Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 309/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 309/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070017

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. júlí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2020, um brottvísun og endurkomubann til landsins í tvö ár.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 1. júní 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júní s.á., var kæranda synjað um alþjóðlega vernd auk þess sem honum var synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 2. ágúst s.á. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda fylgt úr landi þann 26. apríl 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2020, var kæranda á ný brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 15. júlí sl. og þann 17. júlí sl. var kæranda skipaður talsmaður í málinu. Þann sama dag óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 20. júlí sl. féllst kærunefnd á þá beiðni. Þann 3. ágúst sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafi kærandi tilkynnt vegabréf sitt stolið á lögreglustöð þann 7. apríl sl. Hafi lögreglu orðið ljóst að kærandi hefði áður verið staddur hér á landi, þá undir öðru nafni, og að hann væri með endurkomubann sem lyki þann 26. apríl 2021. Væri kærandi því staddur hér á landi þrátt fyrir að endurkomubann til landsins væri enn í gildi og dvöl hans hér á landi því ólögmæt. Í ljósi framangreinds hafi stofnunin sent kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann þann 14. júní sl. sem birt hafi verið fyrir honum þann 16. júní sl. Í tilkynningunni kæmi m.a. fram að kærandi fengi ekki færi á að yfirgefa landið sjálfviljugur með vísan til a-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Hefði að mati Útlendingastofnunar ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga, með hliðsjón af alvarleika brots kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi við töku ákvörðunar um að vísa skyldi honum frá Íslandi hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga né ákvæðum stjórnsýslulaga. Byggir kærandi á því að líf hans sé í hættu, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Óttist hann að verða pyndaður, verða beittur ómannúðlegri meðferð, verða fangelsaður eða drepinn af yfirvöldum vegna myndbands sem hann hafi tekið af stjórnvöldum þar sem þau hafi verið að brjóta á réttindum annarra með ofbeldi. Bíði hann þess að verða boðaður sem vitni í því máli og hafi hann ástæðuríkan ótta um að stjórnvöld muni reyna að koma í veg fyrir að hann beri vitni. Af þeim sökum telji hann brottvísun og endurkomubann fela í sér ósanngjarna ráðstöfun skv. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga auk þess sem það sé ekki í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Loks vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað með ítarlegum hætti hvort kæranda stafi ógn af því að snúa til heimaríkis.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.

Líkt og áður greinir sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. júní 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júní s.á., var kæranda synjað um alþjóðlega vernd auk þess sem honum var synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 2. ágúst s.á. Í úrskurðinum tók kærunefnd m.a. fram að frásögn kæranda um ástæður flótta frá heimaríki væri ótrúverðug og var hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda fylgt úr landi þann 26. apríl 2019 og hófst endurkomubann kæranda þann sama dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt eyðublaði frá lögreglunni í Reykjavík, sem kærandi ritaði undir, tilkynnti kærandi vegabréf sitt og veski stolið þann 7. apríl sl. en á eyðublaðinu kemur m.a. fram að kærandi hafi komið til landsins þann 29. mars sl. Endurkomubann kæranda til landsins sem og á Schengen-svæðið er í gildi til 26. apríl 2021 og því ljóst að hann dvelur hér á landi ólöglega. Eru skilyrði til brottvísunar skv. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í greinargerð byggir kærandi á því að hin fyrirhugaða brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga með vísan til aðstæðna í heimaríki. Kærunefnd áréttar að nefndin hefur þegar tekið afstöðu til málsástæðna kæranda um aðstæður í heimaríki, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 330/2018 frá 2. ágúst 2018. Þá hefur kærunefnd þegar metið frásögn kæranda um ástæður flótta frá heimaríki ótrúverðuga en málsástæða kæranda í máli þessu er sú hin sama og við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Af gögnum málsins verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Þá er ekkert annað í gögnum málsins sem bendir til þess að brottvísun kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum með hliðsjón af tengslum hans við landið. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til að fjalla um aðrar málsástæður kæranda.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvelur hann ólöglega í landinu. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár og ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi, m.a. á ákvæðum laga um útlendinga.

Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi yfirgefið landið og mun endurkomubann til landsins því hefjast þann dag sem hann verður færður úr landi, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt, samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Hilmar Magnússon                                                                                Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta