Hoppa yfir valmynd
21. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölmennt kynnir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

María Hildiþórsdóttir framkvæmdastjóri Fjölmenntar og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri undirrita samninginn
María Hildiþórsdóttir framkvæmdastjóri Fjölmenntar og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri undirrita samninginn

Í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar hefur velferðarráðherra gert samning við Fjölmennt um að annast kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Fjölmennt hefur frá árinu 2011 starfrækt sem tilraunaverkefni. Árið 2011 fékkst  styrkur frá Progress áætlun Evrópusambandsins sem notaður var til að ýta verkefninu  „Sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“ úr vör. Samningur velferðarráðuneytisins og Fjölmenntar kveður á um framhald sendiherraverkefnisins og felur í sér að ráðuneytið styrkir verkefnið um þrjár milljónir króna árið 2012 og aðrar þrjár milljónir árið 2013.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er mannréttindasáttmáli sem var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 2007. Grunngildi samningsins eru virðing fyrir mannlegum margbreytileika og að allir eigi að hafa jöfn tækifæri. Kveðið er á um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins og bann er lagt við mismunun. Unnið er að því að innleiða sáttmálann hér á landi og hefur innanríkisráðuneytið forystu í þeirri vinnu.

Fjölmennt var stofnuð árið 2002. Menntamálaráðuneyti gerði þjónustusamning við Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands um rekstur símenntunarstöðvar fyrir fatlað fólk. Samkvæmt þjónustusamningnum hafði Fjölmennt tvíþætt hlutverk:  að sinna námskeiðhaldi fyrir fatlað fólk og að veita ráðgjöf til náms við aðrar menntastofnanir.

Árið 2010 var svo nýr þjónustusamningur undirritaður. Með nýjum þjónustusamningi breyttist hlutverk Fjölmenntar og er nú lögð meiri áhersla á ráðgefandi hlutverk stofnunarinnar. Áhersla er lögð á að styðja fatlað fólk til náms hjá öðrum fræðsluaðilum eða símenntunarstofnunum ásamt eigin námskeiðahaldi. Starfshættir stofnunarinnar hafa verið að þróast í átt að fyrirkomulagi annarra símenntunarstöðva.

Í allri stefnumótun Fjölmenntar er lögð rík áhersla á að fatlað fólk geti stundað símenntun til jafns við aðra þegna samfélagins og hjá sömu aðilum og veita fullorðnu fólki símenntun.

Á árinu 2012 gerði Fjölmennt samstarfssamninga við Mími - Símenntun og Námsflokka Reykjavíkur. Þessar fræðslustofnanir skipuleggja nú námskeið fyrir fatlað fólk. Samstarf þeirra hófst haustið 2012 og má gera ráð fyrir að námskeið fyrir fatlað fólk þróist með hliðsjón af starfsemi stofnananna í átt að því sem almennt tíðkast hjá símenntunarmiðstöðvunum.

Þannig má segja að hlutverk Fjölmenntar hafi breyst í samræmi við breyttar áherslur í málefnum fatlaðs fólks, það er að málaflokkurinn sé í meira mæli vistaður á sama stað og málefni annarra einstaklinga í þjóðfélaginu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta