Hoppa yfir valmynd
28. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 306/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 306/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040022

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. apríl 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. júní 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 24. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. mars 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 9. apríl 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. maí 2018. Þann 21. júní 2018 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir í málinu. Í viðbótarathugasemdum óskaði kærandi eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann tilheyri minnihlutahópi […] í […], auk þess sem hann óttist almennt ástand í landinu.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar kæranda til Útlendingastofnunar, endurrita viðtala og annarra gagna málsins varðandi ástæður flótta hans. Fram kemur í greinargerð til Útlendingastofnunar að kærandi sé fæddur í borginni […] í […]. Kærandi hafi búið þar ásamt ömmu sinni og afa til átta ára aldurs en þá hafi þau flúið land til […] vegna stríðsátaka og stjórnmálaskoðana og mannúðarstarfs afa kæranda. Kærandi hafi ungur flutt til ömmu sinnar og afa og hafi lítil tengsl við foreldra sína og systkini. Fjölskyldan hafi gert tvær tilraunir, árin 2006 og 2007, til að flytja aftur til heimaborgar sinnar en hafi þurft að snúa aftur til […] í bæði skiptin vegna hættulegs ástands í heimaríki. Kærandi hafi orðið fyrir sprengjubroti og fengið byssuskot í fótlegginn í heimaríki í framangreindum tilraunum til að snúa aftur. Kærandi hafi búið og starfað í […] en flutt til Íslands til að stunda nám í [...] árið 2016. Á meðan á námi hans hér á landi hafi staðið hafi dvalarleyfi kæranda í […] fallið úr gildi og því geti hann ekki snúið aftur þangað. Kærandi geti ekki snúið aftur til heimaríkis vegna ótta við ofsóknir og illa meðferð í því ótrygga ástandi sem ríki í […].

Í greinargerð kæranda er fjallað með almennum hætti um ástand mannréttindamála í […]. […]. Fram kemur í greinargerð kæranda að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvetji ríki til að snúa ekki […], sem komi frá svæðum sem séu undir áhrifum stríðsátaka, teljist óörugg eftir að hafa verið leyst undan stjórn […] eða séu undir stjórn […], aftur til heimaríkis gegn vilja sínum. […]

Byggt er á því í greinargerð kæranda að hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarbragða sinna, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri minnihluta […] í […]. Minnihlutinn sæti mismunun og grimmdarverkum af hálfu meirihlutans. Enn fremur eigi […]á hættu áreiti öryggissveita og lögreglu en slík löggæsluyfirvöld séu að mestu skipuð […]. Ljóst sé að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu […] meirihlutans, bæði af hálfu borgara, vopnaðra sveita og löggæsluyfirvalda. Vegna stöðu fyrrum heimaborgar kæranda, […], sem vígis […] og skotmarks hryðjuverkahópa, verði að telja að […] séu þar líklegri en annars staðar í landinu til að verða fyrir ofsóknum. Þá er jafnframt byggt á því að kærandi eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sbr. 1. mgr. 37. gr. og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi mestan part ævi sinnar verið búsettur í […] í […] sem séu […] ríki. Kærandi hafi greint frá því að vitneskja […] í […] um þessa staðreynd sé til þess fallin að skapa sérstaka tortryggni í hans garð. Auk þess að hafa búið í […] nær allt sitt líf beri kærandi augljós merki um að vera vestrænn í lífsviðhorfum og framkomu sem telja verði að sé til þess fallið að skapa aukna tortryggni í hans garð. Að teknu tilliti til framangreinds sé jafnframt um að ræða samsafn athafna sem hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling og alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Þá kemur fram í greinargerð að í hinni kærðu ákvörðun leggi Útlendingastofnun ekki nægjanlegt mat á persónulegar aðstæður kæranda. Stofnunin byggi ákvörðun sína á því að almennt verði […] ekki fyrir ofsóknum og virðist líta svo á að persónulegar aðstæður kæranda geri það ekki að verkum að hann eigi hættu á að verða fyrir ofsóknum. Byggt er á því af hálfu kæranda að mat á persónulegum aðstæðum beri að framkvæma með það í huga hvort persónulegar aðstæður geri það að verkum að […] geti aðstæðna sinna vegna forðast ofsóknir, t.d. með vernd ættbálks, stjórnmálatengslum eða á annan hátt. Persónulegar aðstæður kæranda kunni að gera hann tortryggilegri í augum þeirra sem ofsæki […] og aukið líkur á að hann verði fyrir ofsóknum. Með því að senda kæranda til […] yrði brotið gróflega gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þar sem kærandi óttist yfirvöld í […] sé ljóst að hann geti ekki leitað til þeirra um vernd. Löggæsluyfirvöld séu að yfirgnæfandi meirihluta skipuð […]. Þá hafi þau hvorki getu né vilja til að veita […] vernd og þvert á móti hafi öryggissveitir og lögregla beitt […] mismunun og illri meðferð. Kærandi eigi ekki aðild að ættbálki sem geti gætt hagsmuna hans og veitt honum vernd, þvert á móti hafi öll fjölskylda hans flúið land. Þá hafi kærandi engin stjórnmálatengsl og hafi í raun engin tengsl við landið.

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar byggi að svo verulegu leyti á rangri notkun heimilda að hún sé haldin annmörkum og í andstöðu við rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga. Gerð er alvarleg athugasemd við notkun Útlendingastofnunar á skýrslum innanríkisráðuneytis Bretlands, United Kingdom Home Office. Trúverðugleikamatið sem og niðurstöður hinnar kærðu ákvörðunar í heild virðist nær eingöngu byggðar á tilvísunum til skýrslu ráðuneytisins sem beri heitið […] frá júní 2017. Í skýrslunni sé að finna leiðbeiningar eða viðmiðunarreglur en Útlendingastofnun vísi til þeirra eins og um staðreyndir sé að ræða. Niðurstaða trúverðugleikamats Útlendingastofnunar sé að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir í heimaríki sínu né alvarlegum skaða í átökum. Tilgangur trúverðugleikamats sé ekki að komast að niðurstöðu um hvort ótti kæranda við ofsóknir sé ástæðuríkur heldur sé það hluti af umfjöllun um 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og þurfi að byggja á sjálfstæðu mati Útlendingastofnunar á hlutlægum og áreiðanlegum landaupplýsingum.

Varakrafa kæranda um viðbótarvernd er byggð á því að kærandi sé flóttamaður skv. skilgreiningu 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi því rétt á að hljóta vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laganna. Ljóst sé að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að þar sem hann sé […] með engin tengsl við landið eigi hann á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur til heimaríkis. Þá eigi síðari hluti ákvæðisins augljóslega við í málinu. Í greinargerð er mati Útlendingastofnunar á öryggisástandinu í […] mótmælt. Samkvæmt ferðaleiðbeiningum breska utanríkisráðuneytisins sé héraðið í hópi þeirra svæða í […] sem ráðuneytið mæli gegn öllum ferðalögum til. Héraðið sé jafnframt eitt þeirra svæða sem hin nýju hryðjuverkasamtök […] hafi látið til sín taka nýlega. Þá séu […] í meirihluta í […] og fari með öll völd þar og upplýst hafi verið um fjölda grimmdarverka í garð […] á svæðinu. Ástandið sé enn verulega óstöðugt og þar eigi sér stað hryðjuverkaárásir og átök enn þann dag. Enn fremur séu […] þar enn að störfum og samkvæmt heimildum sé borgin […] talin sérstakt skotmark þeirra og annarra hryðjuverkahópa. Þá er bent á að skv. 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga beri íslenskum stjórnvöldum við framkvæmd málsmeðferðar í málum um alþjóðlega vernd að eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, m.a. um framkvæmd og túlkun þess samnings og laganna. Í ljósi framangreindrar afstöðu Flóttamannastofnunar um endursendingar […] hefði Útlendingastofnun verið rétt að leita til Flóttamannastofnunar um mat á því hvort héraðið sem Útlendingastofnun hygðist senda kæranda til teljist til þeirra svæða sem Flóttamannastofnun leggist gegn endursendingum til. Hið sama eigi við um kærunefnd útlendingamála.

Þrautavarakrafa kæranda byggir á því að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggur að í […] ríki langvarandi stríðsástand og þar eigi sér stað viðvarandi mannréttindabrot sem yfirvöld verndi þegna sína ekki gegn. Raunar séu yfirvöld, öryggissveitir og lögregla völd að slíkum brotum. Kærandi hafi ekkert fjölskyldunet í […] og engin tengsl við sinn fyrrum heimabæ. Hann eigi hvorki eignir né réttindi sem gætu gert honum kleift að hefja þar nýtt líf auk þess sem menntun hans sé þess eðlis að hún muni ekki nýtast honum í […]. Kærandi tilheyri minnihlutahópi […] sem séu þolendur mismununar og illrar meðferðar af hálfu […] meirihlutans. Kærandi myndi vekja tortryggni í sinn garð vegna tengsla hans við […] borgina […] auk þess sem hann sé áberandi vestrænn í lífsviðhorfum og framkomu sem gæti skapað honum óvild. Hann eigi því á hættu ofsóknir og skaða í átökum og yfirgnæfandi líkur séu á að hann stæði frammi fyrir félagslegri útskúfun yrði honum gert að snúa til […].

Í greinargerð er vísað til 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fjallað er um innri flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd í heimaríki. Við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands skuli m.a. hafa til hliðsjónar leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en í leiðbeiningunum segi að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingur sé ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Við mat á því þurfi m.a. að skoða fyrri sögu um ofsóknir sem einstaklingurinn hafi orðið fyrir og hvort grundvallarmannréttindi séu virt í landinu. Þá sé hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands, skv. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, ekki meginregla í alþjóðlegum flóttamannarétti. Í tilvikum þar sem stjórnvöld séu valdur að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Í apríl 2018 hafi verið talið að rúmlega […] milljónir manna hafi verið á flótta innanlands í […]. Fólk á flótta lendi í alvarlegum vandamálum tengdum öryggi sínu og mæti hindrunum við að flytja á milli staða og áreitni og ógnunum á vissum svæðum. Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar séu talin upp svæði sem óhæf séu til innri flutnings en um sé að ræða […]. Flótti frá […] geti því ekki talist raunhæfur kostur. Þá sé flótti til […] erfiðleikum bundinn þar sem íbúar […] utan […] þurfi sérstaka áritun til að ferðast þangað. Auk þess eigi […] ekki vísan stuðning […], þrátt fyrir að í […] sé meirihlutinn […], enda af öðru þjóðarbroti. Flutningur innan […] sé því hvorki raunhæfur né sanngjarn kostur fyrir kæranda.

Þann 21. júní 2018 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir í máli kæranda. Í athugasemdunum eru raktar nýjar heimildir varðandi ástand mannréttindamála í heimahéraði kæranda. Greint er frá því að eftir að greinargerð kæranda hafi verið skilað hafi átök í heimahéraði kæranda haldið áfram. Vísað er til frétta frá […] fréttamiðlum þar sem greint er frá átökum sem hafi átt sér stað í heimahéraði kæranda […]. Þá er greint frá því að almennir borgarar, […], lögreglumenn og meðlimir öryggissveita hafi látið lífið í þessum átökum. Sé því hafið yfir allan vafa að allt héraðið […], þ.m.t. […], falli undir afstöðu Flóttamannastofnunar um bann við endursendingu […] til svæða í […] sem séu undir áhrifum af stríðsátökum, teljist óörugg eftir að hafa verið losuð undan stjórn […] eða séu undir stjórn […]. Þá er í viðbótarathugasemdum kæranda vakin athygli á því að mat Útlendingastofnunar á öryggisástandinu í […] í hinni kærðu ákvörðun sé í mótsögn við upplýsingar sem Útlendingastofnun hafi byggt á í nýlegum ákvörðunum. Af hálfu kæranda er því haldið fram að um augljóst misræmi sé að ræða og brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga auk 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá er vísað til skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 31. maí 2018 þar sem fram komi að átök á milli ættbálka hafi komið í veg fyrir að vegalaust fólk geti snúið aftur til sinna fyrri heimkynna einkum vegna mismununar sem byggist á ætluðum stuðningi við öfgahópa. Í […] héraði séu dæmi um að í slíkum tilvikum hafi fólk verið beitt refsingum og vopnahópar hindri fólk í að snúa aftur til héraðsins. Því sé ljóst að kærandi myndi standa frammi fyrir alvarlegum hindrunum við að snúa aftur til heimahéraðs síns og kærandi hafi ekki tengsl við önnur svæði. Þau svæði sem […] hafi lagt undir sig séu svæði þar sem […] séu í meirihluta en samkvæmt afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna skuli ekki endursenda fólk til slíkra svæða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: […]

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann tilheyri minnihlutahópi […] í […], auk þess sem hann óttist almennt ástand í landinu. Þá sé hann jafnframt í hættu í heimaríki þar sem hann hafi dvalið mestan part ævi sinnar í […] og sé því frábrugðinn öðrum íbúum í […]. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, þann 24. janúar 2018, greindi kærandi frá því að hann beri ekki traust til yfirvalda í heimaborg sinni þar sem valdamenn í borginni séu […] og þeim sé sama um íbúa borgarinnar. Þá hafi kærandi fengið sprengjubrot í brjóstkassann í heimaríki árið […] og árið á eftir hafi hann orðið fyrir byssuskoti í heimaríki þegar hann hafi gengið fram á átök uppreisnarmanna og […] hermanna úti á götu. Að sögn kæranda er hann hvergi öruggur í […]. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann hafi ekkert fjölskyldunet í […] og engan samastað.

Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til […] sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa, þar sem ástandið er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn […], eða þeim svæðum þar sem […] er enn við völd, sbr. skýrsla stofnunarinnar […]. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan […]. Fram hefur komið í málinu að kærandi sé upprunninn frá héraðinu […] sem er staðsett […] og að heimabær kæranda sé […]. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér, […], má ráða að frá árinu […] hafi […] náð yfirráðum yfir stórum landssvæðum í […]. Samtökin frömdu ýmis hryðjuverk í […]. […] stjórnvöld hafa á síðustu árum náð góðum árangri í að ná aftur stjórn landsins en af gögnum má þó ráða að aðstæður í […] séu enn ótryggar, […]. Í héraðinu eru viðvarandi átök milli öfgahópa og yfirvalda […]. Þá er jafnframt til staðar hætta í héraðinu vegna sprengjuleifa úr stríði auk þess sem miklar skemmdir hafa orðið á innviðum samfélagsins s.s. á drykkjarvatni, rafmagni, vegum og skólum. Þá eru aðstæður í nágrannahéruðum […] einnig ótryggar auk þess sem mikill fjöldi […] er á flótta í […] og héruðunum í kring.

Framangreind gögn benda til þess að íbúar […] eigi á hættu að verða fyrir áreiti eða árásum m.a. vegna pólitískra skoðana, trúarbragða og uppruna. Dæmi eru um að […] verði fyrir mannréttindabrotum af hálfu sjálfstæðra hersveita og öfgahópa. Brotin felast m.a. í ofbeldi, eignaspjöllum og frelsissviptingum auk þess sem mannrán og aftökur hafa átt sér stað. Þá herma heimildir að hersveitir á vegum stjórnvalda brjóti í einhverjum tilvikum réttindi almennra borgara í héraðinu. Af gögnum verður jafnframt ráðið að samfélagslegur þrýstingur sé á íbúum […] að fylgja íhaldssömum gildum, m.a. varðandi útlit. Einstaklingar verða fyrir mismunun, aðkasti og ofbeldi eða séu jafnvel teknir af lífi af öfgahópum fyrir þær sakir einar að fylgja ekki gildum samfélagsins varðandi útlit og háttalag.

Kærandi hefur lýst aðstæðum í heimaríki og ástæðum þess að hann geti ekki snúið þangað í viðtali hjá Útlendingastofnun, greinargerð sinni til kærunefndar og viðbótarathugasemdum við greinargerð. Framburður kæranda varðandi aðstæður í heimaríki fær stuðning í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér en gögn málsins benda m.a. til þess að […] eigi erfitt uppdráttar í […] og geti átt á hættu að verða fyrir ofsóknum, þ. á m. í heimahéraði kæranda. Þá eru aðstæður í heimahéraði kæranda enn óöruggar eftir að það hafi verið undir stjórn öfgasamtaka auk þess sem einstaklingar af ýmsum þjóðfélagshópum eiga á hættu að verða fyrir áreiti á grundvelli stöðu sinnar í […]. Kærunefnd telur, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki sínu, sbr. 1. mgr. 37. gr. Kærunefnd hefur við það mat haft til hliðsjónar að það áreiti sem kærandi eigi á hættu að verða fyrir samanstandi af endurteknum athöfnum sem líklegar eru til að gera líf kæranda óbærilegt í heimaríki.

Kærunefnd telur ástæðuríkan ótta kæranda við ofsóknir vera á grundvelli trúarbragða hans og ætlaðra tengsla hans við öfgahópa, sbr. b og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Við það mat hefur kærunefnd einnig litið til þess að hann hefur ekki fjölskyldunet eða annars konar stuðningsnet í […] og að litið verði á hann sem aðkomumann í […] vegna langrar fjarveru frá heimaríki. Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimaríkis síns en hann flúði frá, viðkomandi geti ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt leiðbeiningum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Guidelines on International Protection dags. 23. júlí 2003, um slíkan innri flutning er almennt ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur flytji sig um set innan síns heimalands til að draga úr hættu á ofsóknum þegar aðilinn sem valdur er að ofsóknum er á vegum stjórnvalda. Í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um útlendinga koma fram sambærileg sjónarmið. Kærunefnd telur því að flutningur innan […] sé ekki raunhæf lausn í máli kæranda þar sem það séu m.a. aðgerðir og afstaða stjórnvalda sem valdi því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Þar að auki er ólíklegt að innri flutningur myndi leysa vandamál kæranda þar sem gögn málsins benda til þess að […] eigi á hættu ofsóknir víða í […]. Þá er, að mati kærunefndar, ekki hægt að gera þær kröfur til kæranda að hann setjist að í nágrannahéruðum […] enda eru aðstæður þar ótryggar líkt og áður kom fram. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má jafnframt ráða að flótti innanlands sé algengur í […] og afleiðing þess er mikill fjöldi vegalausra ríkisborgara í landinu sem búi við slæman kost. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að endursenda ekki […] ríkisborgara til […] sem koma frá hernumdum svæðum, svæðum sem eru enn viðkvæm eftir að hafa verið undir stjórn […] eða eru enn undir stjórn […] sbr. skýrsla stofnunarinnar […]. Þá telur stofnunin jafnframt að það sé óviðunandi að ríki endursendi […] ríkisborgara sem eru frá slíkum svæðum á þeim grundvelli að þeir geti flutt sig um set í heimaríki eða flúið innanlands. Það er jafnframt afstaða Flóttamannastofnunar að ekki skuli endursenda einstaklinga til […], á grundvelli þess að viðkomandi eigi kost á innri flutningi í heimaríki, nema viðkomandi hafi sterk fjölskyldutengsl á nánar tilgreindu svæði og fjölskyldan sé í stakk búin til þess að styðja viðkomandi einstakling og hafi auk þess vilja til þess. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 24. janúar 2018 kom fram að allir í stórfjölskyldu hans séu flúnir frá […]. Einu ættingjar hans þar í landi séu tvær frænkur sem séu búsettar í […] en að sögn kæranda er hann í engum tengslum við þær.

Af áðurnefndri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 12. apríl 2017, má ráða að einstaklingar sem eru endursendir til […] geti komið til landsins í gegnum flugvelli þess, […] að því gefnu að þeir hafi tiltekin gögn. […] ríkisborgarar sem eru á leið til […] geta aflað nauðsynlegra gagna hjá […] sendiráðum. Á síðustu misserum hefur færst í aukana að yfirvöld í hverju héraði fyrir sig setji ströng skilyrði fyrir inngöngu og búsetu í héruðunum. Skilyrðin eru mismunandi eftir héruðum en algengt er að einstaklingar þurfi að gangast undir öryggisskimun og fá samþykki frá heimamönnum á endursendingarsvæði, þ. á m. hersveitum sem hafa yfirráð yfir svæðinu, yfirvöldum á svæðinu og ættbálkum auk þess sem einstaklingar þurfa í sumum tilvikum að hafa styrktaraðila í héraðinu. Til viðbótar framangreindum skilyrðum eru dæmi um að fólki sé hafnað um inngöngu á grundvelli sjónarmiða er lúta að þjóðerni, trúarskoðunum, uppruna og fjölskyldusamsetningu. Sjónarmiðin hafa mest áhrif á […] […] frá svæðum sem voru áður undir stjórn […] eða öðrum átakasvæðum og einstaklinga sem eru talin öryggisógn. Er þessum einstaklingum oft neitað um aðgengi eða búsetu á tiltölulega öruggum svæðum á grundvelli víðtækra og ómálefnalegra skilyrða. Þá hafa endursendingar í sumum landshlutum verið dregnar á langinn af yfirvöldum á grundvelli þess að yfirvöld þurfi fyrst að tryggja að svæðið sé öruggt og að þjónusta sé til staðar. Með vísan til framangreinds má draga þá ályktun að endursending kæranda til […] gæti verið töluverðum vandkvæðum bundin. Með vísan til alls sem að framan greinir er það mat kærunefndar að ótækt sé að byggja á því í málinu að kærandi geti hlotið raunverulega vernd í öðrum landshluta í heimaríki.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar byggi að svo verulegu leyti á rangri notkun heimilda að hún sé haldin annmörkum og sé í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þá kemur fram í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

[…] skiptist upp í […] héruð og af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að lífsskilyrði íbúa og aðstæður almennt geta verið afar mismunandi eftir héruðum. Þá getur staða tiltekinna þjóðfélagshópa verið ólík eftir landshlutum. Að mati kærunefndar er því mikilvægt að leggja mat á aðstæður í þeim landshluta sem senda á umsækjanda um alþjóðlega vernd til, en ekki eingöngu á aðstæður í landinu almennt, þegar teknar eru ákvarðanir er varða endursendingar til […]. Fær það jafnframt stoð í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá [...] 2016[…], þar sem fram kemur að við töku ákvörðunar um endursendingu til […] skuli fara fram greining á aðstæðum á því tiltekna svæði sem endursenda eigi einstakling til. Í hinni kærðu ákvörðun er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í […] og aðstæður […] í landinu. Sú umfjöllun er hins vegar yfirborðskennd þegar litið er til hversu flókið, breytilegt og viðkvæmt ástandið sé í landinu, sérstaklega fyrir […]. Því verður ekki séð að á rannsókn á aðstæðum í heimahéraði kæranda og stöðu […] í héraðinu hafi verið fullnægjandi. Kærunefnd telur því að sú rannsókn sem fram fór hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga eða 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta