Hoppa yfir valmynd
9. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra á Schengen fundi

Ráðherrar dóms- og innanríkismála funduðu innan hins hefðbundna Schengen-ráðs þann 8. desember. Á fundinum var farið yfir heildarstöðuna á Schengen-svæðinu, þ.e. innra öryggi svæðisins og stöðuna á ytri landamærum. Ráðherrar ræddu einnig brottvísunarmál og samvinnu við þriðju ríki í þeim efnum, mikilvægi lögreglusamvinnu og skilvirkar leiðir til að vinna gegn smygli á farandfólki. Á fundinum var einnig tekin afstaða til þess hvort veita ætti Króatíu, Rúmeníu og Búlgaríu fulla aðild að Schengen-svæðinu. Ísland auk annarra samstarfsríkja Schengen, hefur ekki kosningarétt innan ráðherraráðsins og sat því hjá þegar formleg atkvæðagreiðsla fór fram. Aðildarríkin öll komu sér saman um að veita Króatíu fulla aðild að Schengen-svæðinu frá og með 23. janúar 2023 en öðru máli gegnir um Rúmeníu og Búlgaríu sem fá ekki aðgang að sinni. Samstarfsríkjum Schengen, Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein var einnig boðið að sitja umræður ráðherra um útlendingamál og aðgerðir innan ESB vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd og ræddi m.a. við Ylvu Johansson, framkvæmdastjóra innanríkismála ESB og vakti athygli hennar á vaxandi fjölda umsækjenda um vernd á Íslandi sem hafa vegabréf útgefið af Venesúela. Jón ræddi einnig við Notis A. Mitarachi, ráðherra útlendingamála í Grikklandi um stöðuna þar í landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta