofnunarinnar að M hafi sagst ekki hafa leitt hugann að því að yfirgefa heimili sitt áður en heiðursdeilan hafi komið upp þá telur kærunefnd ljóst að Útlendingastofnun hafi tekið ummæli M úr samhengi sínu, en af endurriti viðtalsins verður ekki annað ráðið en að M hafi verið að vísa til þess að hann hafði ekki í huga að yfirgefa heimaríki sitt þegar hann hafi flúið heimabæ sinn til […] árið 2017. Eftir yfirferð á upptökum og endurriti viðtals M hjá Útlendingastofnun er að mati nefndarinnar ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að stofnunin hafi slitið ummæli M úr samhengi í því skyni að skapa frekari vafa um trúverðugleika frásagnar hans.
Á blaðsíðu 9 í úrskurði stofnunarinnar segir:
Umsækjandi kvaðst hafa hitt stúlkuna í skólanum hennar í janúar/febrúar 2017 og kvað frændsystkini hennar sem voru í sama skóla hafa séð hann tala við stúlkuna og að þau hafi látið bræður hennar vita af því. Umsækjandi kvað bræður stúlkunnar hafa birst á staðnum fljótlega eftir að hafa heyrt af þessu og ráðist á umsækjanda fyrir utan skólann og kvað hann annan bróðurinn hafa stungið sig með hníf. Umsækjandi kvað þá hafa verið sér reiða fyrir að hafa verið að tala við stúlkuna og kvað það vera ástæðu árásarinnar. Umsækjandi kvað árásarmanninn hafa verið handtekinn í kjölfar árásarinnar og honum haldið í fangageymslu í viku.
Að mati Útlendingastofnunar er nokkur ólíkindablær á frásögn umsækjanda að þessu leyti. Umsækjandi kvaðst hafa hitt stúlkuna fyrir utan skólann hennar og kvað frændsystkini hennar hafi séð til þeirra. Þá hafi þau hringt í bræður stúlkunnar á stundinni sem hafi mætt á staðinn nánast samstundis enda kvað eiginkona umsækjanda í viðtali við Útlendingastofnun að hún og umsækjandi hafi einungis talað saman í nokkrar mínútur í umrætt skipti. Að mati Útlendingastofnunar er frásögn umsækjanda hvað varðar hina meintu árás á hann af hálfu bróður stúlkunnar ótrúverðug.
Að mati kærunefndar eru ekki forsendur til slíkrar niðurstöðu. Stofnunin hafði ekki upplýsingar um hve langur tími hafi liðið þar til hringt var í bræður K eða hversu lengi það hafi tekið þá að koma á staðinn. Þá hafði Útlendingastofnun ekki upplýsingar um hversu langt í burtu bræður K voru frá skólanum þar sem árás bræðranna á M hafi átt sér stað. Að mati kærunefndar er það augljóslega illa grundað að vísa til þessa atriðis til stuðnings niðurstöðu um að framburð M skorti trúverðugleika.
Þá taldi stofnunin kærendur ekki hafa gefið fullnægjandi skýringar á því hvers vegna fjölskylda K hafi neitað bónorði M þegar þau hafi fengið vitneskju um að K væri þunguð og tiltekur stofnunin sérstaklega að með því að heimila hjúskapinn hefði verið hægt að bjarga heiðri fjölskyldunnar. Kærendur hafi greint frá því að M og ættmenni hans hafi margsinnis reynt að nálgast fjölskyldu K án árangurs og að sáttir hafi ekki náðst. Kærunefnd telur að framburður M um að fjölskylda K hafi ekki viljað að hún giftist utan ættbálksins vera í samræmi við skýrslur um heimaríki þeirra. Kærunefnd telur því að stofnunin hafi ekki haft forsendur til að draga í efa skýringar M á andstöðu fjölskyldu K við hjúskap þeirra og að við þá niðurstöðu hafi verið litið framhjá skýrslum um heimaríki kærenda.
Kærunefnd telur þessa annmarka á trúverðugleikamati stofnunar vera verulega og til þess fallna að röng niðurstaða hafi fengist í mál kærenda. Kærunefnd brýnir fyrir stofnuninni mikilvægi þess að fylgja viðurkenndum viðmiðum trúverðugleikamats og að mat á málsástæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd fari fram eftir hlutlægum aðferðum.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnun og veita kærendum alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra eru felldar úr gildi. Kærendum og barni þeirra er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child are vacated. The appellants and their child are granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue them a residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.
Hjörtur Bragi Sverrisson Þorbjörg Inga Jónsdóttir