Kvikmyndaiðnaðurinn samkeppnishæfur: Vinna hafin við endurskoðun laga um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur sett af stað vinnu við breytingar á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Verið er að setja saman starfshóp sem falið verður að vinna frumvarp til breytinga á lögunum.
„Ég mun óska eftir því að starfshópurinn leggi grunn að frumvarpi til breytinga á lögunum, í samræmi við þær áherslur sem koma fram í stjórnarsáttmála og Kvikmyndastefnu, og vonast til að geta kynnt frumvarpsdrögin í Samráðsgátt stjórnvalda í júlí á þessu ári,“ segir Lilja Dögg, menningar- og viðskiptaráðherra.
Kvikmyndagerð er og verður sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Ljóst er að tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hefur hún í för með sér fjölbreytta atvinnusköpun víða um land.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að efla samkeppnishæfni okkar á þessu sviði með frekari stuðningi:
„Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Stutt verður enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.“
Verkefni starfshópsins er að endurskoða endurgreiðsluhlutfall laganna og skoða útfærslur til hækkunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, auk annarra þátta. Brýnt er að öll viðmið séu skýr og gagnsæ þar sem einn helsti styrkleiki endurgreiðslukerfisins, í alþjóðlegum samanburði, hefur verið einfaldleiki þess og skýrleiki. Verkefni starfshópsins verður enn fremur að kanna nánar fyrirkomulag endurgreiðslna í nágrannalöndum og nýjustu þróun, m.a. út frá samkeppnishæfni og að horfa til Kvikmyndastefnu til 2030 og aðgerða hennar sem snúa m.a. að samkeppnishæfu endurgreiðslukerfi.