Hoppa yfir valmynd
21. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 293/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 293/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050065

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 8. maí 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. mars 2018, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 14. maí 2018. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 28. maí 2018.

Vegna beiðni um frestun réttaráhrifa lagði kærandi fram greinargerð til kærunefndar þann 28. maí 2018, ásamt fylgigögnum. Í kjölfar samskipta við kærunefnd óskaði talsmaður kæranda eftir endurupptöku málsins þann 30. maí sl. Var talsmanni veittur frestur til og með 4. júní 2018 til að leggja fram gögn eða koma á framfæri öðrum upplýsingum í málinu. Kærunefnd bárust engin frekari gögn eða upplýsingar.

Kærunefnd leggur þann skilning í erindi kæranda að krafa hans um endurupptöku máls hans sé byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskar kærandi eftir því að koma fyrir kærunefnd til að greina frá andlegri líðan sinni.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir kröfu sína á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi, við töku ákvörðunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi, ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga. Vísar kærandi sérstaklega til 10. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga en samkvæmt 10. gr. skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Kærandi telji að íslensk stjórnvöld hafi ekki sinnt þessari skyldu sinni m.a. þar sem kærandi hafi þegar fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Þýskalandi og að honum muni því að öllum líkindum verða umsvifalaust vísað til Pakistan. Þá hafi kærandi lýst því í viðtali hjá hjúkrunarfræðingi hér á landi að hann hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 4-5 árum í heimaríki en hann væri kominn yfir það. Málið sé mjög viðkvæmt fyrir kæranda og hann hafi því sagt hjúkrunarfræðingnum að hann væri kominn yfir ofbeldið sem hann hafi orðið fyrir. Umrædd frásögn kæranda hafi legið til grundvallar við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun og kærunefnd og frásögnin verið studd framlögðum sjúkragögnum. Telji kærandi ámælisvert að íslensk stjórnvöld hafi ekki rannsakað með ítarlegum hætti hvort hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna þessa. Kærandi krefjist þess að mál hans verði tekið upp aftur og fram fari ítarleg greining á þeirri alvarlegu stöðu sem hann sé í og þeim andlegu áhrifum sem þetta hafi á hans daglega líf. Kærandi telji sig í vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og heimilt sé því að víkja frá ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 8. maí 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Þýskalands bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 8. maí sl. ásamt þeim fylgigögnum sem bárust nefndinni. Eins og fram hefur komið byggir kærandi m.a. á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi ekki farið eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. gr. og 12. gr., við töku ákvörðunar í máli kæranda. Niðurstaða kærunefndar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að úrskurður var kveðinn upp. Vísað er til þess að ekki hafi verið nægjanlegt tillit tekið til þess að hann væri fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis og rannsókn á þeim andlegu afleiðingum sem ofbeldið hafi haft á hann hafi verið ábótavant.

Við meðferð máls kæranda fyrir kærunefnd hefur hann ekki lagt fram ný gögn eða nýjar upplýsingar með beiðni sinni um endurupptöku málsins. Þær málsástæður sem kærandi heldur fram í greinargerð sinni lágu þegar fyrir við töku ákvörðunar í máli kæranda. Það er mat kærunefndar í ljósi alls ofangreinds að þegar hefur verið tekin afstaða til þeirra málsástæðna og aðstæðna kæranda sem hann ber fyrir sig í máli þessu í úrskurði kærunefndar frá 8. maí 2018.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 8. maí 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.


 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Árni Helgason                                                                  Erna Kristín Blöndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta