Skólastúlkur fá ókeypis tíðavörur í Buikwe
Fimmtán hundruð skólastúlkur í Buikwe héraði, í grunn- og framhaldsskólum sem Íslendingar styðja í héraðinu, hafa fengið ókeypis tíðavörur og fræðslu um blæðingar, nú þegar skólar hafa verið opnaðir að nýju eftir lokun vegna COVID-19. Strákar í sömu skólum, skólayfirvöld, foreldrar og áhrifafólk í samfélaginu, hafa einnig fengið sambærilega fræðslu. Í dag, föstudaginn 28. maí, er alþjóðlegi „túrdagurinn“ – Menstrual Hygene Day.
Sendiráð Íslands í Úganda hefur á undanförnum árum átt í samstarfi við dönsku samtökin WoMena sem starfa meðal annars í Buikwe héraði að kynheilbrigðismálum. „Skólastjórnendur og samfélögin í héraðinu kunna vel að meta stuðninginn frá Íslandi við stúlkur um líffræði, tíðahringinn og hvernig eigi að bregðast við blæðingum. Stelpurnar eru ánægðar að geta verið í skólanum óháð því hvort þær eru á blæðingum eða ekki. Það styður markmið Íslands um árangur af stuðningi við menntun í Buikwer,“ segir í þakkarbréfi frá Womena til sendiráðsins.
„Blæðingahreinlæti og heilbrigði eru mikilvægir þættir í kynferðis- og frjósemisheilsu kvenna og stúlkna um allan heim. Ef þær hafa ekki aðgang að túrvörum eiga þær á hættu að fá sýkingar og sjúkdóma,“ segir í frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í tilefni dagsins.
„Aðgangur að túrvörum er mikilvægur til að tryggja velferð og jöfn tækifæri fyrir konur og stúlkur. Þetta snýst um mannréttindi,“ segir í fréttinni. Þar segir enn fremur að kona sé að meðaltali á blæðingum fimm daga af hverjum 28.
„Að meðaltali er kona á blæðingum í fimm daga af hverjum 28. Af þessum sökum varð 28. dagur maí mánaðar fyrir valinu sem Alþjóðlegi túrdagurinn. Íslenska heitið á „Menstrual Hygiene Day” kemur frá Landsnefnd UN Women á Íslandi. Markmiðið með deginum er að vinna gegn blæðingaskömm. Jafnframt að fræða jafnt karla sem konur um blæðingar og mikilvægi blæðingahreinlætis. Víða um heim hvílir bannhelgi á blæðingum. Sums staðar eru konur aðskildar frá öðrum á meðan á blæðingum stendur. Sumar stúlkur missa úr skóla. Margar konur og stúlkur missa af tækifærum og ná aldrei að njóta hæfileika sinna að fullu vegna blæðingaskammar."