Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 39/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 39/2018

Fimmtudaginn 26. apríl 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 31. janúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. janúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Kærandi hafði samband við nefndina og vísaði til skýringa sem fram komu í kæru. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. mars 2018, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun sem og upplýsingum um birtingu hinnar kærða ákvörðunar. Umbeðin gögn og upplýsingar bárust 28. mars 2018 og voru send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. apríl 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið á atvinnuleysisskrá á tímabilinu 1. febrúar til 12. mars 2014 og sinnt tilfallandi vinnu á sama tímabili. Í maí 2014 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun þar sem henni hafi verið tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna febrúar 2014. Stofnunin hafi vísað til þess að kærandi hafi ekki tilkynnt um tekjur vegna febrúarmánaðar sem sé ekki rétt. Þegar kærandi hafi staðfest atvinnuleit 21. febrúar 2014 hafi hún einnig gefið upp heildartekjur fyrir febrúarmánuð. Vinnumálastofnun haldi því fram að sú tilkynning sé vegna tekna í janúar en hún hafi hins vegar ekki verið á atvinnuleysisskrá á þeim tíma og því ekki haft neina ástæðu til að gefa upp tekjur fyrir þann mánuð. Í bréfi Vinnumálastofnunar komi hvorki fram upphæð skuldar né hvernig kærandi geti greitt hana. Kærandi hafi brugðist við erindinu með því að senda tölvupóst á uppgefið netfang þann 13. maí 2014 og ítrekunarpóst 11. júlí sama ár þar sem hún hafi ekki fengið svör við fyrri tölvupósti. Aldrei hafi borist svör frá Vinnumálastofnun vegna tölvupósta kæranda og að hennar mati sé um að ræða tómlæti af hálfu stofnunarinnar.

Kærandi tekur fram að fjórum árum síðar, eða í janúar 2018, hafi hún séð tvær gjaldfallnar kröfur í heimabanka sínum vegna framangreindrar ofgreiðslu á árinu 2014. Þá hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og fengið þær upplýsingar að innheimtubréf hafi verið birt inni á „Mínum síðum“ hjá stofnuninni þann 26. september 2017 eða rúmum þremur árum og sjö mánuðum eftir að kærandi hafi verið á atvinnuleysisskrá. Kærandi líti svo á að rafræn birting með þessum hætti, þ.e. einhverjum árum eftir að atvinnuleitandi hafi verið á skrá, brjóti gróflega gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í bréfi Vinnumálastofnunar frá 26. september 2017, sem kærandi hafi fyrst haft vitneskju um 23. janúar 2018, séu fyrstu upplýsingar sem hún hafi haft um ofgreiðslu atvinnuleysisbóta vegna mars 2014. Í skýringum sé tekið fram að ofgreiðslutímabilið sé 20. til 31. mars 2014 en þá hafi kærandi ekki verið á atvinnuleysisskrá og því ekki þegið bætur á þeim tíma. Þar sem kærandi hafi ekki haft vitneskju um rafræna birtingu eða stöðu mála fyrr en í janúar 2018 fái hún ekki lögboðinn 90 daga frest til að afla sér upplýsinga, gagna um málið né möguleika á andmælum áður en henni sé gert að greiða meinta skuld, áður en aðför verði gerð í eignum hennar. Kærandi vísar til þess að hún hafi greitt skuldina með fyrirvara vegna kærunnar. Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hafi aldrei svarað tölvupóstum kæranda frá árinu 2014 (tómlæti), rafræn birting innheimtubréf sé mörgum árum eftir að hún hafi verið á atvinnuleysisskrá (regla um meðalhóf) og þeirri staðreynd að málið sé orðið of gamalt til þess að hægt sé að endurbirta innheimtubréfið með löglegum hætti, líti kærandi svo á að stofnunin hafi fyrirgert rétti sínum til innheimtu. Málið sé í raun fyrnt og því beri Vinnumálastofnun að endurgreiða henni hina meintu skuld.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. september 2017 um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 31. janúar 2018. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 26. september 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi fyrst haft vitneskju um bréfið í janúar 2018. Kærandi líti svo á að rafræn birting mörgum árum eftir að hún hafi verið á atvinnuleysisskrá brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var hin kærða ákvörðun send á lögheimili kæranda í bréfpósti þann 26. september 2017 og birt á „Mínum síðum“ hjá stofnuninni sama dag. Að auki hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þann dag með upplýsingum um ný skilaboð á „Mínum síðum“. Með vísan til framangreinds gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta