Hoppa yfir valmynd
20. desember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2004: Dómur frá 20. desember 2004

Ár 2004, mánudaginn 20. desember var í Félagsdómi í málinu nr. 10/2004.

                                                     

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands f.h.

Félags skipstjórnarmanna

(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Reykjavíkur vegna

Péturs Stefánssonar ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R

 

Mál þetta var dómtekið 30. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Lára V. Júlíusdóttir.

 

Stefnandi er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, kt. 520169-3509, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Félags skipstjórnarmanna, kt. 680104-2550, Borgartúni 18, Reykjavík.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Reykjavíkur, kt. 670269-5079, Neshömrum 2, Reykjavík, vegna Péturs Stefánssonar ehf., kt. 540202-2650, Dalvegi 26, Kópavogi.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að Pétur Stefánsson ehf., kt. 540202-2650, hafi brotið gegn ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands með því að greiða ekki Erni Stefánssyni, kt. 240359-2359, fyrrverandi skipstjóra á frystitogaranum Pétri Jónssyni RE-69, skipaskrárnúmer 2288, 80% af áætluðu aflaverðmæti frystitogarans, vegna veiðiferðar sem stóð yfir frá 6. júlí til 3. ágúst 2003, áður en næsta veiðiferð togarans hófst 9. ágúst 2003.

Að Pétri Stefánssyni ehf. verði gert að greiða Félagi skipstjórnarmanna févíti að fjárhæð 362.944 krónur samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem renni í félagssjóð Félags skipstjórnarmanna, vegna brots á ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningnum, með því að greiða ekki Erni Stefánssyni, kt. 240359-2359, fyrrverandi skipstjóra á frystitogaranum Pétri Jónssyni RE-69, skipaskrárnúmer 2288, 80% af áætluðu aflaverðmæti frystitogarans, vegna veiðiferðar sem stóð yfir frá 6. júlí til 3. ágúst 2003, áður en næsta veiðiferð togarans hófst 9. ágúst 2003.

Að Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Reykjavíkur vegna Péturs Stefánssonar ehf., verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda 

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Málavextir

Erni Stefánssyni var með bréfi, dags. 4. júlí 2003, sagt upp störfum skipstjóra á frystitogara stefnda, Pétri Jónssyni RE-69.  Ástæða uppsagnar var tilgreind óviðeigandi samskipti við áhöfnina sem meðal annars hafi leitt til uppsagna.  Vegna aðstæðna ákvað útgerðin að hann skyldi hætta störfum daginn eftir.

Örn taldi sér hafa verið vikið ólöglega úr skipsrúmi og krafði Pétur Stefánsson ehf. um skaðabætur vegna hinna fyrirvaralausu ráðningarslita með bréfi lögmanns hans, dags. 18. júlí 2003.  Gerð var krafa um bætur sem voru áætlaðar 5.000.000 króna með vísan til aflareynslu skipsins undangengna mánuði.  Veittur var frestur til uppgjörs til 28. júlí 2003.

Fyrirsvarsmenn Péturs Stefánssonar ehf. svöruðu ekki framangreindu innheimtubréfi Arnars Stefánssonar.  Var þá gefin út stefna í málinu 8. ágúst 2003 sem birt var fyrirsvarsmanni Péturs Stefánssonar ehf. 26. ágúst 2003.  Málið var síðan þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 10. september 2003.  Greinargerð af hálfu Péturs Stefánssonar ehf. var lögð fram 22. október 2003.

Hinn 15. ágúst 2003 greiddi stefndi Erni Stefánssyni 80% af áætluðum aflahlut vegna fyrstu veiðiferðar sem farin var á uppsagnarfresti hans, 700.000 krónur. Samkvæmt 1. ml. 2. mgr. gr. 9.17 í kjarasamningi aðila átti sú greiðsla að fara fram fyrir 9. ágúst 2003 er önnur veiðiferð á uppsagnarfresti hans hófst.        

Sættir náðust í máli Arnar Stefánssonar gegn Pétri Stefánssyni ehf.  Samkomulag varð um að fella málið niður en ágreiningur var um málskostnað og var ákvörðun um hann lögð í úrskurð dómsins.  Dómurinn úrskurðaði Erni Stefánssyni í hag og gerði Pétri Stefánssyni ehf. að greiða honum 186.750 krónur í málskostnað.  Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar Íslands.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 148/2004, Pétur Stefánsson ehf. gegn Erni Stefánssyni, sem kveðinn var upp 10. maí 2004, var úrskurði Héraðsdóms Reykjaness breytt á þann veg að talið var rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi.  Hins vegar var Erni Stefánssyni gert að greiða Pétri Stefánssyni ehf.  100.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.  Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar er tekið fram að stefna í héraði hafi verið gefin út degi áður en fyrsta greiðsla til stefnanda féll í gjalddaga, 9. ágúst 2003, og málið síðan verið höfðað 26. sama mánaðar og þar með eftir að stefndi hafi innt greiðsluna af hendi. Málarekstur stefnanda fyrir dómstólum hafi því ekki verið tímabær.

Með bréfi, dags. 12. maí 2004, krafði stefnandi stefnda um greiðslu févítis samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningi aðila með vísan til þess að fyrrgreindur dómur hafi staðfest brot stefnda gegn ákvæði greinar 9.17 í kjarasamningi aðila.  

Ágreiningslaust er að stefndi greiddi Erni Stefánssyni 80% aflahlutar vegna fyrstu veiðiferðar í uppsagnarfresti hans 15. ágúst 2003 eða 6 dögum eftir að næsta veiðiferð hófst.  Ágreiningur málsaðila lýtur hins vegar að því hvort þessi greiðsludráttur feli í sér slíkt brot á ákvæði í 1. málslið 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningi aðila að varði sektargreiðslu samkæmt grein 1.54 í kjarasamningnum.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum:

Erni Stefánssyni hafi fyrirvaralaust verið vikið úr starfi skipstjóra á frystitogaranum Pétri Jónssyni RE-69, 4. júlí 2003.  Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 148/2004, Pétur Stefánsson ehf. gegn Erni Stefánssyni, sem kveðinn var upp 10. maí 2004, hafi Pétri Stefánssyni ehf. borið að gera upp við Örn Stefánsson út uppsagnarfrestinn samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.  Þannig hafi Pétri Stefánssyni ehf. borið að greiða Erni Stefánssyni 80% af áætluðu aflaverðmæti frystitogarans vegna veiðiferðar sem stóð yfir frá 6. júlí til 3. ágúst 2003 í síðasta lagi 9. ágúst 2003 en þann dag hófst önnur veiðiferð togarans í uppsagnarfresti Arnar Stefánssonar.

Framangreind uppgjörsregla byggi á ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en þar segi:

“Áætla skal aflamagn eftir hverja veiðiferð og greiða 80% af áætluðu aflaverðmæti, áður en næsta veiðiferð hefst.”

Brot fyrirsvarsmanna Péturs Stefánssonar ehf. á þessu kjarasamningsákvæði sé óumdeilt og staðfest með framangreindum dómi Hæstaréttar.  Fyrirsvarsmenn Péturs Stefánssonar ehf. hafi að vísu borið því við að vegna aðstæðna á skrifstofu útgerðarinnar hafi greiðslur ekki verið inntar af hendi á réttum tíma.  Þau rök þyki hins vegar léttvæg í því ljósi að fyrirsvarsmenn Péturs Stefánssonar ehf. hafi ekki haft fyrir því að tilkynna Erni Stefánssyni um þann greiðsludrátt eða hafi, á annan hátt, gefið honum til kynna að til stæði að greiða honum laun í uppsagnarfresti.  Þvert á móti hafi fyrirsvarsmenn útgerðarinnar brotið gegn því ákvæði nefnds kjarasamnings sem kveði á um rétt skipstjórnarmanna til greiðslu kauptryggingar vikulega.  Örn Stefánsson hafi því, með réttu, staðið í þeirri trú að hann hefði verið tekinn af launaskrá hjá útgerðinni og að ekki stæði til að greiða honum skaðabætur vegna hins fyrirvaralausa brottreksturs.

Samkvæmt öllu framanreifuðu þyki því rétt að höfða mál þetta með kröfu um greiðslu óskerts févítis samkvæmt ákvæði greinar 1.54 í kjarasamningi aðila en þar segi orðrétt:

“Brot gegn samningi þessum varða sektum allt að kr. 300.057 er renni í félagssjóð viðkomandi félags.  Sektarupphæðin skal síðan hækka í hlutfalli við kaupgjalds- ákvæði samningsins.”

Við endurútgáfu kjarasamningsins milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafi gleymst að uppfæra ákvæði greinar 1.54, en févíti samkvæmt ákvæðinu nemi nú allt að 362.944 krónum.  Til stuðnings þeirri fullyrðingu er vísað til úrskurðar gerðardóms, samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001, sem kveðinn var upp 30. júní 2001.  Þannig segi undir lið 1 á bls. 21, að hámarksfévíti fyrir brot á samningnum hækki um 10% við gildistöku úrskurðarins 30. júní 2001.

Fyrir gildistöku framangreinds úrskurðar hafi verið í gildi kjarasamningur milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands frá árinu 1998.  Samkvæmt grein 1.53 í þeim samningi hafi févítið (sektir) numið 300.057 krónum.  Févítið hafi hækkað um 3,65% 1. janúar 1999, sbr. grein 1.08 í samningnum, eða í 311.009 krónur.  Með framangreindum úrskurði gerðardóms hafi févítisfjárhæðin hækkað um 10% frá 30. júní 2001 að telja eða í 342.110 krónur.  Samkvæmt úrskurðinum hafi févítið hækkað um 3% 1. janúar 2002 eða í 352.373 krónur og aftur um 3% 1. janúar 2003 eða í 362.944 krónur sem sé févítiskrafa þess máls.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísi út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.  Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm af hálfu stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, vegna Félags skipstjórnarmanna á hendur Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Reykjavíkur vegna Péturs Stefánssonar ehf.

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð upp með þeim hætti sem Félagsdómur hafi þegar dæmt í máli nr. F-15/2001, Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Bervíkur ehf.

Stefnandi kveðst aðallega byggja á ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Um málskostnað sé vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að févítisákvæði það sem krafa stefnanda byggi á hafi verið lengi í samningi aðila.  Því hafi aldrei verið ætlað að taka til dráttar á greiðslu fjárskuldbindinga, svo sem launaskulda, enda gengið út frá því að um innheimtu slíkra gildi almennar reglur um dráttarvexti og annað, verði þær ekki greiddar á gjalddaga.  Framkvæmd ákvæðisins sé í samræmi við það.  Engin dæmi séu um beitingu févítis í slíkum tilvikum né sé kunnugt um að kröfur þar um hafi áður verið settar fram. 

Stefndi hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt ákvæði 1. ml. 2. mgr. gr. 9.17 með því að greiða stefnanda 80% áætlaðs aflaverðmætis eins og þar sé kveðið á um.  Að stefndi hafi ekki innt greiðsluna af hendi á þeim gjalddaga, sem tiltekinn sé í ákvæðinu, áður en næsta veiðiferð hófst, þann 9. ágúst, feli einungis í sér greiðsludrátt af hans hálfu. Greiðslan hafi verið innt af hendi 6 dögum síðar, nánar tiltekið þann 15. ágúst 2003. 

Dráttur stefnda á að inna greiðsluna af hendi feli að mati stefnda ekki í sér brot á fyrrgreindum kjarasamningsákvæðum.

Stefndi byggir á því að greiðsludráttur stefnda geti ekki talist brot á kjarasamningi í skilningi greinar 1.54.  Stefndi hafi þegar uppfylt allar skyldur sínar samkvæmt kjarasamningi aðila.  Hinni umdeildi greiðsludráttur hafi verið óverulegur og hvorki bakað stefnanda tjón né verið til þess fallin að veikja kjarasamning aðila.  Þar við bætist að sektin, ef dæmd verður, sé í engu samræmi við brot stefnda.   

Vegna tilvísana stefnanda til annarra meintra brota stefnda á kjarasamningi aðila bendi stefndi á að endanlegt uppgjör vegna umræddrar veiðiferðar hafi farið fram 35 dögum eftir lok hennar og því í fullu samræmi við ákvæði 1. mgr. greinar 9.17.   

Þar sem Örn Stefánsson hafi ekki verið lögskráður á skipið á uppsagnarfresti sínum hafi ekki verið skylt að greiða honum kauptryggingu á uppsagnarfresti, sbr. grein 1.09 í kjarasamningi aðila.  Greiðsluháttur stefnda hafi því ekki falið í sér brot á kjarasamningi. 

Stefndi bendir á að krafa stefnanda sé fyrst höfð uppi í beinu framhaldi af áður greindum dómi Hæstaréttar vegna ágreinings aðila um greiðslu málskostnaðar fyrir héraðsdómi, og að því er marka megi af ummælum í stefnu, vegna innheimtukostnaðar í því máli.

Lækkunarkrafa stefnda sé byggð á því að aðeins sé um að ræða óverulegan greiðsludrátt af hans hendi.  Með tilliti til þess geti ekki komið til álita að stefndi greiði fullar fébætur, sbr. orðalag greinar 1.54. 

Málskostnaðarkrafan sé byggð á því að engin rök séu til málsóknar þessarar sem virðist ætlað að mæta kostnaði vegna innheimtuaðgerða í máli Arnars Stefánssonar sem honum hafi verið gert að bera sjálfur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 148/2004.    

Stefndi byggir einkum á kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Um málskostnað vísist til 65. gr. laga nr. 80/1938 og málskostnaðarákvæða í XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Dómkröfur stefnanda í máli þessu eru þær að viðurkennt verði að stefndi, Pétur Stefánsson ehf., hafi brotið gegn ákvæði 1. málsl. 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningi aðila með því að greiða ekki Erni Stefánssyni, fyrrverandi skipstjóra á frystitogara stefnda, Pétri Jónssyni RE-69, og félagsmanni í Félagi skipstjórnarmanna. 80% af áætluðu aflaverðmæti skipsins vegna veiðiferðar sem stóð yfir frá 6. júlí til 3. (sic) ágúst 2003 áður en næsta veiðiferð skipsins hófst hinn 9. ágúst 2003 og að stefnda verði gert að greiða Félagi skipstjórnarmanna févíti samkvæmt grein 1.54 í greindum kjarasamningi að fjárhæð 362.944 krónur vegna brots á hinu fyrrnefnda ákvæði kjarasamningsins um tímamörk uppgjörs hins tilgreinda hundraðshluta af áætluðu aflaverðmæti.

Fyrir liggur að Erni Stefánssyni var fyrirvaralaust vikið úr starfi skipstjóra á Pétri Jónssyni RE-69 frá og með 5. júlí 2003, sbr. uppsagnarbréf, dags, 4. júlí 2003, sem er meðal gagna málsins og gert var í Bay Roberts í Kanada. Lét Örn Stefánsson þegar af skipstjórn og var nýr skipstjóri ráðinn í hans stað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sbr. meðal annars launaseðla og skráningargögn, hófst umrædd veiðiferð hinn 6. júlí og lauk 7. ágúst 2003. Í stefnu virðist því lokadagur veiðiferðarinnar ekki rétt tilgreindur. Næsta veiðiferð skipsins hófst 9. ágúst 2003, sbr. meðal annars fyrirliggjandi skráningargögn, og er það óumdeilt. Þá er ágreiningslaust að uppgjör samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 1. málsl. 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningi aðila fór ekki fram fyrr en 15. ágúst 2003, með 700.000 króna greiðslu, sbr. fyrirliggjandi hreyfingalista fjárhagsbókhalds hins stefnda útgerðarfélags og yfirlit yfir hreyfingar á tilgreindum innlánsreikningi Arnar Stefánssonar.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að óumdeilt sé og staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. maí 2004 í málinu nr. 148/2004: Pétur Stefánsson ehf. gegn Erni Stefánssyni að hið stefnda útgerðarfélag hafi brotið gegn greindu ákvæði kjarasamningsins um uppgjör og því leiði af grein 1.54 í kjarasamningnum að beita beri févíti. Af hálfu stefnda er út af fyrir sig viðurkennt að dregist hafi fram yfir þann frest, sem tiltekinn sé í 1. málsl. 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningum, að efna greint uppgjör. Hins vegar geti þessi óverulegi greiðsludráttur ekki talist brot á á umræddum ákvæðum kjarasamningsins, þar á meðal í skilningi greinar 1.54,  svo sem nánar er rökstutt, meðal annars með vísan til þess að engin dæmi séu um beitingu févítis við slíkar aðstæður sem hér um ræðir.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningi aðila skal áætla aflamagn eftir hverja veiðiferð og greiða 80% af áætluðu aflaverðmæti áður en næsta veiðfierð hefst. Grein 1.54 í kjarasamningnum hljóðar svo: “Brot gegn samningi þessum varða sektum allt að kr. 300.057 er renni í félagssjóð viðkomandi félags. Sektarupphæðin skal hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins.” Frekari ákvæði eru ekki um sektir þessar í kjarasamningnum hvorki um beitingu þeirra almennt né með tilliti til  brota á einstökum ákvæðum samningsins. Ljóst er að greindar sektir eru í raun févíti sem fyrst og fremst er ætlað að tryggja samningsefndir.          Þegar litið er til málsatvika, sem varða einstaklingsbundið og tilfallandi tilvik vegna uppgjörs launa til Arnar Stefánssonar í kjölfar fyrirvaralausrar  uppsagnar hans úr stöðu skipstjóra og þess að um greiðsludrátt var að ræða, sem bætt var úr innan sex daga, verður ekki litið svo á að brotið hafi verið gegn 1. málsl. 2. mgr. greinar 9.17 í kjarasamningnum.  Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h.Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Reykjavíkur vegna Péturs Stefánssonar ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands f.h. Félags skipstjórnarmanna.                               

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta