Framlög vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða rúmlega 1,7 milljarðar á árinu 2024
Framlög vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða á árinu 2024, þ.e. frá ágúst til desember, nema 1,725 ma.kr. Alþingi samþykkti í júní sl. breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 þar sem Jöfnunarsjóði var falið það hlutverk að úthluta framlagi til sveitarfélaga sem bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum.
Framlagið skiptist hlutfallslega á milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan. Miðað er við að framlagið greiðist mánaðarlega frá 1. ágúst 2024 til loka árs 2027 að undanskildum júlímánuði ár hvert, auk þess sem úthlutun framlagsins í ágústmánuði tekur mið af því að skólaárið hefst um miðjan mánuðinn.
Forsenda þess að til úthlutunar komi er að sveitarfélag bjóði nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir en útfærslan á því með hvaða hætti boðið er upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir er háð ákvörðun hvers sveitarfélags.
Ráðherra mun skipa starfshóp til leggja mat á nýtingu og áhrif framlags gjaldfrjálsra skólamáltíða. Starfshópurinn verður skipaður fulltrúa innviðaráðuneytisins, sem jafnframt verður formaður, fulltrúa mennta- og barnamálaráðherra og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en í júní 2026.