Hoppa yfir valmynd
18. september 2019 Forsætisráðuneytið

817/2019. Úrskurður frá 10. september 2019

Úrskurður

Hinn 10. september 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 817/2019 í máli ÚNU 19010019.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 16. janúar 2019, kærði A afgreiðslu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum á beiðni hans um upplýsingar. Með erindi, dags. 15. desember 2018, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvaða atriði lög skilgreindu sem umferðarlagabrot. Í svari lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dags. 14. janúar 2019, kom fram að ekki væri talið að erindi kæranda heyrði undir upplýsingalög en var honum bent á að öll umferðarlagabrot væru tilgreind í umferðarlögum, nr. 50/1987. Finna mætti þau lög inni á vefsvæði Alþingis, www.althingi.is. Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi telji erindi sitt til lögreglunnar í Vestmannaeyjum vera upplýsingaskylt.

Í umsögn lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dags. 9. ágúst 2019, kemur fram að það sé mat hans að fyrirspurn kæranda varði hvorki tiltekið mál né tiltekin fyrirliggjandi gögn, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Lögreglustjóri telji ótækt að leggja í þá vinnu að útbúa gögn um það hvaða atriði umferðarlög skilgreini sem umferðarlagabrot, enda liggi skýrt fyrir í lögunum hvaða háttsemi teljist brot á þeim.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Beiðni kæranda lýtur ekki að tilteknum gögnum í fórum lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, heldur að leiðbeiningum um það hvaða athafnir lög skilgreina sem umferðarlagabrot. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir í sérstakri samantekt hjá lögreglustjóranum. Upplýsingalög leggja ekki þá skyldu á stjórnvald að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim er leitað. Kæranda var leiðbeint um að umbeðnar upplýsingar væru honum þegar aðgengilegar, sbr. 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga, í lagasafni sem aðgengilegt er á netinu.

Af framangreindu leiðir að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 16. janúar 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta