Hoppa yfir valmynd
16. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 590/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 590/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A og

B

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. nóvember 2021, kærðu A og B til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. september 2021, um að synja beiðni þeirra um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um hlutdeildarlán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) með umsókn, dags. 27. júlí 2021. Umsókn kærenda var samþykkt með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. ágúst 2021, en fjárhæð hlutdeildarláns var lækkuð sem nam eigin fé þeirra umfram 5% af kaupverði. Kærendur fóru fram á endurupptöku málsins með erindum 15. og 21. september 2021. Með ákvörðun HMS, dags. 30. september 2021, var þeirri beiðni synjað.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 5. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð HMS ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 23. nóvember 2021, og var hún send kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. nóvember 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur greina frá því að umsókn þeirra um hlutdeildarlán hjá HMS hafi verið samþykkt og þau séu þakklát fyrir það. Í ferlinu hafi hins vegar komið í ljós við skoðun Creditinfo að meiri fjármunir hafi verið á reikningi þeirra en sú upphæð sem hafi átt að fara í innborgun á fasteigninni. Kærendur vilji rekja ástæður þess í örstuttu máli og óski eftir skilningi á stöðunni. Amma, mamma og pabbi annars kærenda hafi lánað þeim 2,3 milljónir kr. til að fjárfesta í meðal annars gólfefni og öðru nauðsynlegu innbúi. Þeir fjármunir hafi ekki átt að fara í innborgun á eignina sjálfa, enda ekki fjármunir í þeirra eigu heldur lán til þess meðal annars að fjárfesta í innbúi. Kærendur óski eftir því að þessu verði sýndur skilningur, enda þeirra fyrsta fasteign og ekki hægt að nýta sömu krónuna tvisvar. Kærendur þurfi að greiða til baka fjölskyldulánið og því yrði það töluvert högg ef þau þyrftu nú að taka aukalán eða safna fyrir öllu því sem fasteignakaupum fylgi. Ef kærendur hefðu áttað sig á þessu þá hefðu þessir fjármunir aldrei verið á þeirra reikningi. Kærendur óski að þessu verði sýndur skilningur svo að þau geti millifært til baka á ömmuna og foreldrana. Þau muni svo aðstoða kærendur með öðrum hætti við það sem að framan greini.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð HMS kemur fram að kærendur hafi sótt um hlutdeildarlán hjá stofnuninni þann 27. júlí 2021 vegna kaupa á fasteign að C. Með umsókn hafi fylgt kauptilboð og staðfesting á eigin fé að fjárhæð 5,6 m. kr. samkvæmt yfirliti úr banka. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, hafi HMS samþykkt umsókn kærenda um hlutdeildarlán en lækkað hlutdeildarlánið sem hafi numið því eigin fé sem hafi verið umfram 5% af kaupverði. Í kjölfarið hafi kærendur óskað eftir endurupptöku málsins á grundvelli þess að um gjöf væri að ræða sem ætluð væri til að setja gólfefni á íbúðina og kaupa innbú. Beiðni um endurupptöku hafi verið lögð fyrir lánanefnd HMS þann 27. september sl. en hafi verið synjað á grundvelli þess að skilyrði til endurupptöku væru ekki uppfyllt.

Fjallað sé um hlutdeildarlán í VI. kafla A. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Í 29. gr. b. sé að finna almenn skilyrði hlutdeildarlána en þar komi fram í 3. tölul. að umsækjandi skuli leggja fram að lágmarki 5% eigið fé. Eigi umsækjandi meira eigið fé en sem nemi 5% kaupverðs komi það sem umfram sé til lækkunar hlutdeildarláni. Umsækjanda sé þó heimilt að halda eftir eignum sem telja megi að séu honum og fjölskyldu nauðsynlegar samkvæmt reglugerð sem ráðherra setji. Í reglugerð nr. 1084/2020 um hlutdeildarlán sé fjallað nánar um mat á eigin fé og undanþágur frá almennum skilyrðum, þar með talið 3. tölul. 29. gr. b. Í 3. tölul. 11. gr. reglugerðarinnar komi fram sama regla og í 3. tölul. 29. gr. b. en þar komi einnig fram að með eigin fé sé átt við þá fjárhæð sem eftir standi þegar skuldir hafi verið dregnar frá eignum umsækjanda. Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar sé svo nánar talið upp hvað heimilt sé að halda eftir af eigin fé en þar segi:

„Þrátt fyrir skilyrði 3. tölul. 11. gr. um að eigi umsækjandi meira en 5% eigið fé komi það sem umfram er til lækkunar á hlutdeildarláni er umsækjanda heimilt að halda eftir:

a. lausafjármunum sem undanskildir eru fjárnámi skv. 43. gr. laga um aðför,

b. hóflegri bifreið,

c. sérútbúinni bifreið sem er nauðsynleg vegna fötlunar eða sjúkdóms,

d. fjármunum sem nauðsynlegir eru til að laga íbúð að sérstökum þörfum vegna fötlunar eða sjúkdóms umsækjanda eða annarra heimilismanna,

e. skaðabótum og vátryggingabótum fyrir líkamstjón,

f. allt að 1,5% af kaupverði íbúðarinnar til annarra ráðstafana, svo sem til að mæta óvæntum útgjöldum,

g. allt að 20% hlut í íbúð sem hann hefur eignast fyrir arf eða á annan hátt, enda sé sýnt

fram á að vandkvæðum sé bundið að selja eignarhlutann.“

F. liðurinn sé meðal annars hugsaður til að mæta útgjöldum vegna kaupa eða annarra ráðstafana vegna flutninga og innbús. Með umsókn kærenda hafi fylgt staðfesting á eigin fé í formi viðskiptayfirlits frá viðskiptabanka kærenda en það hafi sýnt innistæður samtals að fjárhæð 5.611.354 kr. Þá hafi kærendur einnig átt bíl að andvirði 1.750.000 kr. Eigið fé þeirra hafi því verið metið í heildina 14,2% af kaupverði eignarinnar sem hafi verið 51,9 milljón kr. samkvæmt kauptilboði. Við mat á lánveitingu hafi andvirði bílsins verið dregið frá eigin fé samkvæmt b. lið 3. mgr. 16. gr. Þá hafi staðið eftir eigið fé sem hafi numið 10,8% af kaupverði fasteignarinnar. Að teknu tilliti til heimildar til að halda eftir 1,5% af kaupverði fasteignar samkvæmt f. lið 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar hafi hlutdeildarlánið verið lækkað sem hafi numið því eigin fé sem umfram hafi verið og því hafi verið samþykkt hlutdeildarlán sem hafi numið 15,6% af kaupverði fasteignarinnar. Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að rétt hefði verið að hlutdeildarlánið hefði átt að nema 15,7% af kaupverði og það hafi verið leiðrétt.

Í kjölfar samþykktar HMS hafi kærendur haft samband og óskað skýringa á því af hverju hlutdeildarlánið hafi verið lækkað og þau hafi verið upplýst um að lánið hefði verið lækkaði í ljósi eigin fjár á grundvelli framangreindra reglna. Kærendur hafi þá upplýst að hluti fjármunanna hafi verið gjöf eða lán til þess að mæta tilteknum kostnaði vegna kaupanna, svo sem gólfefna og innbús, en í samskiptum við HMS hafi ýmist verið haldið fram að umræddir fjármunir væru lán eða gjöf. Kærendur hafi jafnframt óskað eftir endurupptöku málsins á grundvelli þessa en þeim hafi verið synjað á grundvelli þess að ekki hafi verið sýnt fram á að upphafleg ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Helst hafi verið litið til þess að samkvæmt skattframtölum kærenda hafi þau átt innistæður í bönkum samtals að fjárhæð 5,3 milljónir kr. Það sé mat HMS að um gjöf hafi verið að ræða, enda liggi ekki fyrir samningur á milli aðila um lánveitinguna, auk þess sem umræddir fjármunir hafi verið á reikningi kærenda við lok árs 2020, rúmlega hálfu ári áður en umsókn um hlutdeildarlán hafi verið lögð fram. Af þeirri ástæðu hafi HMS enga ástæðu til að ætla annað en að kærendur séu eigendur umræddra fjármuna og gera eigi kröfu um að kærendur verji öllu sínu eigin fé til kaupanna.

Að öllu framangreindu virtu sé það mat HMS að ekki sé heimild fyrir stofnunina til að horfa fram hjá umræddum fjármunum við mat á veitingu hlutdeildarláns og þar af leiðandi hafi stofnuninni borið að skerða hlutdeildarlánið.

HMS geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. september 2021, um að synja beiðni kærenda um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 25. ágúst 2021. Af kæru má ráða að kærendur séu öðru fremur að kæra þá ákvörðun og þar sem kæra barst innan kærufrest verður sú ákvörðun tekin til efnislegrar umfjöllunar.

Í VI. kafla A. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál er fjallað um hlutdeildarlán. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. a. er HMS heimilt að veita hlutdeildarlán til þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og til þeirra sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár, enda hafi viðkomandi tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling, eða 10.560.000 kr. á ári samanlagt fyrir hjón eða sambúðarfólk miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára aldri sem er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu.

Í 29. gr. b. laga nr. 44/1998 er kveðið á um skilyrði hlutdeildarlána. Þar segir í 1. mgr. að til þess að geta fengið hlutdeildarlán þurfi umsækjandi, til viðbótar því að vera undir tekjumörkum samkvæmt 29. gr. a., meðal annars að leggja fram eigið fé sem nemur að lágmarki 5% kaupverðs. Eigi umsækjandi meira eigið fé en sem nemur 5% kaupverðs kemur það sem umfram er til lækkunar hlutdeildarláni. Þó skal umsækjanda heimilt að halda eftir eignum sem telja má að séu honum og fjölskyldu hans nauðsynlegar, samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

Í 3. tölul. 11. gr. reglugerðar nr. 1084/2020 um hlutdeildarlán er samhljóða ákvæði en þar segir einnig að með eigin fé sé átt við þá fjárhæð sem eftir standi þegar skuldir hafi verið dregnar frá eignum umsækjanda. Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að umsækjanda sé þó heimilt að halda eftirfarandi eftir af eigin fé:

„a. lausafjármunum sem undanskildir eru fjárnámi skv. 43. gr. laga um aðför,

b. hóflegri bifreið,

c. sérútbúinni bifreið sem er nauðsynleg vegna fötlunar eða sjúkdóms,

d. fjármunum sem nauðsynlegir eru til að laga íbúð að sérstökum þörfum vegna fötlunar eða sjúkdóms umsækjanda eða annarra heimilismanna,

e. skaðabótum og vátryggingabótum fyrir líkamstjón,

f. allt að 1,5% af kaupverði íbúðarinnar til annarra ráðstafana, svo sem til að mæta óvæntum útgjöldum,

g. allt að 20% hlut í íbúð sem hann hefur eignast fyrir arf eða á annan hátt, enda sé sýnt

fram á að vandkvæðum sé bundið að selja eignarhlutann.“

Samkvæmt gögnum málsins áttu kærendur samtals 5.611.354 kr. inn á bankabókum þegar þau lögðu inn umsókn um hlutdeildarlán. Fjárhæð lánsins var lækkuð sem nam því eigin fé þeirra sem var umfram 5% af kaupverði íbúðarinnar, að teknu tilliti til heimildar f. liðar 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar um að halda eftir allt að 1,5% af kaupverðinu. Af hálfu kærenda hefur komið fram að hluti þessara fjármuna hafi verið lán frá ættingjum til þess meðal annars að fjárfesta í gólfefni og innbúi.

Úrskurðarnefndin telur ljóst að kærendur hafi átt eigið fé að fjárhæð 5.611.354 kr. þegar þau lögðu inn umsókn um hlutdeildarlán. Úrskurðarnefndin telur ekkert benda til annars en að kærendur hafi verið eigendur umræddra fjármuna. Í því samhengi lítur nefndin meðal annars til þess að rúmlega hálfu ári áður en umsókn um hlutdeildarlán var lögð fram voru þeir fjármunir sem um ræðir að meginstefnu til inni á bankareikningum kærenda en engin skuld tilgreind við ættingja þeirra, sbr. skattframtal 2021. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta ákvörðun HMS, dags. 25. ágúst 2021, um lánsvilyrði vegna umsóknar kærenda um hlutdeildarlán. 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 25. ágúst 2021, um lánsvilyrði vegna umsóknar A og B um hlutdeildarlán, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta