Hoppa yfir valmynd
6. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málefni aldraðra, nóvember 2010

Grein Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra.
Málefni aldraðra, 3. tölublað, 19. árgangur 2010.

Góðir lesendur.

Ritstjóri blaðsins kom að máli við mig og óskaði eftir því að ég skrifaði nokkur ávarpsorð til lesenda, ekki endilega eingöngu um málefni aldraðra heldur allt eins hugleiðingar um lífið og tilveruna. Hann nefndi einnig að þótt nú séu erfiðir tímar væri ekki úr vegi að líta á björtu hliðar tilverunnar.

Þessi ábending ritstjórans varð mér umhugsunarefni. Það er okkur öllum mikilvægt að líta á björtu hliðarnar. „Heimurinn hann gæti verið verri“ söng Stormsker eitt sinn og margt er til í því. Samfélagsumræðan eins og hún tíðkast nú virðist fremur til þess fallin að brjóta niður en byggja upp og henni þarf að breyta. Okkur er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og þess sem við viljum og ætlum að gera, til að byggja upp betra samfélag.

Vitanlega þurfum við að gera upp hrunið og skilja ástæður þess og afleiðingar. Að því er unnið en uppgjörið mun taka langan tíma. Það er hins vegar mikilvægt að fallast ekki hendur í skaut og bíða í aðgerðaleysi. Eins gengur ekki til lengdar að horfa sífellt til þess sem illa hefur gengið. Þegar við tölum um það sem aflaga fór megum við ekki festast í forarpytti þeirrar umræðu. Við þurfum að hafa stefnu og framtíðarsýn og einbeittan vilja til að breyta og bæta, vilja til að gera betur.

Stundum er sagt að fólk lifi upp í væntingar sínar. Ef við nálgumst fólk eða málefni með neikvæðum formerkjum og búumst sífellt við hinu versta erum við líkleg til að færa ekki neitt til betri vegar. Slík nálgun skemmir og brýtur niður í stað þess að byggja upp. Við þurfum ekki á slíku að halda. Við þurfum að leggja glímuna við fortíðina að baki, hana sigrar engin, ekki frekar en glímuna við Elli kerlingu. Við, á hvaða aldri sem við erum, getum hins vegar haft áhrif á framtíðina og það er fyrst og fremst undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst í þeirri viðureign.

Það eru stór verkefni framundan í velferðarmálum. Nú stendur yfir sameining félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins og til verður nýtt velferðarráðuneyti 1. janúar næstkomandi. Ég hef margoft rætt um þann ávinning sem ég sé af sameiningu ráðuneytanna tveggja. Eitt skýrasta dæmið er málefni aldraðra. Þrátt fyrir flutning ábyrgðar á málaflokknum frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins í janúar 2008 eru enn margir þættir í þjónustu við aldraða sem skarast og eru á gráu svæði milli ráðuneytanna. Að hluta til liggur þetta í eðlilegri verkaskiptingu ráðuneytanna, þrátt fyrir flutninginn, en hann tókst ekki heldur að öllu leyti sem skyldi.

Ábyrgð á heimahjúkrun er sem fyrr hjá heilbrigðisráðuneytinu, enda stóð ekki annað til þegar breytingin var gerð árið 2008. Á hinn bóginn er það enn svo að hluti hjúkrunarrýma er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins en önnur á ábyrgð félags- og tryggingamálaráðuneytis. Ég þykist vita að rekstraraðilar í öldrunarþjónustu hafi ekki farið varhluta af þeim vandamálum sem fylgja þessu skipulagi, sem og fólkið sem þarf á þjónustunni að halda. Þetta fyrirkomulag hefur valdið togstreitu milli ráðuneytanna og staðið heildstæðri skipulagningu málaflokksins fyrir þrifum.

Lengi hefur verið unnið að því að flytja ábyrgð á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Þessi áform verða að veruleika um áramótin. Undirbúningur og skipulagning tilfærslunnar hefur sannarlega tekið mikinn tíma, enda hafa margir hagsmunaaðilar sem að málinu koma þurft að ná sameiginlegri niðurstöðu í flóknum málum. Stefnt er að því að flytja einnig málefni aldraðra til sveitarfélaganna og augljóst að sú vinna sem fram hefur farið vegna flutnings málefna fatlaðra mun nýtast við það.

Með sameiningu ráðuneytanna tveggja skapast allt aðrar og betri forsendur til að skipuleggja þjónustu við aldraða á heildstæðan máta og tryggja undirstöðurnar fyrir flutning málaflokksins til sveitarfélaganna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að ábyrgð á heimahjúkrun yrði flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, enda horft til þess hve sú þjónusta er mikilvægur hluti af þjónustu við aldraða. Hjá Reykjavíkurborg hefur félagsleg þjónusta og heimahjúkrun verið samþætt og er nú á hendi sveitarfélagsins. Þetta er sú leið sem ég tel að við eigum að fara á landsvísu. Með því móti eflast sveitarfélögin enn frekar og geta þeirra til að sinna samþættri velferðarþjónustu við íbúa sína eykst sömuleiðis.

Fjölmörg rök eru fyrir því að flytja aukin verkefni til sveitarfélaganna. Staða þeirra mun eflast á komandi árum og það er nauðsynlegt að þeim vaxi ásmegin, meðal annars með áframhaldandi sameiningu sveitarfélaga. Það er löngu tímabært að samþætta velferðarþjónustu á hendi sveitarfélaganna og efla staðbundið lýðræði með flutningi verkefna heim í hérað þar sem fólkið býr sem þarf á þjónustunni að halda. Reynsla þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa að sér aukin verkefni á þessu sviði mælir með því að þessi leið sé farin. Ég nefni einnig að mörg sveitarfélög hafa leitað til ráðuneytisins og lýst áhuga sínum á að taka að sér þjónustu við aldraða sem fyrst. Áhugi sveitarfélaganna er því fyrir hendi, enda tel ég augljóst að með flutningi málefna fatlaðra og aldraðra skapist veruleg samlegðaráhrif hjá sveitarfélögunum sem gera mögulegt að veita meiri þjónustu fyrir sömu fjármuni.

Þegar rætt er um flutning málefna fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaga er mikilvægt að muna að verið er að tala um fyrirkomulag á þjónustu við fólk. Það gefur augaleið að hvorki þurfa allir aldraðir á sömu þjónustu að halda né fólk með fötlun af einhverju tagi. Aldraðir eru ekki einsleitur hópur með sömu þarfir og áhugamál og aðstæður aldraðra eru afar breytilegar, líkt og við á um fólk á öllum aldri. Þegar fólk þarf að nýta sér velferðarþjónustu á ekki að skipta meginmáli hvort viðkomandi er aldraður eða fatlaður. Eðlilegast finnst mér að þjónusta sé veitt hverjum og einum í samræmi við þarfir og persónubundnar aðstæður. Öflug og samþætt velferðarþjónusta á hendi sveitarfélaganna gefur færi á þessari nálgun og með því fyrirkomulagi sé ég fyrir mér að áður en langt um líður getum við sagt skilið við sérlög um þjónustu við tiltekna hópa eins og lög um málefni aldraðra og fatlaðra. Þær lagasetningar áttu eflaust rétt á sér á sínum tíma þar sem þörf var á að draga fram og tryggja ákveðin réttindi. Með breyttum viðhorfum og aukinni áherslu á fjölbreytni samfélagsins sé ég hins vegar fyrir mér að hver og einn fái notið sín sem einstaklingur og eigi vísa þjónustu og tiltekin réttindi, án þess að vera merktur, flokkaður og dreginn í dilk með öðrum sem hann á kannski fátt sammerkt með.

Það líður að jólum og brátt tekur við nýtt ár með margvíslegum áskorunum og nýjum verkefnum. Við skulum horfa bjartsýn fram á veginn og munum að brátt hækkar sólin aftur á lofti. Gleðileg jól og farsælt nýtt ár!

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta