Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 26/2004

Þriðjudaginn, 9. nóvember 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Ásta S. Helgadóttir lögfræðingur.

Þann 2. júní 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 1. júní 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 12. mars 2004, um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

  

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Þegar við sóttum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði óskuðum við eftir því að tekið yrði tillit til þess að við höfðum nýlega verið í fæðingarorlofi og því voru viðmiðunartekjur okkar lægri en ella hefði verið. Á þetta sérstaklega við um B en einnig að nokkru leyti við um A. Lög um fæðingarorlof nr. 95/2000 virðast mjög skýr þegar kemur að því hvernig meta eigi tekjur og fyrir hvaða tímabil. Jafnframt er markmið laganna mjög skýrt og einnig virðist vera skýrt að foreldrar haldi ýmsum réttindum sínum á meðan þeir eru í fæðingarorlofi. Hins vegar virðist sem framkvæmd laganna stangist nokkuð á við bæði markmiðin og því að halda áunnum réttindum, að minnsta kosti í okkar tilfelli.

Úr lögum nr. 95/2000:

“2. gr. Markmið.

Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður. Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.”

Forsaga.

B var ráðin tímabundið haustið 2001 fram á sumar 2002. Fyrir árslok 2001 varð hún ófrísk að öðru barni okkar. Þegar ráðningartíma hennar lauk var hún ekki endurráðin enda stutt í fæðingu. Við ákváðum að B tæki 6 mánaða fæðingarorlof sem dreift yrði á 12 mánuði. Hún var því í fæðingarorlofi frá 2. ágúst 2002 til 2. ágúst 2003. A var í fæðingarorlofi frá 6. janúar 2003 til 6. mars 2003 enda var sjálfstæður réttur hans 2 mánuðir.

Eðlilega voru greiðslur til okkar reiknaðar skv. lögum um fæðingarorlof og námu 80% af meðallaunum.

Vorið 2003 gerðust þau ánægjulegu tíðindi að B varð aftur ófrísk af þriðja barni okkar sem síðan fæddist 17. febrúar sl. Hún var því ófrísk þegar fæðingarorlofi lauk þann 2. ágúst. Mjög erfitt var fyrir hana að fá vinnu, sérstaklega þar sem hún var ófrísk en hún er D að atvinnu og lítið um vinnu fyrir ólétta D. Hún var því atvinnulaus fram að fæðingu utan þess að hún lék í einni “óléttuauglýsingu” auk annars smáverkefnis. Þar sem hún hafði litla sem enga möguleika á launuðu starfi, eftir töku fæðingarorlofs og þar sem við höfðum ákveðið að hún yrði í heilt ár í fæðingarorlofi þá óskuðum við eftir að greiðslur úr fæðingarorlofssjóður tækju mið af þessum staðreyndum. Ekki var tekið tillit til þessara óska okkar og ekki verður séð að nein efnisleg umfjöllun hafi átt sér stað varðandi þessa ósk okkar. Við okkur blasir því eftirfarandi:

B sem hefur verið á vinnumarkaði í fjölda ára fór í fæðingarorlof 2. ágúst 2002 og dreifði greiðslum á 12 mánuði. Fékk hún þá greitt helming af 80% af tekjum sínum mánaðarlega. Þegar fæðingarorlofsgreiðsla er nú reiknuð út vegna þriðja barns eru reiknuð út 80% af 40% launum hennar. Ljóst er því að taka fæðingarorlofs og sér í lagi ákvörðun okkar um að dreifa því á 12 mánuði hefur haft í för með sér verulegan tekjumissi fyrir heimilið. Okkur var þetta engan veginn ljóst þegar við ákváðum fyrirkomulag fæðingarorlofs vegna barns okkar fædd árið 2002 og starfsmenn Tryggingastofnunar bentu okkur ekki á að með því að dreifa fæðingarorlofi á 12 mánuði þá værum við í raun að skerða réttindi okkar til greiðslna síðar meir úr sjóðnum verulega. Jafnframt má benda á að engar upplýsingar eru um afleiðingar þess á heimasíðu Tryggingastofnunar. Í þessu sambandi er rétt að benda á 14. gr. laganna en þar segir:

14. gr.Uppsöfnun og vernd réttinda

Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 6%. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð og greiðir þá Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti. Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.

Í greininni er fjallað um að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum og nefnd nokkur dæmi um slík réttindi. Þá segir í athugasemdum við frumvarpið þegar það var lagt fram eftirfarandi:

“Þá er tekið fram í frumvarpinu að þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi fæðingar- og foreldraorlofs skuli haldast óbreytt til loka orlofsins.” Þessi athugasemd á væntanlega við um 14. gr. Hugsunin virðist því almennt vera sú að taka fæðingarorlofs skerði ekki réttindi manna.

Fyrir utan skírskotanir til laga og athugasemda með frumvarpinu þá finnst okkur óeðlilegt að fæðingarorlofsgreiðsla sé reiknuð sem hlutfall af fyrir fæðingarorlofsgreiðslu. Ef það er gert er ljóst að foreldrar eru alls ekki að fá 80% af launum sínum eins og þau hafa verið og hefðu orðið ef foreldri færi ekki í fæðingarorlof. Útreikningur eins og viðhafður er í okkar tilfelli dregur úr möguleikum okkar til að taka fæðingarorlof og vinnur því gegn markmiði laganna.

Óskað er eftir að mál okkar verði tekið til kærumeðferðar á eftirfarandi grundvelli:

  1. Ekki hefur verið tekið neitt tillit til þess sem fram kemur á umsókn okkar og ekki verður séð að ósk okkar eða ábending hafi fengið neina efnislega meðhöndlun.
  2. Tryggingastofnun hafi vanrækt leiðbeiningarhlutverk sitt þegar við skipulögðum fæðingarorlof árið 2002.
  3. Útreikningur á fæðingarorlofsgreiðslu sem byggir á eftirfarandi reglu; 80% af 80% stríðir gegn markmiðum laganna og tryggir okkur ekki þau réttindi sem við töldum okkur hafa áunnið okkur með atvinnuþátttöku okkar síðustu árin. Þetta gildir jafnt um útreikning vegna B og A.
  4. Að lenging fæðingarorlofs hafi ekki þau áhrif að okkur sé refsað og möguleiki okkar til fæðingarorlofs í reynd skertur með því að reikna fæðingarorlofsgreiðslu til B sem 80% af helmingi af 80% fyrri launa hennar. Fyrri laun hennar fyrir töku fæðingarorlofs frá ágúst 2002 til ágúst 2003 verði notuð til útreiknings en ekki fæðingarorlofsgreiðslurnar, a.m.k. fyrir mánuðina desember 2002 til ágúst 2003.
  5. Að minnsta kosti verði fullar fæðingarorlofsgreiðslur árið 2003 notaðar til útreiknings fæðingarorlofsgreiðslna árið 2004 til B vegna þeirra mánaða sem hún var í fæðingarorlofi, þ.e.a.s. (80% af 80% en ekki 80% af 40%).

Ef ekki er hægt að taka tillit til athugasemda okkar að fullu eða verulegu leyti þá gæti það haft í för með sér að við óskum eftir breyttri tilhögun fæðingarorlofs sem fælist þá í því að B tæki einungis 3 mánaða fæðingarorlof með tilheyrandi röskum á brjóstagjöf og auknu álagi fyrir barn og móður sérstaklega en fyrri börn okkar tvö hafa verið á brjósti í 6-8 mánuði. Framkvæmdin eins og hún blasir við okkur getur því leitt til umtalsverðar röskunar á högum nýfædds barns okkar og fjölskyldunnar allrar.

Að lokum er þess farið á leit við úrskurðarnefndina að félagsmálaráðherra og /eða félagsmálanefnd verði gerð grein fyrir að lenging fæðingarorlofs hafi mjög neikvæð áhrif á tekjumöguleika foreldra eignist þeir börn með stuttu millibili. Reyndar þarf lenging fæðingarorlofs ekki aðkoma til svo að fæðing barna með stuttu millibili hafi neikvæð áhrif á tekjur umfram það sem eðlilegt er. “

 

Með bréfi, dags. 15. júní 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 29. júní 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 12. janúar 2004, sem móttekin var 13. janúar 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá 6. ágúst 2004 vegna væntanlegrar barnsfæðingar 6. febrúar 2004.

Með bréfi til kæranda, dags. 12. mars 2004, var honum af hálfu lífeyristryggingasviðs tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrá skattyfirvalda. Var útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðaður við tekjur kæranda tímabilið desember 2002 til nóvember 2003.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði.

Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Ef foreldri telur upplýsingar úr viðkomandi skrám ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Í 2. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. ffl. er að finna skýr fyrirmæli um það hvernig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skuli reiknaðar út. Útreikningur á greiðslum til kæranda var, í samræmi við ákvæði þessi, byggður á tekjum kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK tímabilið desember 2002 til nóvember 2003, eins og fyrr segir.

Þar sem enga heimild er að finna í lögum til að víkja frá framangreindri reglu 2. mgr. 13. gr. ffl. telur lífeyristryggingasvið að ekki sé heimilt að taka til greina ósk kæranda um að útreikningur fæðingarorlofsgreiðslna miðist við annað tímabil en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. Þá telur lífeyristryggingasvið ekkert fram komið í málinu þess efnis að ætla megi að upplýsingar úr skrám skattyfirvalda varðandi tekjur kæranda séu rangar. Því telur lífeyristryggingasvið í ljósi alls framangreinds að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 12. mars 2004, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í kæru sinni heldur kærandi því fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi vanrækt leiðbeiningarhlutverk sitt þegar kærandi skipulagði fæðingarorlof vegna barns sem fætt er árið 2002. Þessu er hér með hafnað af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og skal á það bent að stofnunin telur sig sinna þeirri leiðbeiningarskyldu sem á henni hvílir samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tryggingastofnun ríkisins telur sér ekki skylt að veita almennar upplýsingar um hvaða áhrif ákvarðanir um réttindi líðandi stundar geti haft á ófyrirséðan rétt foreldra til fæðingarorlofsgreiðslna síðar, enda má ljóst vera að vart er hægt að gefa svo víðtækar upplýsingar að þar væri með tæmandi hætti tekið á öllum ófyrirséðum atburðum. Á hinn bóginn hefur Tryggingastofnun ríkisins lagt sig fram um að veita almennar upplýsingar um rétt foreldra til fæðingarorlofsgreiðslna, svo og svara fyrirspurnum einstaklinga sem leitt hafa hugann að ókomnum atburðum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. júlí 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi vanrækt leiðbeiningarhlutverk sitt þegar kærandi skipulagði fæðingarorlof 2002. Samkvæmt 24. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er samkvæmt heimild í lögum 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal Tryggingastofnun ríkisins sjá til þess að allar upplýsingar um réttindi foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og til greiðslu fæðingarstyrks verði aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki talið að skortur á upplýsingum við töku fyrra fæðingarorlofs um rétt kæranda við aðstæður sem urðu við töku fæðingarorlofs 2003 feli í sér brot gegn ákvæði 24. gr. reglugerðarinnar.

Þá verður krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eigi byggð á því að foreldri hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi þjónustu hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá eða tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda, sbr. 3. mgr. 15. gr. ffl. Telji foreldri upplýsingarnar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar. Kærandi hefur ekki vefengt að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda séu réttar.

Barn kæranda er fætt 17. febrúar 2004. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá desember 2002 til og með nóvember 2003.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof heimila ekki að vikið sé frá reglu 2. mgr. 13. gr. laganna við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt því er eigi unnt að fallast á kröfu kæranda um breytingu á útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum til hans úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2004 er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2004 um að synja A um breytingu á útreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Ásta S. Helgadóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta